Merki burðarplastpokalausa sveitarfélagsins Stykkishólms.Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkveldi var fjallað um árangur íbúa Stykkishólmsbæjar við að hætta notkun burðarplastpoka, sem gengur gríðarlega vel og skal þeim hér með óskað til hamingju með árangurinn. Að hætta notkun burðarplastpoka er vissulega mikilvægt skref og Stykkishólmur getur nú státað af því að geta verið fyrirmynd annarra sveitarfélaga á þessu sviði, héðan í frá.

Næsta skref verður vonandi að neytendur hugi líka að því hvað þeir setji í annarslags burðarpokana sína af plastumbúðum alls konar því auðvitað er það mun stærra vandamál en plastpokarnir sjálfir. En á meðan að við tökum eitt skref í einu er samviskan friðuð og öllum líður mun betur í sínu skinni og skal ekki lítið gert úr því hér.

Þó má segja að umræðan í Kastljósi gærdagsins hafi verið svolítið ýkt, svo ekki sé meira sagt. Greinilega lituð af smáborgaralegu monti hólmara sem héldu því margir fram, með fulltyngi bæjarstjórans, að í Reykjavíkurborg geti enginn flokkað og allt fari þar bara í sama binginn til urðunar.

Þetta er að sjálfsögðu alrangt og í raun fjarstæðukennt að bera Reykjavík, eða höfuðborgarsvæðið með 200 þúsund íbúa saman við Stykkishólm með rúmlega 1 þúsund íbúa, þar sem að auki flestir búa í einbýlum með nægu plássi fyrir 3 tunnur í bakgarðinum. Það er ekki raunveruleikinn í öllum hverfum höfuðborgarsvæðisins.

Endurvinnslukortið á vef Náttúrunnar.Talandi um plast og minnkun plastnotkunar þá er plastið í þremur tunnum líka ansi fyrirferðamikið og brotnar ekki niður í náttúrunni frekar en plastpokarnir. Þriggja tunnu kerfið hefur með öðrum orðum líka sína vankanta í stórum byggðarlögum sem er einmitt ástæðan fyrir því að ekki hefur verið farin sú leið á höfuðborgasvæðinu til þessa.

Endurvinnslukortið á vef Náttúrunnar.Sorpsamlag höfuðborgarsvæðisins SORPA bs. hefur fjölda grenndarstöðva og móttökustöðva á svæðinu og hefur reynt að finna lausn sem hentar magni og aðstæðum en SORPA hefur um nokkurt skeið undirbúið byggingu gas- og jarðgerðarstöðvar sem á að taka við því magni til gas- og jarðgerðar sem nauðsynlegt er. Þeim áformum hafa nú verið skorður settar af þjónustuaðilum sem eiga í mikilli innbyrðis samkeppni og einnig í samkeppni við sorpsamlagið. Sú samkeppni hefur margar ljótar hliðar s.s. rógburð í fjölmiðlum og málaferli sem ekki sér fyrir endann á.

Ein birtingarrmynd þessa „stríðs“ þjónustuaðila innbyrðis og við byggðarsamlag höfuðborgarsvæðisins (SORPU bs.) endurspeglast vel í umfjöllun Kastljóss í gær þar sem íbúar Stykkishólms bera út boðskap þjónustuaðilans sem á nú einmitt í málaferlum við SORPU bs. vegna áformaðrar gas- og jarðgerðarstöðvar.

Það er að mínu mati mikilvægt að við höfum þetta allt í huga þegar að við horfum á umfjallanir þar sem einni hlið málsins er haldið fram með því að niðra hina, án þess þó að segja alla söguna. Það skal tekið fram að réttmæti einnar aðferðar umfram aðra er hér ekki haldið fram enda er það í raun einmitt það sem að ágreiningurinn stendur um og enginn hefur afgerandi svör við hvað sé réttast og best.

Endurvinnslu-app Náttúrunnar.En höfum í huga að málið ætti fyrst og síðast að snúast um umhverfisvernd og skynsama nýtingu auðlinda, s.s. framtíð barnanna okkar, en ekki hver fær að gera sér mat úr ruslinu okkar, sem í dag er gulls ígildi.

Til glöggvunar á endurvinnslumálum höfuðborgarsvæðisins og allra annarra svæða á landinu, bendum við á Endurvinnslukortið okkar, fyrst sett í loftið 2009 og í nýrri útgáfu nú í sumar og Endurvinnslu-appið sem einmitt var þróað til þess að fólk viti alltaf hvar sé tekið á móti hvaða flokkum, hvaða tunnuþjónustur eru í boði í hvaða sveitarfélögum o.s.fr.

Öllum sveitarfélögum á landinu býðst að taka þátt í verkefninu og birta Endurvinnslukort síns svæðis eða alls landsins á vefjum sínum með samhæfða birtingu gagna og þægilegt aðgengi fyrir íbúa og ferðamenn að leiðarljósi en Endurvinnslukortið er bæði á íslensku og ensku.

Birt:
6. nóvember 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Um plastpoka og flokkunarmál Reykjavíkur“, Náttúran.is: 6. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/06/um-plastpoka-og-flokkunarmal-reykjavikur/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: