Gunnsteinn Ólafsson flytur ávarp fyrir hönd níumenninganna. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Bubbi Mortens stóð fyrir tónleikunum og flutt tvö lög. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Prins Póló flutti nokkur lög á tónleikunum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.KK flutti nokkur lög á tónleikunum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Uni Stefson flutti nokkur lög á tónleikunum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Salka Sól og Abama dama fluttu nokkur lög. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Ómar leiðir fjöldasöng í lok tónleikanna. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Hér á eftir fer ávarp Gunnsteins Ólafssonar á Gálgahraunstónleikunum í Háskólabíói þ. 29. október sl. en tónleikarnir voru skipulagðir af Bubba Mortens til styrktar níumenningunum í Hraunavinum er handteknir voru sl. haust og dæmdir í fjársektir í Hæstarétti fyrir að verja Gálgahraun friðsamlega:

Undarleg ósköp að deyja
hafna í holum stokki
himinninn fúablaut fjöl
með fáeina kvisti að stjörnum.

Þannig sér Hannes Pétursson, skáldið á Álftanesi, fyrir sér dauðann. Þú ert innilokaður í kassa og sérð ekkert nema fáeina kvisti í þekjunni fyrir ofan þig. Og þannig er þeim innanbrjósts sem gistir fangaklefa í fyrsta sinn. Þú ert látinn dúsa allslaus í holu rými, gleraugnalaus, bókarlaus, jafnvel matarlaus, og sérð í óskýrri móðu móta fyrir eftirlitsmyndavél í skini neonperunnar. Þá allt í einu er sem líf kvikni í lofti, veikur ómur berst úr næsta klefa sem magnast smátt og smátt, fyllir hvern krók og kima. Rimlarnir reyna kófsveittir að stöðva sóninn, skothelt glerið, kíttið í gluggunum, sjálfur múrinn stritast við að kæfa sönginn en allt kemur fyrir ekki. Hann smýgur í gegn um hverja fyrirstöðuna á fætur annarri og hljómar um ganga fangelsins, frá kjallara upp í efstu rjáfur: Hver á sér fegra föðurland. Á sömu stundu er stærstu jarðýtu landsins sigað á eitt magnaðasta hraun sem við eigum, hraunið þar sem Kjarval málaði sínar bestu myndir, hraunið sem varðveitir spor þjóðarinnar allt frá landnámi, hraun sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. En þennan dag eru þau lög ekki í gildi. Stjórnarskráin er líka tekin úr sambandi svo setja megi fólk í fangelsi fyrir friðsamleg mótmæli. Öllu réttlæti er snúið á hvolf. Myrkraverk stunduð um hábjartan dag og löghlýðnir borgarar fangelsaðir. Meira að segja dómarinn gengur í lið með eyðingaröflunum og hótar með fingur á lofti: Þú sleppur núna með sekt en næst skaltu hafa verra af.

Ári eftir handtökurnar er þjóðin margs vísari:

Verðir laganna geta haldið hlífiskildi yfir lögbrjótum.

Stjórnarskráin víkur þegar náttúruverndarsinnar eiga í hlut.

Hugrekki er launað með dómi.

Borgaraleg óhlýðni er því aðeins lögleg að henni sé ekki  beitt.

Náttúruverndarlög eru í gildi á meðan ekki reynir á þau.

Ekkert má trufla miðaldra karla sem hafa ákveðið að leggja vegi.
Bæjarfélag getur svínbeygt ríkisvaldið til þess að fara að sínum ákvörðunum í skipulagsmálum, sama hversu vitlausar þær eru.

Ráðherrar og lögreglustjórar sem fyrirskipa árás á ríki álfa og huldufólks hrökklast úr embætti.

Hæstiréttur hlær að fullgildingu Alþingis á Árósasáttmálanum sem tryggja átti aðild náttúruverndarsamtaka að umhverfismálum.

Ef Hraunavinir leggjast í mosa pantar ríkið hríðskotabyssur frá Noregi.

Það er ekki aðeins loftið í klefunum á Hverfisgötu sem minnir á fúablauta fjöl. Allt réttarkerfið sem snýr að náttúruvernd á Íslandi er þykkur fúaraftur að falli kominn. Þrátt fyrir lög í landinu er náttúru landsins fórnað fyrir malbik og steypu. Og þegar þjóðin rís upp gegn heimskunni og offorsinu er henni hótað með fangelsi og dómum. En látum ekki hræða okkur. Á meðan réttlætiskenndin segir okkur að rísa upp þá rísum við upp - og syngjum. Látum sönginn óma, látum hann skera kíttið, saga rimlana, brjóta á bak aftur ranglætið sem ríkir gagnvart náttúru landsins. Með hugrekki og sönginn að vopni knýjum við í gegn þær réttarbætur sem landið okkar á skilið.

Lifið heil!

......

Tónlistarfólkið sem kom fram á tónleikunum gaf allt vinnu sína en þau eru: Hljómsveitin Spaðar, Uni Stefson, Salka Sól og Abama dama, Snorri Helgasson, Ojbarasta, KK, Dikta, Jónas Sig, Pétur Ben, Prins Póló, Hallveig Rúnarsdóttir óperusöngkon og Bubbi Morthens.

Um 500 manns sóttu tónleikana en enn er hægt að styðja níumenningana til greiðslu sektanna.  Söfnunarreikningurinn er 140 05 71017, kt. 480207-1490.

 

Birt:
4. nóvember 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Gunnsteinn Ólafsson „Ávarp Gunnsteins Ólafssonar á Gálgahraunstónleikum í Háskólabíói“, Náttúran.is: 4. nóvember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/11/04/avarp-gunnsteins-olafssonar-galgahraunstonleikum-i/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: