Sláturgerð - blóðmör
Hér er uppskrift af blóðmör sem á að duga fyrir 5 slátur eða 25 keppi en dugði reyndar aðeins fyrir 15 keppi, en það má kannski hafa þá minni.
- 2 l. blóð
- 1/2 l. vatn
- 2 matsk. salt
- 1 tsk. pipar
- 1 tsk. blóðberg
- 3 bollar heilhveiti
- 3 bollar haframjöl
- 3 bollar rúsínur (má sleppa)
- 1-1,25 kg mör
Blóðið sigtað, vatn sett saman við, síðan krydd og mjöl og mör sett út í síðast.
Síðan er blöndunni troðið í vambir eða gervivambir og saumað fyrir. Nú er orðið erfitt að fá vambir en þær er erfitt að þrífa svo gervivambirnar hafa tekið við að mestu. Við notuðum þó alvöruvambir með gervivömbunum.
Best er að setja hverja vömb í lítinn plastpoka fyrir frystingu þannig að þær festist ekki saman.
Þegar matreiða skal síðan slátrið er það tekið úr frystinum, afþýtt og soðið í 2-3 klst. við hæga suðu.
Einnig er hægt að súrsa vambirnar með því að leggja þær í mysu eftir suðu og geyma á köldum stað.
Best er að bera slátur fram með lifrarpyslu og nýjum kartöflum, soðnum gulrófum og soðnum gulrótum eða gulrófstöppu..
Líka er gott að steikja blóðmörinn á pönnu eftir að hann hefur verið soðinn og kældur og sykra sneiðarnar svo á disknum.
Sjá einnig grein um lifrarpylsugerð.
Af Vísindavefnum:
Úr íslenskum heimildum þekkist orðið blóðmör ekki fyrr en á 17. öld, en ekkert mælir gegn því að réttur með þessu nafni hafi verið til áður, því að matarrétta er ekki endilega getið í gömlum heimildum. Í Noregi er orðið til sem viðurnefni frá miðöldum. Áður fyrr var oft talað um iður í merkingunni slátur í keppum úr meltingarsekkjum. Í eignaskrá frá því um miðja 14. öld er talað um 20 iður feita mörs og hálfan sjötta tug megri mörs. Hér er væntanlega um að ræða keppi með einhverju sem er mismörvað, líklega blóðmör, því að minnsta kosti á seinni öldum var nær eingöngu blóðmör og lifrarpylsa í vambaiðrum.
Lítið eða ekkert mun hafa verið af mjöli í blóðmör á fyrri öldum, enda skortur á mjölmeti viðvarandi. Á 18. og fram eftir 19. öld var hann að mestu þykktur með fjallagrösum. Í byrjun 20. aldar er enn algengt að nota þriðjung af fjallagrösum á móti rúgmjöli þegar búinn var til blóðmör.
Sjá einnig ýmislegt annað fróðlegt um slátur á Vísindavefnum.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Sláturgerð - blóðmör“, Náttúran.is: 26. október 2015 URL: http://nature.is/d/2014/10/27/slaturgerd/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 27. október 2014
breytt: 26. október 2015