Með náttúrunni - Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 2. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Ómar Ragnarsson skemmtikraft, fréttamann, rithöfund, flugmann, lagasmið og kvikmyndagerðamann þarf ekki að kynna fyrir þjóðinni. Hann sagði upp störfum á fréttastofu Ríkisútvarpsins árið 2006 vegna stöðugra ásakanna um hlutdrægni í fréttaflutningi af Kárahnjúkamálinu. Síðan hefur hann helgað líf sitt baráttunni fyrir náttúruvernd og verið óþreytandi á því sviði.
Að kvöldi 26. september 2006 leiddi Ómar ríflega 10 þúsund manns í mótmælagöngu (Jökulsárgöngu) niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Í kosningum Rásar 2 og Stöðvar 2 um mann ársins sama ár varð Ómar hlutskarpastur. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna Noregs og víðar til að kynna sér þjóðgarða og skipan náttúrverndarmála og heimsótti 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði.
Hann hefur gert fjölmarga þætti og myndir um náttúruvernd, meðal annars myndina In merorian um Kárahnjúka og svæðið fyrir norðan Vatnajökul. Ómar tók þátt í baráttunni um verndun Gálgahrauns og vakti það þjóðarathygli þegar hann var borinn út í lögreglubíl vegna mótmælasetu sinnar þar. Ómar verður í eldlínunni næstu vikurnar og segir frá áhrifavöldum í lífi sínu og augnablikum sem skiptu sköpum fyrir hann. Honum er mikið niðri fyrir þegar hann fjallar um handtökuna í Gálgahrauni. Hann segir frá ferðum í þjóðgarða erlendis. Hann segir frá uppblæstri og ástandinu á Kárahnjúkasvæðinu í dag en hann er þar mikið á ferðinni og hann er ekki sáttur við framkvæmdirnar í Hellisheiðarvirkjun.
Að þessu sinni segir Ómar okkur frá Árósarsáttmálanum og því að öfugt við það sem vonir stóðu til hefur samþykkt hans hér á landi ekki þau áhrif að náttúruverndarsinnar séu lögaðilar að málum sem þeir koma að ef þeir eiga ekki eign á svæðinu öfugt við það sem er víða annars staðar. Hann segir frá mótmælunum í Gálgahrauni og þeirri tilfinningu að vera maður á móti skriðdreka.
Útdráttur úr viðtalinu
Árósarsamningurinn og maður á móti skriðdreka
Dæmdur ógildur í Gálgahrauni
Hæstiréttur ályktaði nýlega með 11 síðna röksemdarfærslu að Árásarsamningurinn ætti ekki við varðandi umhverfissamtökin sem mótmæltu í Gálgahrauninn þó það standi í honum að umhverfssamtök eigi að eiga aðild segir Ómar. Útgáfan sem samþykkt var hér á land, áratug á eftir Austur- Evrópuþjóðunum gerir Hæstarétti kleyft að komast að slíkri niðurstöðu. Hann er gagnlaust plagg þar til úrskurður fæst frá Evrópudómstólum um gildissvið hans. Margir telja að þaðan komi sami úrskurður og frá Hæstarétti. Það héldu menn líka þegar Þorgeir Þorgeirsson og Jón Kristinsson á Akureyri fóru fyrstir manna með mál til mannrétttindadómstólsins. Þeir voru báðir hæddir fyrir þar til þeir unnu málin. Síðan hefur Hæstiréttur tapað 8 málum af þessum toga.
Markmiðið að rétta lýðræðishalla fátækra umhverfissamtaka
Árósarsamningurinn gengur út á að reyna að rétta þann halla sem er á milli yfirvalda og framkvæmdaraðila annars vegar og svo náttúruverndarsamtaka hins vegar. Þeir fyrrnefndu hafa algjöra yfirburði varðandi vald, fjármagn og aðstöðu gegn bláfátækum almannasamtökum sem mega sín einskis gegn ofureflinu. Þetta samkomulag var gert í beinu framhaldi af Ríóráðstefnunni.
Við undirrituðum Ríósáttmálann en förum ekkert eftir honum frekar en okkur sýnir segir Ómar. Í honum er meðal annars kveðið á um að náttúran njóti vafans og að jafnræði skuli ríkja þegar skoðanir eru skiptar varðandi umhverfismál. Í Árósarsamningnum er kveðið á um að þegar umhverfismál fara fyrir dóm eigi umhverfissamtök svo kallaða lögaðild. Sá sem er erfingi að koti telst lögaðili í Gálgahraunsmálinu en ekki hundruð eða þúsundir manna sem hafa notið þess að ganga um svæðið og njóta útivistar í ósnortnu hrauni og á miklum söguslóðum. Í Mývatnssveitinni eiga fjölmargir Reykvíkingar lögaðild að því sem er verið að anskotast með þar segir Ómar, en fjöldasamtök enga. Burt séð frá því hvort þessi fjöldasamtök eiga peninga eða ekki þá er allur munur á því hvort þau eiga lögaðild að máli eða ekki.
Samningurinn hér er fótum troðinn, hann er blekking
Árósarsamningurinn var stökk fram á við. Nú var ekki lengur hægt að ganga framhjá samtökum sem létu sig sannanlega umhverfismál varða. Þau áttu allstaðar að geta komið að málum þegar farið var í mat á umhverfisáhrifum og gert athugasemdir varðandi ferilinn og ákvarðanatökurnar. Gallinn er sá að löggjöfin miðast öll við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, eignarrétturinn er friðhelgur en miðast bara við það sem hægt er að mæla og er áþreifanlegt. Eignarréttur hugans er fótum troðinn, eignarréttur þess sem á óteljandi unaðsstundir á svæðum sem framleiða megavatnsstundir. Öfugt við það sem vonir stóðu til þá hefur ástandið versnað eftir að samningurinn var samþykktur því nú er verið að fótum troða hugsun hans og láta í veðri vaka út á við að við höfum samþykkt hann.
Eins og maur sem valdið gat kramið undir sér
Ómari brá mikið þegar hann var borinn inn í lögreglubíl og settur í fangelsi vegna mótmælanna í Gálgahrauni, sérstaklega vegna þess hvernig að því var staðið. Hann var búinn að undirbúa mótmælin með því að segja frá 100 ára afmæli borgaralegrar óhlýðni Gandis sem var handtekinn og settur í fangelsi vegna þess að hann var á svæði sem hann mátti ekki vera á. Rósa Parks sat í strætisvagnasæti sem hún mátti ekki sitja í og var fjarlægð á sama hátt. Þetta fólk var að gera það sama og Hraunavinir í Gálgahrauni. Þau voru á svæði sem var að þeirra dómi ólöglega dæmt bannsvæði. Það var svo margt að segir Ómar, það vantaði framkvæmdarleyfi og mat á umhverfisáhrifum var úrelt.
Ómar taldi að hann yrði aðeins borinn með valdi út fyrir svæðið og þar með yrði málinu lokið af hans hálfu. Því var það mikið áfall að sextíu manna víkingasveit vopnuð gasbrúsum, handjárnum, kylfum og stærsta skriðdreka Íslands var stefnt gegn þessum fámenna hópi. Þá fékk maður þessa yfirþyrmandi tilfinningu að vera eins og maur sem valdið gæti kramið undir sér segir Ómar. Okkur var hent inn í lögreglubíl og bannað að spenna beltin, við vorum ekki meira virði en kjötskrokkar hjá Sláturfélaginu. Svo vorum við fyrst sett í fjöldaklefa og síðan þriggja manna klefa áður en okkur var loksins sleppt. Þetta var mikið áfall.
Sér ekki eftir neinu og trúir að sigur vinnist um síðir
Ég sé ekki eftir neinu og trúi því að sigur vinnist um síðir segir Ómar. Þegar fyrst átti að bera okkur út var ekki búið að merkja bannsvæðið. Eiður Guðnason var sakaður um að vera inni á ómerktu bannsvæði því verið væri að leggja línuna. Þegar hún var komin fór hann út fyrir hana en var hrint inn aftur. Það var mikið áfall að upplifa að þegar valdamenn beita valdinu gera þeir það þannig að virkilega er traðkað á fólki.
