Með náttúrunni – Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 4. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Ómar Ragnarsson skemmtikraft, fréttamann, rithöfund, flugmann, lagasmið og kvikmyndagerðamann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni. Hann sagði upp störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2006 vegna stöðugra ásakanna um hlutdrægni í fréttaflutningi af Kárahnjúkamálinu. Síðan hefur hann helgað líf sitt baráttunni fyrir náttúruvernd og verið óþreytandi á því sviði.
Að kvöldi 26. september 2006 leiddi Ómar ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 og Stöðvar 2 um mann ársins sama ár varð Ómar hlutskarpastur. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna Noregs og víðar til að kynna sér þjóðgarða og skipan náttúrverndarmála og heimsótti 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði.
Hann hefur gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina In merorian um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Ómar tók þátt í baráttunni um verndun Gálgahrauns og vakti það þjóðarathygli þegar hann var borinn út í lögreglubíl vegna mótmælasetu sinnar þar. Ómar er í eldlínunni þessar vikurnar og segir frá áhrifavöldum í lífi sínu og augnablikum sem skiptu sköpum fyrir hann.
Honum er mikið niðri fyrir þegar hann fjallar um handtökuna í Gálgahrauni. Hann segir frá ferðum í þjóðgarða erlendis. Hann segir frá uppblæstri og ástandinu á Kárahnjúkasvæðinu í dag en hann er þar mikið á ferðinni. Hér talar hann um græðgina, ofnýtingu jarðvarmans, sæstreng og nýtt hrunæði og veg og línu yfir Sprengisand.
Útdráttur úr viðtalinu
Orkufrekur iðanaður og fullnýting orkunnar á Íslandi
Ofnýting jarðvarmanns á Hellisheiði
Kárahnjúkavirkjun var alveg ótrúlegt fyrirbrigði og við lærðum ekkert af henni segir Ómar. Varðandi Hellisheiðarvirkjun kemur í ljós að öll loforðin þar voru merkingarlaus. Hún átti að vera hagkvæm og orkan átti að vera hrein og endurnýjanleg. Það átti að vera tækni sem hreinsaði loftið og það var aldrei minnst á manngerða jarskjáfta. Það er ekki búið að leysa neitt af þessum vandamálum og það er alltaf verið að biðja um fresti og framlengingar varðandi lausnir þeirra.
Varðandi Gálgahraun var það svipað eða verra því menn trúðu líklega sumu af því sem þeir settu fram varðandi Hellisheiði. Kannski hafa ráðamenn sem stóðu fyrir Gálgahraunsveginum trúað einhverju sjálfir en þá var það áunnin vanþekking. Enn er haldið áfram varðandi blekkingar um endurnýjanlega orku. Verst er að allar jarðvarmavirkjanir sem settar hafa verið í nýtingarflokk verða nýttar og má gera ráð fyrir að þær endist í 50 ár.
Bragi Árnason gerði merkilega tilraun á Hellisheiðar- og Nesjavallasvæðinu sem ekki er talað um. Niðurstaða hans var að til þess að hægt væri að nýta svæðið á sjálfbæran hátt mættum við ekki nýta nema einn þriðja af þeirri orku sem hægt er að fá á 50 árum. Næstu 50 ár væri hægt að nýta annan þriðja hlutann og þegar komið væri hringinn mætti byrja aftur á fyrsta hlutanum. Það ætti að vera svona áættlun fyrir allt Ísland.
Fegurstu orðin eru „orkufrekur iðanður“
Ólafur Flóvens og Guðni Axelsson skrifuðu grein í Morgunblaðið og sögðu að til að hægt væri að nýta jarðvarmaorku á sjálfbæran hátt yrði að byrja mjög smátt og fara rólega af stað, sjá hver þróunin yrði og nýta aldrei meira en svo að fyrirsjáanlegt væri að þetta væri sjálfbær orka. Ef slíkt hefði verið gert þá væri Hellisheiðarvirkjun aðeins 60 megavött eins og á Nesjavöllum, ekki 303 megavött til að hægt sé að gera bindandi orkusamning við álver sem mun pumpa þessu upp á 50 árum.
Orkan er þegar farin að dvína og því þarf að fara í Hverahlíð og áfram. Rammaáætlun er ónýt því það er farið af stað og lofað að hin og þessi svæði séu í biðflokki þó fyrirséð sé að þau muni lenda í nýtingarflokki og Reykjanesskagi verður einn samfelldur ruslahaugur. Komandi kynslóðir verða að halda áfram á sömu braut og við, þeim er stillt upp við vegg og munu ganga á rétt komandi kynslóða og þannig koll af kolli.
Ein fegustu orðin sem notuð eru af Íslendingum eru „orkufrekur iðnaður“. Nú eru það kísilver, þau eru skárri en álver en það virðist vera skilyrði að fá hingað orkufrekan iðnað. Það er enn talað um það sem svo ofboðslega gott mál. Enn ríkir sama hugarfarið.
Við erum á 21. öldinni og þegar orkulindir jarðar munu ganga til þurrðar vilja menn bruðla sem mest með orkuna og selja hana á sem lægstu verði til að geta örugglega nýtt hana. Þetta er ódýrasta orka í heimi og áherlan er á að moka henni út því magnið á að vera svo mikið. Þegar á heildina er litið er allt orkumagn Íslands minna en 1 % af orkuþörf Evrópu. Árið 2007 var í Mogganum Reykjavíkurbréf um Ísland sem Barein norðursins. Við vorum kölluð Arabar norðursins og ættum að geta stjórnað orkuverði í Evrópu. Okkur var talið trú um þetta.
Sæstrengur er ávísun á aðra hrungræðgi
Sæstrengurinn er ávísun á aðra hrungræðgi, það þarf að selja sem mest af orkunni í gegnum þennan streng, þá verður fyrst virkjanaæði. Það er hættan. Það er margt bæði með og á móti þessum sæstreng. En það er mikið verið að gylla þetta. Verðið mun hækka en forstjórinn segir að það verði eins og með fiskinn, þegar farið var að flytja hann ferskan út með flugi hækkaði fiskverðið svo mikið að við græðum á því í heildina þó við verðum að borga meira fyrir fiskinn úti í fiskbúð.
Gallinn er bara sá að við þurfum ekki svo oft að kaupa fisk svo það skiptir engu máli en við þurfum ljós og hita á hverjum degi, sá er munurinn. Ég óttast þessa sæstrengs umræðu, sé svo margt sem er að henni og óttast mest æðið, að það verði allt virkjað sundur og saman. Það koma alltaf nýjar kröfur, við þurfum alltaf að skaffa meiri og meiri orku. Það er ekki alveg sami þrýstingur núna því það þarf svolítið til að reisa mengandi álver. Því er hugsanlegt að ef maður stendur frammi fyrir tveimur arfavondum kostum að maður muni frekar berjast fyrir álverum en hinu en ég verð nú sennilega ekki sakaður um það segir Ómar og hlær.
Sprengisandur næstur
Það er búið að sökkva Kárahnjúkum, nú á að taka Sprengisand. Það hefur verið gerð skoðanakönnun meðal erlendra ferðamanna um hvað trufli þá mest þegar þeir vilja upplifa víðáttu og ósnortna náttúru hér á Íslandi, sem ekki er að finna annars staðar í Evrópu og erfitt er að nálgast í Ameríku, því þar þarf að fara lengri leið.
Ef ferðamenninrir vissu mikið um umhverfismál þá myndu þeir náttúrulega segja að Kárahnjúkavirkjun truflaði þá mest. Þegar þeir ferðast um Sprengisandsleið sjá þeir Hvíslarvötn en vita ekki alveg hvort þau eru manngerð eða ekki, það truflar þá ekki mikið. Kannske þó ef þeim væri sagt að þeim fylgir mikið sand- og leirfok og drulla sem annars væri ekki til staðar en þeir vita það ekki. Vegir trufla ekki heldur mikið nema þá kannski stórar hraðbrautir.
