Plast er ekki bara plast
Plast er til margra hluta nytsamlegt, enda kemur það með einum eða öðrum hætti við sögu í flestum athöfnum okkar nú til dags. En þannig hefur það ekki alltaf verið. Það var ekki fyrr en um miðja 20. öld sem farið var að fjöldaframleiða hluti úr plasti í einhverjum mæli. Núna er ársframleiðslan í heiminum hins vegar nálægt 300 milljónum tonna á ári – og sú talar hækkar að jafnaði um 4% milli ára. Með sama áframhaldi verður 400 milljón tonna markinu náð eftir 5-6 ár, þ.e.a.s árið 2020 eða þar um bil.
Plastið sem við sjáum mest af í daglegu lífi er auðkennt með tölum frá einum upp í sjö innan í þar til gerðum þríhyrningum sem prentaðir eru á plastið – og eru missýnilegir eftir því hversu sjónin er góð. Lítum nú nánar á þessa flokkun.
Plast sem auðkennt er með tölunni 1 er svokallað PET-plast eða pólýetýlen terephthalat. Það er m.a. notað í gosflöskur og hentar vel til endurvinnslu.
Plastflokkur númer 2 er pólýetýlen nánar tiltekið svokallað High Density pólýetýlen eða HDPE. Þetta er eitt algengasta og mest notaða plastefnið og er meðal annars að finna í umbúðum fyrir snyrtivörur og sitthvað fleira. Það hentar líka vel til endurvinnslu.
Plast númer 3 er svokallað PVC-plast eða pólývínýlklóríð, já eða bara vínyll. Það er notað í margs konar vörur, t.d. leikföng, regnföt, stígvél, sturtuhengi, vaxdúka, frárennslisrör (þessi appelsínugulu), rafmagnskapla og sitthvað fleira. Þessu plasti á að skila í endurvinnslu að notkun lokinni eins og öllu öðru plasti með númer frá 1 upp í 6. En PVC-plasti fylgja reyndar ýmis umhverfisvandamál sem plast númer 1 og 2 er laust við. Fyrir því eru aðallega tvær ástæður: Annars vegar inniheldur PVC-plast klór eins og nafni pólývínýlklóríð bendir til. Framleiðsla á PVC-plasti hefur meðal annars þess vegna í för með sér meiri mengun en mörg önnur plastframleiðsla og þegar PVC-plast brennur getur myndast díoxín. Meðal annars þess vegna ætti aldrei að kasta PVC-plasti á eld, né heldur að anda að sér reyk frá bruna þar sem PVC á í hlut. Hin ástæðan sem hér verður nefnd er að í PVC-plast er oft bætt hjálparefnum til að gefa plastinu þá eiginleika sem sóst er eftir hverju sinni, þannig að það verði til dæmis hæfilega hart, mjúkt eða sveigjanlegt. Þalöt eru dæmi um mýkingarefni sem oft er blandað í PVC-plast, en nokkrar gerðir þalata eru taldar raska hormónastarfsemi líkamans, auk þess sem þær geta stuðlað að ýmsum öðrum heilsuvandamálum. Af þessum sökum hefur Evrópusambandið sett reglur sem banna notkun tiltekinna þalata í leikföng, og enn strangari reglur gilda um leikföng sem gert er ráð fyrir að börn setji í munninn, þar með talda naghringi og annað slíkt. Auðvitað bragða börn stundum líka á hlutum án þess að Evrópusambandið hafi leyft þeim það, þar á meðal hlutum úr PVC-plasti, svo sem regnkápum, pennaveskjum eða þrykktum myndum á barnafötum. Þessir hlutir mega innihalda þalöt eins og reglurnar eru í dag. Líkurnar á því að börn stingi PVC-plasti upp í sig eru jafnvel meiri en fyrir annað plast, því að PVC-plasti fylgir oft forvitnilegt lykt, það er að segja það sem stundum er kallað „plastlykt“. En hér er ég reyndar kominn út á hálan ís, því að ég hef hvergi séð neinar rannsóknir á matarlyst barna á plasti. Hvað sem því líður ættu foreldrar að taka gamla naghringi og því um líkt úr umferð. Nýjar vörur af þessu tagi ættu að vera lausar við hættulegustu þalötin.
