Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!

Við Sigrún Helgadóttir kennari, líf- og umhverfisfræðingur höfum undanfarnar tvær vikur rætt saman um þjóðgarða, áhuga, hennar fyrir náttúrunni og náttúruvernd, nám hennar í þjóðgarðafræði, samanburð þjóðgarða í Bandaríkjunum og Bretlandi og störf sem landvörður í Jökulsárgljúfrum. Nú beinum við athyglinni að þjóðgörðum og friðlöndum á Íslandi og þróun þeirra undanfarin ár.
Hlusta á viðtalið.

Útdráttur úr viðtalinu

Þjóðgarðar og friðlönd. Hvað er hvað og hver er munurinn?

Friðlönd í stað þjóðgarða
Illagil, friðlandinu að Fjallabaki. Ljósm. Árni Tryggvason.Þegar Sigrún kom heim frá námi voru þrír þjóðgarðar á landinu, Skaftafell, Jökulsárgljúfur og svo Þingvellir. Á þessum árum var ekki hægt að friðlýsa land sem þjóðgarð nema það væri í eigu ríkisins. Þegar til stóð að friðlýsa Skaftafell og Jökulsárgljúfur þurfti því að kaupa jarðirnar segir Sigrún. Ríkið átti reyndar jörðina Svínadal í Jökulsárgljúfrum sem var meiri hluti þjóðgarðsins en keypti jörðina Ás. Skaftafell var líka í einkaeign og Ragnar Stefánsson í Skaftafelli seldi ríkinu sína jörð.

NNáttúruverndarráð hafði ekki mikil fjárráð og það kom í veg fyrir að ýmis svæði sem hefðu átt að vera þjóðgarðar gætu orðið það ef ríkið átti ekki landið eða gat ekki sannað eignarrétt sinn á því. Líklega hefðu annars svæði eins og Lónsöræfi og Friðland að fjallabaki og jafnvel Reykjanes, sem var gert að fólkvangi, orðið þjóðgarðar. Þessi svæði eru og voru þjóðgarðsígildi, eru tiltölulega stór og upplögð til ferðalaga. Það sama á við um Hornstrandir sem er bæði náttúrusvæði og mjög merkilegt menningasvæði. Þar sem þessi landsvæði voru ekki eða bara að hluta í eigu ríkisins var ekki hægt að gera þau að þjóðgörðum. Nú hefur lögunum verið breytt en samt hefur ekkert verið gert til að breyta friðlýsingunum. Þau voru friðlýst sem friðlönd, eða fólkvangar eins og Reykjanesið, til að ná að friðlýsa þau á einhvern hátt. Það sem gerði þjóðgarðana dýra var ekki aðeins að Náttúruverndarráð þurfti að kaupa svæðin heldur þurfti líka að kosta ákveðna uppbyggingu því þjóðgarður á ekki aðeins að taka til náttúruverndar heldur einnig útivistar.

Tiltölulega stór náttúruleg svæði eru þjóðgarðaígildi
Í Þjórsárverum. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Í þjóðgörðum þarf að vera ákveðin uppbygging svo sem vegir og stígar og ýmis kostnaðarsöm aðstaða fyrir fólk. Því er hægt að komast ódýrara frá að friðlýsa á annan hátt þótt staðirnir séu í raun þjóðgarðaígildi. En mér finnst best að hafa hlutina skýra. Ef um er að ræða stórt náttúrulegt svæði sem fólk getur haft aðgang að til að njóta og upplifa ætti að friðlýsa það sem þjóðgarð, eins og til dæmis Hornstrandir og Friðlandið fjallabaki. Þjóðgarðar geta líka verið menningarlegir og það er töluvert af þannig görðum í Bandaríkjunum en þeir eru venjulega ekki eins stórir og náttúrugarðarnir.

Friðlönd hins vegar, eru svæði sem hafa strangari friðun en þjóðgarðar og ekki er endilega sjálfgefið að fólk komi þangað. Það er sjálfsagt að fólk komi á Hornstrandir og Friðland að fjallabaki ef þess er gætt að það gangi ekki of nærri náttúrunni sem það kemur til að skoða.
Friðlönd eru svæði sem ættu að vera friðuð náttúrunnar vegna, eru mikilvægir fuglastaðir, gróðurlendi eða vísindastaðir eins og Surtsey sem hefur öflugustu friðunina. Friðlönd þurfa ekki endilega að vera svo mikið friðuð sem hún.

Í Þjórsárverum til dæmis finnst mér að náttúran eigi að ganga fyrir og það eigi að vera friðland áfram. Þó að það sé stórt svæði og náttúrulegt þá er náttúran þar svo viðkvæm að ferðamenn geta ekki átt þar eins sterkan rétt og í þjóðgörðum. Ef friðlöndin sem ég var að tala um svo sem, Hornstrandir og Friðland að fjallabaki, væru þjóðgarðar ætti uppbygging og stjórnun að vera önnur en nú er. Þar væri fleira fólk að störfum og ákveðin heildarsýn. Vegna þess að svæðin eru friðlönd þá heyra þau undir Umhverfisstofnun en Ferðafélag Íslands hefur þar líka heilmikil völd.

Þórsmörk er eitt svæðið enn sem ætti að vera þjóðgarður en Þórsmörk er ekki einu sinni friðlýst samkvæmt náttúrverndarlögum, það er skógræktar eða landgræðslusvæði. Þetta er alveg tvist og bast. Það er engin heildarsýn eða samræmd stjórnun varðandi það hlutverk að taka á móti fólki og vernda náttúruna.

Ekki talað um eldgos í Vatnajökuþjóðgarði
Eldsumbrotin í Holuhrauni. Ljósm. Paulo Bessa.Vatnajökulsþjóðgarður hefur gleypt Skaftafell og Jökulsárgljúfur. Þetta er risastór þjóðgarður sem nær yfir stóran hluta af landinu. Hann er reyndar að stórum hluta jökull en það skiptir líka máli hvernig gengið er um jökulinn. Ég hef bent á að það er ekkert rætt um að eldgosið í Holuhrauni sé í Vatnajökulsþjóðgarði, það er eins og þjóðgarðurinn gleymist. Ég held að ef það væri eldgos í Yellowstone þá yrði ekki talað um eldgos í Ameríku heldur í Yellowstone. Við tölum um eldgos norðan Vatnajökuls eða í Bárðarbungu en það er í miðjum Vatnajökulsþjóðgarði sem er sjaldan nefnt. Þjógarðarnir okkar hafi ekki sömu stöðu og þjóðgarðarnir í Bandaríkjunum. Við höfum ekki þetta þjóðarstolt eða væntumþykju gagnvart þeim eins og maður finnur í Bandaríkjunum gagnvart görðunum þar. Þjóðgarðarnir okkar eru varla nefndir á nafn hér. Vatnajökulsþjóðgarður er auðvitað stór og í honum eru eldri þjóðgarðar eins og Skaftafell og Jökulsárgljúfur, það eru áratugir síðan þau svæði urðu að þjóðgörðum. Inn í Vatnajökulsþjóðgarði eru líka svæði sem voru áður friðlönd eins og Lakagígar og Askja og fleiri svæði sem sum eru langt frá jöklinum.