Nú á að leggja veg um Sprengisand sem á að vera svo umhverfisvænn og lítil truflun af en það á að vera 90 km hámarkshraði og þá þarf ekki að vita meira um það. Vegir eru verri en ferðamennirnir hafa verið í þjóðgörðum erlendis þar sem eru vegir. Það sem truflar þá mest eru háspennulínur, vegna þess að slíkar línur inni á hálendinu eru merki um að þetta sé virkjanasvæði, hreinlega iðnvæðing og ekkert annað. Ef þeir sjá háspennulínu í Skagafirði þar sem á að leggja Blöndulínu truflar það ekki eins vegna þess að þar eru bæir, tún, skurðir og vegir og fleira manngert. Þegar við höfum þessar upplýsingar þá er fáránlegt að ætla að leggja háspennulínu yfir það svæði þar sem það truflar ferðaþjónustuna mest. Sem betur fer hefur ferðaþjónustan lagst gegn þessu núna þó hún hefði ekki gert það fyrir 10 árum. Ég fagna yfirlýsingu Ragnheiðar Elínar ráðherra um að þetta sé ekki á dagskrá á næstu 10 árum.
Viðhald á núveradi vegum mjög ábótavant, sumir heilsuspillandi þvottabretti
Þegar ég var spurður um það í Mogganum hvers vegna ég væri á móti Sprengisandsvegi benti ég á að það vegakerfi sem við höfum er svo vanrækt að ferðaþjónustan stynur undan því. Það vantar 30-40% upp á að vegirnir sem við eigum fyrir eyðilegist ekki, þeir eru að grotna niður. Hvers vegna í ósköpunum á þá að rjúka til og gera nýja vegi, eins og alltaf rjúka í að gera eitthvað nýtt en halda því svo ekki við.
Inni í sveitafélögum eins og Árborg eru vegir sem eru algjört þvottabretti og að ekki sé talað um Kjalveg. Auðvitað er fólk að fara í safarí þar en ekki svona safarí. Vegurinn er svo vondur að það fer gífurlegur tími í þennan hristing. Þegar loksins er komið í Kerlingarfjöll má fólk ekki vera að því að gera neitt. Rútan ætti að geta keyrt fólki og leyft því að horfa niður í Hveradalinn en það er engin tími. Samkvæmt lækni er ferðin yfir Kjalveg heisuspillandi og nýjustu rúturnar missa alla fjöðrun á leiðinni þarna yfir ef farið er yfir 20 km því tölvurnar í þeim þola ekki þvottabrettið.
Menn eru enn á sama stigi og fyrir 60 árum. Það verður að byggja, það verða að koma mannvirki hvar sem því verður fyrir komið eða orkufrekur iðanaður.
Menn eru enn á sama stigi og 1960 þegar hér voru bara malarvegir og yfir 95% af útflutningi var fiskur. Við vorum vanþróuð að þessu leiti þó við værum menningarþjóð með fínt flug en þó bara malarvelli þar.
Þá samþykkti ég og var eindregið fylgjandi álveri í Straumsvík. Það var talin risa framkvæmd en þó aðeins 33 tonn, nú getur ekkert álver byrjað minna en með 360 tonn. Við erum eins og fíkniefnaneytendur, skammtarnir verða alltaf stærri og stærri það sem var risaskamtur 1965 er bara ekki neitt í dag segir Ómar að lokum.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Ómar Ragnarsson IVBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni – Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 4. þáttur“, Náttúran.is: 6. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/05/med-natturunni-omar-ragnarsson-i-eldlinunni-4-that/ [Skoðað:3. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 5. desember 2014
breytt: 7. desember 2014