Að gera sína eigin jógúrt
Sparnaður er töfraorðið á mínu heimili og hefur verið um langa hríð. Hvort sem er til að spara í peninga eða minnka aðra sóun. Ég þarf alltaf að vera að láta mér detta eitthvað í hug til að hafa nóg að bíta og brenna nú á síðustu og verstu tímum dýrtíðar og allavega.
Stundum föllum við í þá gryfju að halda að eitthvað sé nauðsynlegt eða óhjákvæmilegt, sem er það svo alls ekki.
T.d. að kaupa dýra jógúrt í litlum umbúðum úti í búð. Hér einu sinni átti ég jógúrtgerðarvél, sem var einfaldlega einskonar bakki til að setja 6 lítil glerglös með plastloki í, loka og setja í samband. Í glerglösin hellti ég mjólk og hrærði einni eða tveim teskeiðar af jógúrt sem ég keypti úti í búð út í. Tækið hitaði mjólkina í 39 °C og voilà, jógúrtið var tilbúið næsta morgun. Þetta notaði ég mikið á námsárum mínum í París og München en síðan gleymdi ég þessu hreinlega og tækið dagaði uppi einhversstaðar á lífsleiðinni.
En vinkona mín, Charlotte Clausen, bóndi í Hvammi í Ölfusi, minnti mig aftur á að það sé auðvelt að gera sína eigin jógúrt .
Uppskrift af jógúrt:
- Mjólk
- Hrein jógúrt og/eða grísk jógúrt (helst lífræn)
- Mjólkin er hituð í potti í ca. 40 gráður (sumir hita enn meira og láta kólna aftur niður)
- Jógúrt sett í mjólkina og hrært í. Magn fer eftir mjólkurmagninu, bara prófa sig áfram.
- Hella í lokað ílát.
- Setja í hjónarúmið (má líka vera einstaklingsrúm eða sófi með góðri sæng ;)
- Leyfa að vera í friði í ca. 12 klst. Ef maður útbýr þetta um kvöldmatarleitið er það tilbúið næsta morgun.
- Tilbúið til kælingar og átu.
Geyma síðan svolítið af jógúrtinni fyrir næstu jógúrtgerð því jógúrtgerlarnir halda áfram að lifna við við væga hitun og því er óþarfi að kaupa aftur jógúrt úti í búð.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Að gera sína eigin jógúrt“, Náttúran.is: 27. mars 2015 URL: http://nature.is/d/2014/10/18/ad-gera-sina-eigin-jogurt/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 18. október 2014
breytt: 27. mars 2015