Landið við jökuljaðarinn ekki í þjóðgarðinum og aðrir sem sjá um þjónustuna þar
Jökulsárlón. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Þjóðgarðurinn var í upphafi hugsaður sem jökullinn og það land sem hann hefur mótað í norður og suður. Það er auðvitað langt í að svo verði. Í sunnanverðum jöklinum eru þjóðgarðsmörkin víða við jökuljaðar. Fólk fer því ekki inn í þjóðgarðinn en horfir inn í hann utan frá. Landið við jaðarinn tilheyrir ekki þjóðgarðinum og það eru einhverjir aðrir sem hafa með það að gera hvernig tekið er á móti fólki eins og við Jökulsárlón og Fjallsárlón. Þetta er dæmigert fyrir aðstæðurnar hjá okkur. Varðandi Jökulsárlónið þá finnst mér óljóst hvort það er inni í þjóðgarðinum því mörkin eru oft við jökulbrúnina. Það er ekki nógu skýrt hvar jökullinn endar og lónið byrjar. Auðvitað á landið við jökuljaðarinn að tilheyra þjóðgarðinum. Þetta er eins og ég fengi gesti en gæti ekki boðið þeim inn til mín en leyfði þeim að sitja fyrir utan og horfa inn um gluggann. Lakagígar eru innan þjóðgarðsins þó jökullinn og áhrif hans séu ekki aðalatriði. Þetta er reyndar allt tengt. Eldvirkni sem nær langt undir jökul hefur áhrif langt út fyrir hann, það sjáum við varðandi eldvirknina undir jöklinum núna. Allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum ætti að vera friðlýst. En það er fjarri að svo sé. Þarna eigum við mikið eftir. Þó okkur finnist Vatnajökulsþjóðgarður stór þá er svo sannarlega langt í land að hann sé nægilega stór.

Mikilvægt að friðlýsa landslagsheildir
Það er mikilvægt að friðlýsa landslags- og vistkerfisheildir og það er fráleitt að friðlýsa gljúfur öðru megin en ekki hinu megin. Fegurðin í Jökulsárgljúfrum er til dæmis ekki minni þegar horft er yfir ánna en niður fyrir tærnar á sér. Þetta er ein heild, en það vantar heildarsýn og samræmingu. Þetta er alltaf spurning um hagsmuni og samninga og þannig hefur það verið frá upphafi. Land er ekki friðlýst nema í samráði við alla hagsmunaaðila og það er oft mjög erfitt ferli. Það þarf ekki nema einn eða tvo á móti til að stöðva friðlýsingu. Þetta geta verið aðilar sem ekki eiga landið en hafa einhverra hagsmuna að gæta, eiga þarna beitiland eða eitthvað slíkt. Það eru oftast mjög margir sem koma að og vilja gera það, sveitafélög, landeigendur, nágrannar og fleiri. Náttúrutúlkun, það er fræðsla og miðlun, er mikilvæg í þessu ferli því það er svo oft skortur á skilningi eða hugsun. Sá skortur verður til þess að fólk misskilur ýmislegt eða ákveður að hlutirnir séu öðruvísi en þeir eru í rauninni.

Fólk hefur nú aukinn áhuga á landinu sem okkur er trúað fyrir
Seljalandsfoss. Ljósm. Árni Tryggvason.Stundum þegar ég er með krökkum þá tala ég um þjóðgarða sem stofurnar í landinu. Við högum okkur öðruvísi í stofunni en í þvottahúsinu eða í ganginum og förum ekki inn í hana á skítugum skónum. Við komum í stofurnar til að eiga góða stund og láta okkur líða vel og þangað bjóðum við gestum. Það er þessi virðing sem mér hefur fundist vanta varðandi þjóðgarðana okkar en þó held ég að það sé að breytast.

Mér finnst áhugi á landinu vera að aukast. Kannski er það vegna ferðamannastraumsins, við sjáum hvað útlendingar hrífast að landinu okkar og hugsum þá kannski, já líklega er þetta land sem okkur er trúað fyrir eitthvað merkilegt. Íslendingar eru líka farnir að ferðast meira og hafa því samanburð. Ég er sjálf er nýkomin heim frá útlöndum. Þegar maður horfir á land erlendis þá hugsar maður, vá hvað Ísland er sérstakt og öðruvísi. Kannski eru margir eins og ég þegar ég var krakki í þessari ægifögru sveit við Jökulsárgljúfur og hélt að allt landið væri þannig. Það er ekki fyrr en maður sér meira og kynnist fleiru og menntast að maður fær samanburð, áttar sig á hvað maður hefur og hversu merkilegt það er.