Plast númer 4 er enn ein gerðin af pólýetýlen, eða nánar tiltekið Low Density pólýetýlen eða LDPE. Þetta er eitt algengasta plastefnið, sem er m.a. að notað í alls konar plastpoka, þar á meðal innkaupapoka. Þetta efni hentar vel til endurvinnslu.
Plast númer 5 er svo pólýprópýlen eða PP. Það er algengt í umbúðum fyrir matvörur, svo sem í skyrdollum og tómatsósuflöskum – og sömuleiðis í nestisboxum og víðar, að ógleymdum frárennslisrörum (þessum gráu). Polýprópýlen hentar vel til endurvinnslu.
Plast númer 6 er pólýstýren eða PS. Það er m.a. að finna í ýmsum matarílátum, þar á meðal í frauðplastbökkum. Þessu plasti á líka að skila í endurvinnslu, en hún er þó ekki eins auðveld og þegar pólýetýlen og pólýprópýlen eiga í hlut.
Þá er bara sjöundi flokkurinn eftir. Hann er safnflokkur sem nær yfir ýmislegt annað plast, þar á meðal svokallað ABS-plast sem er notað í LEGO-kubba, pólýkarbónatplast sem hefur m.a. verið notað í mjúkar drykkjarflöskur – og líka amínóplast, þ.e.a.s. ef það er á annað borð merkt. Á Íslandi er ekki tekið við flokki númer 7 í endurvinnslu eftir því sem ég best veit, enda er flokkurinn sundurleitur og því dugar engin ein endurvinnsluaðferð á hann. Amínóplastið getur verið varasamt, sérstaklega ef það er tekið að eldast. Úr því geta melamín og formaldehýð nefnilega hugsanlega lekið í matvæli sem eru geymd í plastinu, sérstaklega ef hitastigið fer yfir 70 gráður, t.d. í örbylgjuofninum. Nýtt amínóplast ætti hins vegar að vera nokkuð öruggt, því að nýverið voru settar strangari reglur um þennan leka. Pólýkarbónatplastið er heldur ekki algott, því að það inniheldur efnið Bisfenól-A eða BPA, sem talið er geta gert ýmsan óskunda ef það berst inn í líkamann. Þessu hafa þjóðir Evrópusambandins brugðist við með því að banna notkun efnisins í barnasnuð og pela. En það leynist reyndar víðar, svo sem í vatnsbrúsum sem notaðir eru í vatnsvélar (á skrifstofum og víðar), svo og í plasthúð innan á sumum niðursuðudósum.
Til að gera langa sögu stutta er líklega best fyrir heilsuna og umhverfið að velja frekar vörur úr pólýetýleni eða pólýprópýleni heldur en úr öðru plasti, þ.e.a.s. ef maður hefur eitthvert val. Þarna er ég sem sagt að tala um plastflokka 1, 2, 4 og 5. Þetta plast inniheldur alla vega ekki klór og er að mestu laust við heilsuspillandi aukaefni.
Og að lokum þetta: Látið aldrei plast úr hendi sleppa utandyra. Af þeim 300 milljónum tonna af plasti sem eru framleidd árlega telja sumir að allt að 10%, eða um 30 milljón tonn, endi í sjónum. Þar mun allt þetta plast velkjast um aldir, því að plast brotnar seint niður í náttúrunni. Og svo má heldur ekki gleyma því, að í einu kílói af plasti er álíka mikil orka og í einu kílói af olíu, fyrir nú utan það að til að framleiða þetta eina kíló þurfti um það bil tvö kíló af olíu. Ekki hendir maður olíu. Hún er dýr.
(Þessi pistill er í öllum aðalatriðum samhljóða útvarpspistli Stefáns Gíslasonar sem fluttur var í þættinum Sjónmál á Rás 1 29. maí 2013. Pistillinn hefur hins vegar ekki birst í skrifaðri útgáfu áður).
Birt:
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Plast er ekki bara plast“, Náttúran.is: 14. janúar 2015 URL: http://nature.is/d/2015/01/14/plast-er-ekki-bara-plast/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.