Árið 1999, segir Ómar höfðu ráðsmenn bent Nató á að þeir gætu æft Norðurvíking á hálendinu gegn náttúruverndar- og umhverfisverndarfólki. Þar æfðu menn það að murka lífið úr umhverfisvendarfólki með F15 orustu- og sprengjuþotum. Því ætti ekki að koma á óvart að menn hefðu samskonar hugarfar í Gálgahrauni. Það er svo dapurlegt að friðsamt náttúruverndarfólk í friðsömum mótmælum á hálendinu sé talin mesta ógn sem steðji að þjóðinni og það þurfi vígvélar mesta hernaðarbandalags heims gegn því. Þessar þotur gátu ekki lent til að handdtaka neinn, það eina sem þeir gátu gert var að ráðst á þessa ímynduðu mestu óvini Íslands og drepa þá með sprengjum, segir Ómar.
Fólk verður að fara að setja hlutina í samhengi segir hann, mér þykir vænt um margt af þessu fólki sem brást svona við 1999 og aftur í Gálgahrauni. Margt af því eru miklir vinir mínir og ég er viss um að ef það fer að hugsa málið myndi það sjá að þetta er ekki alveg rétt. Það voru miklar blekkingar kringum lagningu vegarins í gegnum hraunið. Því var haldið fram að þar væri svo mikil umferð að það yrði að breikka veginn. Umferðin var í raun aðeins 6000 bílar. Því var líka haldið fram að þetta væri hættulegasti vegurinn á höfuðborgarsvæðinu en svo var alls ekki, hann var númer 21 eða 22 og var samt tekinn fram fyrir vegabætur í Reykjavík.
Væri órólegur ef ég hefði ekki gert það sem ég gerði
Ég er ekkert órólegur yfir að hafa verið hent í fangelsi, ég væri órólegur ef ég hefði ekki gerst það sem ég gerði. Það sem vannst er að við höldum áfram og það er liðin tíð að fólk í andófi á Íslandi noti ekki sömu aðferðir og gert hefur verið annars staðar í heiminum í 100 ár. Eftir alla friðsömu útifundina og grænu göngurnar sjáum við að það er eins og að klappa í stein.
Er eitthvað að því að við fetum í fótspor Gandis og Söru Parks? Spyr Ómar.
Þegar loksins verður spurt að leikslokum í Gálgahraunsmálinu kemur í ljós hvort Þorgeir þorgeisson og Jón Kristinssion hafi til einskins sótt rétt sinn og andæft eins og þeir gerðu. Að böðlast með stærsta vegagerðartæki Íslands í gegnum allt vegastæðið á fyrsta degi var bara gert til að valda sem mestum óendurkræfum spjöllum á sem stystum tíma. Slíkt hefur aldrei áður verið gert í vegagerð á Íslandi svo ég viti segir Ómar.
Við verðum að reyna að breyta hugsunarhættinum segir hann. Víkingarsveitarmennirnir sem eru bestu menn voru að hlýða skipunum. Það er mikilvægt að hlýða en stundum verður maður að sýna borgarlega óhlýðni eins og stúdentinn á Torgi hins himneska friðar sem stóð fyrir framan skriðdrekann. Það var þá sem fór um mig mikill hrollur þegar ég stóð fyrir framan skriðdrekann í Gálgahrauni. Þó ég sé ekki að líkja saman glæpaverkum kínversku alræðisstjórnarinnar og því sem gerðist í Gálgahrauni þá var þetta samt maður á móti skriðdreka, segir Ómar að lokum.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Ómar Ragnarsson IIBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Ómar Ragnarsson í eldlínunni - 2. þáttur“, Náttúran.is: 24. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/21/med-natturunni-omar-ragnarsson-i-eldlinunni-2-that/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 21. nóvember 2014
breytt: 24. nóvember 2014