Næsta Hrafnaþing verður næstkomandi miðvikudag, 26. nóvember kl. 15:15. Þá mun Ute Stenkewitz flytja erindi sem nefnist „Sníkjudýrasýkingar, líkamsástand og stofnbreytingar rjúpu á Íslandi“.

Vinsamlegast athugið: Ákveðið hefur verið að Hrafnaþing verði framvegis á hefðbundum tíma, kl. 15:15-16:00.

Rjúpan, Lagopus muta, er vinsælasti veiðifugl Íslendinga og hefðbundinn jólamatur á borðum margra landsmanna. Stofnstærð rjúpunnar breytist á kerfisbundinn máta, stofninn rís og hnígur og hver sveifla tekur um 10 ár. Hvað veldur þessum sveiflum er ekki vitað en mögulegir áhrifavaldar geta tengst fæðuvali, rándýrum eða sjúkdómsvöldum.

Rjúpa í vetrarbúning. Ljósm. Daníel Bergmann.Í erindinu fjallar Ute um doktorsverkefni sitt sem hófst árið 2006 en þar er kannað hvernig stærð rjúpnastofnsins tengist heilsufari fuglanna. Meginmarkmið verkefnisins er að lýsa því hvernig sníkjudýrasýkingar í rjúpum tengist aldri fuglanna, líkamsástandi og stofnþéttleika.

Í byrjun október 2006 til 2012 var 632 rjúpum safnað á Norðausturlandi. Þar af var 631 rjúpa (99,8%) sýkt með a.m.k. einni tegund sníkjudýra. Ungfuglar voru almennt með fleiri sníkjudýr en fullorðnir fuglar. Þéttleiki rjúpna að vori á Norðausturlandi endurspeglaði líkamsástand fuglanna haustið á undan. Smittíðni sumra sníkjudýra, sérstaklega hníslasýkingar (Coccidia) hjá ungfuglum, sýndi hliðstæðar breytingar og voru á stofnstærð rjúpu en með um eins og hálfsárs töf.

Þessar niðurstöður, varðandi smit í ungfuglum, vekja athygli, en það eru einmitt kerfisbundnar breytingar á afföllum sértækum fyrir ungfugla sem ráða því að stofninn rís og hnígur. Fram til þessa eru niðurstöðurnar í samræmi við þá tilgátu að sníkjudýr séu einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á stofnstærð rjúpu á Íslandi.


Birt:
24. nóvember 2014
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Hrafnaþing - Sníkjudýrasýkingar, líkamsástand og stofnbreytingar rjúpu á Íslandi“, Náttúran.is: 24. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/24/hrafnathing-snikjudyrasykingar-likamsastand-og-sto/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: