Lundi með fullan gogg af loðnu. Ljósm. Jóhann Óli Hilmarsson.Erpur Snær Hansen doktor í líffræði og sviðsstjóri vistfræðirannsókna á Náttúrustofu Suðurlands flytur erindið Hitastýrðar sveiflur íslenskra síla-, loðnu- og sjófuglastofna á Hrafnaþingi miðvikudaginn 5. nóvember kl. 9:15.

ATHUGIÐ: Hrafnaþing verður framvegis haldið á morgnana kl. 9:15-10:00.

Eins og alkunna er hafa íslenskir sjófuglar átt mjög undir högg að sækja frá 2003-2005 í kjölfar hruns sílastofnsins sunnan- og vestanlands og tilfærslu uppeldisstöðva loðnu frá Íslandshafi til SA-Grænlands. Í þessu erindi eru teknar saman niðurstöður mælinga á framleiðslu og fæðu lundapysja í 12 lundabyggðum síðustu fimm ár. Þessar mælingar þjóna sem áviti fyrir íslenska sjófugla sem éta helst sandsíli og loðnu.

Miklar breytingar hafa orðið á fæðu milli sjávarvistkerfa við landið. Fæðuskortur hefur verið ríkjandi á Suður- og Vesturlandi og viðkomubrestur viðvarandi frá 2003. Sandsíli er nú aðalfæðutegund norðanlands í stað loðnu fyrir hlýnun og ungaframleiðsla mikil. Loðna er nú aðalfæða við Austurland í stað blandaðrar fæðusamsetningar og viðkoma hefur risið hratt með auknu fæðuframboði. Ástand síðustu ára er sett í stærra samhengi með hliðsjón af 140 ára lundaveiði auk styttri veiðitöluraða sjö annarra sjófuglategunda. Í ljós hefur komið að miklar og endurteknar sveiflur hafa orðið í sjófuglaveiði allra tegunda sem fylgja AMO sjávarhitasveiflunni sem skipta má í gróflega í endurtekin 35 ára hita- og kuldaskeið. Hitasveiflan hérlendis er mjög mikil eða yfir 1,5°C og hefur valdið endurteknum vistbyltingum í þremur aðal sjávarvistkerfunum á landgrunninu. Lögð er fram sú skýringartilgáta að endurtekið stofnhrun sandsílis stafi af auknum efnaskiptahraða að vetri þannig að vetrarforði sé uppurinn áður en vorblómi kviknar.
Lundi með æti


Birt:
4. nóvember 2014
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Hrafnaþing - Hitastýrðar sveiflur íslenskra síla-, loðnu- og sjófuglastofna “, Náttúran.is: 4. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/04/hrafnathing-hitastyrdar-sveiflur-islenskra-sila-lo/ [Skoðað:24. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: