Hótel Reykjavík Natura hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2014
Icelandair Hótel Reykjavík Natura fékk í dag umhverfisverðlaun Ferðamálastofu fyrir árið 2014 en verðalunin voru nú veitt í 20. sinn. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, afhenti verðlaunin í lok fjölsótts Ferðamálþings í Hörpu.
Mikill árangur af umhverfisstarfi
Icelandair hótel Reykjavík Natura fékk umhverfisstjórnunarkerfi sitt vottað skv. staðlinum ISO 14001 árið 2012, fyrst hótela á Íslandi. Mikill árangur náðist í umhverfisstarfinu strax á árunum 2011-2012, m.a. í flokkun úrgangs og orkusparnaði. Starf hótelsins í þágu umhverfis og samfélags er mjög vel skipulagt, einkar vel hefur verið staðið að kynningu og mörg verkefnin eru frumleg og framsýn. Sem dæmi um það má nefna að gestir hótelsins fá ókeypis strætókort til að auðvelda þeim vistvænar ferðir innanbæjar. Hótelið uppfyllir með prýði öll viðmið umhverfisverðlauna Ferðamálastofu og þar er unnið markvisst og metnaðarfullt umhverfisstarf.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálstjóri sagði að lokum frá því að úthlutunarnefnd segi í umsögn sinni að næsta skref Hótel Reykjavík Natura ætti að vera að vinna að því að fá Svansvottun.
Um umhverfisverðlaun Ferðamálastofu.
Eitt af hlutverkum Ferðamálastofu er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki innan ferðaþjónustunnar til ábyrgðar í umhverfismálum. Liður í þessari viðleitni er að Ferðamálastofa veitir umhverfisverðlaun til ferðaþjónustufyrirtækja eða einstaklinga í ferðaþjónustu sem þótt hafa skara framúr á sviði umhverfismála. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því 20. árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst.
Birt:
Tilvitnun:
Ferðamálastofa „Hótel Reykjavík Natura hlýtur Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2014“, Náttúran.is: 30. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/30/hotel-reykjavik-natura-hlytur-umhverfisverdlaun-fe/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.