Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Við Sigrún Helgadóttir kennari, líf- og umhverfisfræðingur höfum undanfarnar þrjár vikur rætt saman um þjóðgarða, áhuga, hennar fyrir náttúrunni og náttúruvernd, nám hennar í þjóðgarðafræði, heimsóknir hennar í þjóðgarða erlendis og þjóðgarða og friðlönd á Íslandi. Nú er komið að fjórða og síðasta viðtalinu við Sigrúnu og segir hún okkur nú frá tilkomu bókaskrifa hennar um Jökulsárgljúfur og Þingvelli. Hlusta á viðtalið.

Útdráttur úr viðtalinu

Jökulsárgljúfrum og Þingvelli og tilurð þeirra.

Áheit og bók um Jökulsárgljúfur
Jökulsárgljúfur. Ljósm. Wikimedia.Margir höfðu bent mér á að ég ætti endilega að skrifa bók um Jökulsárgljúfur en einhvern veginn kom ég mér ekki til þess, segir Sigrún. Svo var það einn laugardagsmorgun að Sigþrúður Stella, þjóðgarðsvörður fyrir norðan, hringdi í mig og hvatti mig einu sinni enn til hefjast handa og skrifa bók um Gljúfrin. Ég sagðist þá heita á hana, ég myndi sækja um í Launasjóð fræðirithöfunda og ef ég fengi stuðning þaðan reyndi ég að skrifa bókina. Ég fékk hálfsárs laun, ýtti frá mér öðrum verkefnum og hóf skrifin.

Ég var þó bara rétt komin af stað þegar tíminn var liðinn en ég tók  launalaust leyfi og kláraði bókina. Henni var mjög vel tekið og hún fékk viðurkenningu Hagþenkis sem besta fræðibók ársins 2008. Enn er algengt að fólk hafi samband við mig og þakki fyrir þessa bók. Það virðist vera mikið um að hópar gangi um Jökulsárgljúfur og þá sé bókin skyldulestur. Mér hefur verið sagt að það sé lesið upp út  henni á kvöldvökum.

Varðandi gönguleiðir voru skrifin auðveld. Starfsfólk þjóðgarðsins hafði frá upphafi lagt mikla vinnu í að velja gönguleiðir, langflestar gamlar kindagötur, og allt frá árinu 1983 komu í Jökulsárgljúfur breskir sjálfboðaliðar og lagfærðu göngustíga þar. Í Ásbyrgi. Ljósm. Árni Tryggvason.Það var mikil vinna lögð í að laga leiðirnar og stika þær svo nú eru góðir stígar eftir endilöngum þjóðgarðinum. Ég þurfti aðallega að lýsa landinu, segja frá sögunni, tína til þjóðsögur og ýmislegt skemmtilegt. Einnig að koma með hugmyndir að skipulagi á gönguferðum fyrir fólk sem væri  til dæmis í nokkra daga í þjóðgarðinum.

Jökulsárgljúfur- íslenskur undraheimur
Varðandi frásagnir af mannlífinu naut ég þess að hafa lengi verið á svæðinu. Ég þekkti landið ákaflega vel og hafði farið vítt og breitt um það. Þó að ég væri reyndar alltaf í sveit á austurbakkanum, sem er ekki í þjóðgarðinum, skipti miklu máli að hafa horft yfir á vesturbakkann og fegurðin í Gljúfrum er báðum megin ár. Það hjálpaði mér mikið á sínum tíma við að kynnast landinu vestan ár og að fyrsta árið sem ég var þar landvörður í þjóðgarðinum var til í handriti bók sem Theodór Gunnlaugsson skrifaði, Jökulsárgljúfur- íslenskur undraheimur.

Jökulsárgljúfur - Dettifoss, Ásbyrgi og allt þar á milli, eftir Sigrúnu Helgadóttir.Theódór var ótrúlegur maður, ég hafði þekkt hann frá því ég mundi eftir mér. Ég var í sveit á Vestara –Landi en hann var bóndi á næsta bæ, Austara-Landi. Ég hafði oft komið þangað og hitt hann og dáðst að honum. Hann var  þjóðþekkt refaskytta og mikill náttúrufræðingur af guðsnáð. Hann skrifað bók um Jökulsárgljúfur eftir minni þegar hann var bæði orðinn gamall og blindur. Hann bað mig að lesa yfir handritið sitt og athuga hvort ég fyndi einhverjar vitleysur. Þetta var hvalreki fyrir mig, nýráðinn landvörðinn. Ég flæktist um með handritið, fór oft um nætur því að ég vildi ekki fara frá ferðamönnunum á daginn. Í bjartri nóttinni hentist ég um hóla og hæðir og auðvitað var allt rétt og satt sem Theodór skrifaði. Ég skil ekki hvernig hann gat þetta. Þetta varð til þess að ég fór nánast um allt og skoðaði með gagnrýnum augum, bar saman landið og skrifaðan texta Theodórs. Þetta nýttist mér vel.

Við mín eigin bókarskrif mörgum árum síðar grúskaði ég í ýmsu. Á sínum tíma þegar ég vann hjá Náttúruverndarráði hafði ég skrifað verndaráætlun um Jökulsárgljúfur. Það var sá grunnur sem ég byggði mest á. Það var fyrsta verndaráætlun sem var skrifuð um friðlýst svæði á Íslandi. Hún byggði heilmikið á náttúrufarskönnun sem Helgi Hallgrímsson hafði gert á sínum tíma þegar þjóðgarðurinn var nýstofnaður. Ég tók líka heilmikið mið af bandarískum verndaráætlunum, þó þær séu auðvitað margfalt stærri og viðarmeiri. Öll þessi vinna nýttist mér vel þegar ég var svo að skrifa bókina mína.

Sumarlangt við stígagerð og kennslu á þingvöllum
Sandlæðingur á Þingvöllum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Ég þekkti ekki Þingvelli eins og ég þekkti Jökulsárgljúfur, segir Sigrún. Ég var alltaf fyrir norðan á sumrin, kom bara á Þingvelli í skólaferðalögum og slíkt, og þá í mesta lagi á Hakið, í Almannagjá og í þinghelgina. Árið 1992 hafði ég samband við Hönnu Maríu Pétursdóttur sem þá var nýr þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Það varð til þess að hún vildi gjarnan fá mig í vinnu til að fara í leiðsagðar gönguferðir með fólki. En líka til að reyna að finna eitthvað af gömlu leiðunum sem voru að hverfa í skóg og kjarr svo að hægt væri að merkja þær. Hún vildi helst að ég kæmi um helgar þegar flestir gestir væru í þjóðgarðinum. Ég átti hins vegar mína fjölskyldu, þrjár litlar stelpur fyrir utan stóra strákinn minn og fannst ekki gott að vera fjarri fjölskyldunni allar helgar. Hún sagði þá „ þið komið bara öll“. Þetta var alveg Bókin Þingvellir - þjóðgarður og heimsmynjar eftir Sigrúnu Helgadóttur. Kort með gönguleiðum fylgir bókinni. Ljósm. Guðrún Tryggvdóttir.ógleymanlegt sumar fyrir okkur fjölskylduna. Við komum á fimmtudögum, ég og Óli og dætur okkar þrjár og bjuggum í einu stóru hverbergi uppi undir súðinni í Þingvallabænum. Ég leitaði uppi gamlar leiðir á föstudögum og var síðan með gönguferðir og barnastundir um helgar.

Eignaðist Þingvelli að vini.
Þetta sumar eignaðist ég Þingvelli að vini. Jökulsárgljúfur eru eins og fjölskylda mín en Þingvellir urðu eins og vinur minn, segir Sigrún. Ef mér leiðist á sumarkvöldi get ég skotist til Þingvalla á rúmum hálftíma svona rétt eins og að skjótast í heimsókn til vinar til að sækja orku og uppörvun. Ég heillaðist mjög af Þingvöllum og hef farið þangað mikið.

Þegar Gljúfrabókin mín kom út  árið 2008 hafði Sigurður Oddsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, samband við útgefandann. Hann var hrifinn af Gljúfrabókinni og kynnti hana fyrir Þingvallanefnd og formanni hennar, Birni Bjarnasyni. Sigurður stakk upp á að ég skrifaði sambærilega bók um Þingvelli. Ég vann þá hjá Landvernd og stýrði þar verkefninu Skólar á grænni grein sem er umhverfisverkefni fyrir skóla. Þar sem ég vildi gjarnan skrifa bók um Þingvelli sagði ég upp því starfi vorið 2008 og hóf að skrifa. Um haustið sama ár breyttist ýmislegt og styrkurinn sem ég hélt ég myndi fá kom ekki. Það á bæði við um fjárhagslegan styrk  og félagslegan styrk frá fólki er hafði með Þingvelli að gera. Það urðu bæði breyting á fólki í Þingvallanefnd og starfsfólki í þjóðgarðinum, en Sigurður lést sumarið 2009. Þetta varð því ansi erfiður róður. En ég var búin að bíta það í mig að skrifa þessa Séð suður að Arnarfelli í Þingvalllavatni. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.bók svo að ég hætti ekki fyrr en hún kom út. En það var allt öðruvísi vinna en við Jökulsárgljúfrabókina.

