Hótel Fljótshlíð - Smáratún ehf. hefur hlotið umhverfisvottun Norræna Svansins en Hótel Fljótshlíð er sjöundi gististaðurinn á landinu og þar af fjórða hótelið sem fær Svaninn.

Starfsfólk hótelsins vinnur að því að minnka umhverfisáhrif á mörgum sviðum. Til að fá Svaninn þarf hótelið að vera innan ákveðinna marka í orku-, efna- og vatnsnotkun og myndun úrgangs. Að auki ber hótelinu að uppfylla aðrar kröfur sem snerta umhverfisstarf fyrirtækisins á öllum sviðum, meðal annars hvað varðar endurnýjun innanstokksmuna og veitingarekstur.

Allir gististaðir geta fengið Svansmerkið að því tilskildu að þeir uppfylli strangar kröfur Svansins. Nauðsynlegt er að vera með gott heildaryfirlit yfir umhverfisáhrif starfseminnar en Svansvottun felur meðal annars í sér að:

  • Hótelið nær lágmarksviðmiðum er varðar orkunotkun, vatnsnotkun, efnanotkun og úrgangsmeðhöndlun.
  • Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktum vörum og þjónustu í innkaupum hótelsins.
  • Flokkun úrgangs sé góð og tryggt að allur hættulegur úrgangur fái rétta meðhöndlun.
  • Starfsmenn fái reglulega þjálfun og fræðslu.
  • Umhverfisstarfi hótelsins er stýrt á skilvirkan hátt.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.

Sjá alla þá aðila sem hafa Svansvottun á Íslandi hér á Grænum síðum.

Birt:
15. nóvember 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hótel Fljótshlíð fær Svaninn“, Náttúran.is: 15. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/14/hotel-smaratun-faer-svaninn/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 14. nóvember 2014
breytt: 15. nóvember 2014

Skilaboð: