Áramótakveðja Náttúrunnar 2015
Þegar staðið er á tímamótum er gjarnan litið um öxl og fram á veg.
Hvað unnist hefur, hvað tapast og hvert skal stefna?
Í umhverfismálum hafa engir stórir sigrar átt sér stað en þó hefur árangri verið náð á mörgum sviðum. Til dæmis má nefna að Landsvirkjun bauð Landvernd og öðrum náttúruverndarsamtökum í heimsókn á fyrirhugað stæði Búrfellslundar, vindmyllugarðs sem ætlað er að nýta hálendisvindinn sem er mikill og stöðugur. Þar kom fram að vindur er meiri þann hluta ársins sem vænta má minna vatns. Þannig dregur nýting vindorku úr þörf á stærri uppistöðulónum og þar með umhverfisspjöllum.
Fulltrúar náttúrverndar fengu þarna tækifæri til að ræða beint og milliliðalaust við verkfræðinga og stjórnendur verkefnisins á undirbúningsstigi. Skiptast á skoðunum og koma með athugasemdir sem geta stuðlað að betri sátt um framkvæmdir. Glöggt er gests augað og ljóst að sjónarmið sem koma fram svo snemma í ferlinu geta sparað vinnu, kostnað og ekki síst deilur þegar lengra er haldið.
Ekki gengu þó öll samskipti við framkvæmdaaðila svo vel fyrir sig. Í Gálgahrauni var ofbeldi beitt af hálfu verktaka og Vegagerðarinnar með fulltyngi lögreglu til að hrekja á brott og handtaka borgara sem vildu fá úr þvi skorið hvort löglega væri staðið að framkvæmdum.
Ekki eru öll kurl komin til grafar í því máli og líklegt að í ljós komi að embættismenn og stofnanir hafi brotið alvarlega á réttindum borgaranna, samtaka og náttúrunnar.
Á vettvangi okkar á Náttúran.is hefur ekki verið setið auðum höndum. Í vor opnuðum við nýjan vef, útgáfu 3.0. Að baki lá endurhönnun á öllu útliti og framsetningu en það sem minna ber á er enduhönnun á gagnagrunnum sem liggja til grunvallar innihaldi og venslum þess efnis sem birt er á Náttúran.is, tungumálakerfið öflugra og úrvinnsla upplýsinga skilvirkari.
Húsið, gagnvirt safn hagnýtra upplýsinga um flest það sem við notum á heimili, í vinnu eða umhverfi okkar var endurgert á vefnum og gefið út sem smáforrit fyrir iOS og Android snjalltæki. Því hefur verið tekið geysivel og var um tíma á topp 10 lista smáforrita á íslenskum markaði.
Náttúran.is er í formlegu samstarfi við Vistbyggðarráð og haldin var sameiginleg morguverðarkynning um vistvæn byggingarefni. Á þeim vettvangi er mikil þróun og vænta má þess að ávextir þeirrar vinnu líti dagsins ljós þegar líður á árið.
Græna kortið er orðið stærra og aðgengilegra með fjölbreyttum grunnkortum. Á þvi birtast um 150 flokkar um menningu, græna hagkerfið og náttúru. Gott aðgengi að gögnum frá Landmælingum Íslands, Vegagerðinni, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og ekki síst þvi frábæra opna hugbúnaðarframtaki Open Street Map hefur verið ómetanlegt í þessari vinnu.
Prentútgáfa er væntanleg á nýju ári og verður henni dreift á helstu ferðamannastöðum eins og áður. Kortin hafa rokið út og fjölmargir þakkað framtakið. Tveir háskólastúdentar frá Seoul komu hingað til að kynna sér Grænkortagerð og verkefnið var einnnig kynnt víða á ráðstefnum og í skólum.
Gagnagrunnur Græna kortsins býður uppá samantekt þjónustu, áhugaverðra staða, friðlýsinga og ýmissa annarra upplýsinga sem nota má til gerðar sérkorta á vef eða prenti fyrir sveitarfélög, gististaði eða aðra sem vilja upplýsa gesti sína um nærumhverfi sitt.
Heiti flokka og skýringar eru nú á fimm tungumálum; íslensku, ensku, þýsku, frönsku og ítölsku.
Endurvinnskukortið hefur einnig tekið breytingum og unnið er að viðbótum sem auka notagildi þess til muna. Viðræður standa yfir við sveitarfélög og þjónsutuaðila á sviði endurvinnslu og sorphirðu um land allt um samstarf þar sem ólíkar aðstæður eru settar fram með skipulögðum og stöðluðum hætti svo íbúar og ferðamenn geti aflað sér dagréttra upplýsinga um leiðir til förgunar úrgangs hvar á landinu sem er.
Endurvinnslukortið er á íslensku og ensku.
Fjöldi fólks hefur lagt okkur lið með ýmsum hætti á árinu og kunnum við þeim öllum bestu þakkir og hlökkum til áframhaldandi samstarfs á næsta ári.
Árið framundan er bjart og verkefnin spennandi. Árangur í umhverfismálum og framfarir í átt að sjálfbæru samfélagi byggir á upplýsingum og meðvitund um nærumhverfi í samhengi við hið alþjóðlega.
Enginn breytir öllu en öll getum við breytt einhverju og við munum svo sannarlega halda áfram að leggja okkar að mörkum á nýju ári.
Að lokum þökkum við öllum okkar dyggu stuðningsmönnum, bæði ráðuneytum, stofnunum, fyrirtækjum og samlögum út um allt land.
Birt:
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Áramótakveðja Náttúrunnar 2015“, Náttúran.is: 31. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/31/aramotakvedja-natturunnar-2015/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 1. janúar 2015