Erfitt að velja og hafna efni í Þingvallabók
Það er til góð bók um Þingvelli sem Björn Th. Björnsson skrifaði en hún var á margan hátt orðin úrelt og margt hafði breyst síðan hún var skrifuð. Margt annað var líka til um Þingvelli, þetta er jú helgistaður þjóðarinnar. Bókarskrifin urðu því mikil vinna. Þegar fólk vissi að ég væri að skrifa um Þingvelli höfðu flestir skoðun á um hvað ég ætti að skrifa. Það voru stundum hin furðulegustu mál sem fólki fannst ég ætti að taka fyrir. Ég skrifaði eflaust um ýmislegt sem sumum fannst skipta litlu máli, það var svo mikið matsatriði hvað átti að fara í bókina. Mig langaði til að segja frá ýmsu eins og til dæmis Guðmundi Davíðssyni fyrsta þjóðgarðsverðinum en hann var upphafsmaður þess að þjóðgarður var stofnaður á Þingvöllum. Fólk  hefur samt yfirleitt ekki heyrt á hann minnst. Mig langaði líka að segja frá ýmsu sem mér finnst svo mikilvægt á Þingvöllum og gefa fleirum hlutdeild í því. Ég vildi að fólk gæti farið um allt þetta stórkostlega land sem þjóðgarðurinn er en ekki bara þinghelgina.

Gamlar götur voru að hverfa í skóg
Ég vildi benda á götur sem ég vissi að voru þarna svo þær yrðu greiðfærar fólki og lagði mikla vinnu í að finna gamlar leiðir. Þjóðleiðir alls staðar að á landinu fóru til Þingvalla og þar um. Svo voru líka leiðir á milli bæja og milli bæja og fjárhella. Þær höfðu verið mjög greinilegar langt fram á 20. öld á meðan fólk bjó á Þingvöllum. Við höfðum opnað slíkar götur sumarið 1992.

Þingvallavatn. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Eitt af því sem við veltum þá vöngum yfir var hvar fólk hefði farið niður á Vellina úr norðri. Á þessum tíma var vandamál að  komast frá tjaldstæðinu, sem er á Leirum, í þinghelgina. Þarna á milli var bara malbikaður vegur meðfram skógi vaxinni Fögrubrekku og um hann þurfti göngufólk að fara innan um akandi umferð. Þetta var bæði leiðinlegt og skapaði hættu. En það virtist ekki vera nein önnur fær leið á milli þessara staða. Eitt sinn Þegar ég var að bera mig upp við Hönnu Maríu um að það vantaði góðan og öruggan stíg milli á tjaldstæðis og Vallanna, sagði starfsmaður sem var bóndi í sveitinni, að hann myndi eftir gamalli götu í Fögrubrekku frá þeim tíma sem hann hefði verið að smala í þjóðgarðinum.

Furu og greni plantað í gamla hlaðna leið
Við fórum að leita og fundum götu í brekkunni sem víða var hlaðin upp og sjálfsagt eldgömul. En það hafði verið plantað í hana og nú voru stærðarinnar furu og grenitré víða í miðri götunni.  Óli tók sig til og sagaði niður trén sem voru fyrir. Nú er búið að opna hana enn betur og þetta er ein af leiðunum í þjóðgarðinum. Það eru víða svona gamlar leiðir sem eru horfnar í skóg. Það hefur kannski ekki verið plantað í þær  en þær eru komnar á kaf. Mig langaði að opna fleiri svona leiðir svo að fólk gæti notið þeirra og svo þær hyrfu ekki. Með því að opna þessar gömlu leiðir á ný og viðhalda þeim og gera almenningi kleift að ganga víðar um svæðið en nú er, þá minnkaði álag á vatnsbakkanum og þinghelginni.

Gamlar leiðir eru mikilvægar minjar
Blágresi á Þingvöllum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Gamlar þjóðleiðir eru minjar eins og bæjarrústir. Best væri að Minjastofnun heyrði undir sömu stjórn og þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði. Það þarf að halda við gömlum þjóðleiðum. Þær eru margar innan friðlýstra svæða eða tengja slík svæði saman. Gamlar þjóðleiðir til Þingvalla hafa sumar fundist fyrir tilstilli einstaklinga og áhugafólks sem hefur leitað þær uppi. Sem betur fer eru margir farnir að sýna þessu áhuga og átta sig á mikilvægi þessara leiða. Nýlega kom út ritgerð um þjóðstíga sem er skemmtilegt. En það er oft tilviljanakennt hvað er gert, einn gerir þetta og annað hitt. Það vantar samræmingu og heildarsýn um skipulag og stjórnun friðlýstra svæða og annarra mikilvægra svæða. Það þarf að vinna faglega og hætta einkahagsmunapoti.

Sveitarfélög vilja  hafa hlutina svona eða hinsegin þar sem þeir hafa skipulagsvald til dæmis í þjóðlendum. Við verðum að treysta faglegum stjórnum og horfa heildstætt á málin og hafa heildarsýn yfir allt landið. Ekki þetta endalausa pot og tortryggni á milli allra þeirra mörgu aðila sem ættu að  vera að gera sama hlutinn, að vernda íslenska náttúru og leyfa okkur og öðrum gestum Jarðar að njóta hennar.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á viðtalið.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Sigrún Helgadóttir IV


Birt:
24. október 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigrún Helgadóttir í eldlínunni - 4. þáttur“, Náttúran.is: 24. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/24/med-natturunni-sigrun-helgadottir-i-eldlinunni-4-t/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: