Sláturgerð - lifrarpylsa
Að taka slátur er búbót mikil og þó að umstangið sé talsvert fæst mikill matur og hollur fyrir lítið fé.
Þar sem að ég fékk hvorki mömmu mína né mágkonur til að ryfja upp sláturgerð fyrri tíma með mér, svo ég fái nú lært þennan þjóðlega matartilbúning, var ég næstum búin að gefa upp vonina en var loks svo heppin að fá að vera með í sláturgerðinni hjá Charlotte og Pétri í Hvammi í Ölfusi en þau reka myndarbú, hunangsbú, kornrækt og kúabú í Ölfusi.
Hér er uppskrift að lifrarpylsu sem á að duga fyrir fimm slátur eða 25 keppi:
- 2,5 kg. lifur
- 10 nýru
- 3 matsk. salt
- 1 matsk. pipar
- 1 bolli sykur
- 1 1/4 l. mjólk
- 1 bolli hveiti
- 2 bollar heilhveiti
- 1 bolli rúgmjöl
- 7-8 bollar haframjöl
- 1-1,25 kg mör
Lifur og nýru hökkað saman, krydd, sykur og mjólk sett út í, hrært saman. Öllu mjöli bætt út í og mörnum blandað saman við að lokum.
Síðan er blöndunni troðið í vambir eða gervivambir og saumað fyrir. Nú er orðið erfitt að fá vambir en þær er erfitt að þrífa svo gervivambirnar hafa tekið við að mestu. Við notuðum þó alvöruvambir með gervivömbunum.
Best er að setja hverja vömb í lítinn plastpoka fyrir frystingu þannig að þær festist ekki saman.
Þegar matreiða skal síðan slátrið er það tekið úr frystinum, afþýtt og soðið í 2-3 klst. við hæga suðu.
Einnig er hægt að súrsa vabirnar með því að leggja þær í mysu eftir suðu og geyma á köldum stað.
Best er að bera lifrarpyslu fram með slátri og nýjum kartöflum, soðnum gulrófum og soðnum gulrótum eða gulrófstöppu. Lifrarpylsa er líka mjög góð köld, út á grjónagraut eða ein sér.
Sjá einnig grein um blóðmörsgerð.
Af Vísindavefnum:
Blóð hefur verið notað í ýmiss konar rétti á Íslandi, meðal annars brauð, grauta og blóðmör. Stórgripablóð var stundum látið hlaupa og storkna óhrært, skorið í parta, snöggsoðið og súrsað. Algengast var að kalla þennan rétt steinblóð, en nöfnin skyndilifur, blóðhella, blóðhlaup, lifrarblóð og augnblóð eru einnig þekkt. Um aldamótin 1900 var orðið sjaldgæft að hleypa blóð á þennan hátt.
Sjá einnig ýmislegt annað fróðlegt um slátur á Vísindavefnum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sláturgerð - lifrarpylsa“, Náttúran.is: 26. október 2015 URL: http://nature.is/d/2014/11/04/slaturgerd-lifrarpylsa/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. nóvember 2014
breytt: 28. október 2015