Fráleitt hvað land sem er í umsjón ríkisins eða í þjóðareign er undir mörgum stjórnvöldum
Umhverfisstofnun hefur með flest friðlýst svæði að gera, Snæfellsjökulsþjóðgarð, Friðland að Fjallabaki, fullt af friðlýstum svæðum um allt land svo sem Dverghamra, Kirkjugólfið, Skógarfoss og fl. Svo er það Vatnajökulsþjóðgarður sem er sér stofnun. Sumstaðar eru svæði undir báðum þessum stofnunum eða lenda á milli eins og í Jökulsárgljúfrum, austurbakkinn við fossana er friðlýstur á ábyrgð Umhverfisstofnunar en Vatnajökulsþjóðgarður sinnir svæðinu. Svo eru önnur svæði nálægt Vatnajökulsþjóðgarði sem þjóðgarðurinn sinnir ekki. Höfuðstöðvar vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs eru á Kirkjubæjarklaustri en menn þar eru þó ekki að sinna Kirkjugólfinu eða Dverghömrum.

Dettifoss, séð frá vesturbakkanum. Ljósm. Árni Tryggvason.Þessir staðir heyra undir Umhverfisstofnun og er kannski lítið sinnt vegna þess að starfsmennirnir hafa langt að sækja. Þetta er ótrúlega fáránlegt. Landgræðslan hefur með sum svæði að gera eins og til dæmis Dimmuborgir í Mývatnssveit. Þar eru starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs líka staðsettir en þeir sinna ekki Dimmuborgum heldur svæðum uppi á hálendinu samt eru þetta allt ríkisstarfsmenn.

Skógræktin sinnir Þórsmörk og líka Ásbyrgi sem er inni í Vatnajökulsþjóðgarði sem hefur nú með staðinn að gera en Skógræktin vill ekki sleppa tökunum á Ásbyrgi því hún hafði svæðið hér áður fyrr.

Svo eru það Þingvellir sem er stjórnað af Þingvallanefnd sem í eru alþingismenn. Þingvellir eru alveg sér á parti.

Minjastofnum heldur utan um minjar sem margar eru inni í friðlöndum
Minjastofnun heyrir nú undir forsætisráðuneytið. Hún hefur að gera með minjar um allt land sem margar eru inni í þjóðgörðum og friðlýstum svæðum. Má til dæmis nefna allar leiðirnar sem eru margar að hverfa og týnast og gömul eyðibýli. Það eru leiðir innan friðaðra svæða og á milli þeirra sem hægt væri að nota til að tengja þau.

Þingvallabærinn. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.Svo eru það þjóðlendurnar. Mér skilst að það sé bara einn maður í forsætisráðuneytinu, kannski bara í hálfri stöðu sem sinnir þjóðlendum landsins. En skipulagsvaldið er hjá sveitastjórnum. Það eru t.d. þjóðlendur innan Vatnajökulsþjóðgarðs og varðandi þær þarf að leita samráðs við forsætisráðuneytið. Húsbóndavaldið er alltaf á einhverjum furðulegum stöðum. Svo eru það bújarðir sem ná langt inn á hálendið og eru í eigu ríkisins. Ferðamaður sem keyrir frá Möðrudal á Fjöllum sem er ríkisjörð og ætlar inn í Öskju, það er þegar ekki er lokað eins og núna, fer fyrst um ríkisjörð svo þjóðlendu og svo þjóðgarð. Hvernig er hægt að ímynda sér að nokkur botni í þessu? Stjórnmálamenn eiga að taka af skarið og ákveða að allt land sem er í eigu eða umsjón ríkisins fari undir einn hatt.

Sigurður Þórarinsson og Þjóðvangar Íslands
Það þarf að setja á fót eina góða stofnun sem gæti fengið nafnið „Þjóðvangar íslands“. Það nafn er er ekki komið frá mér heldur kemur það úr smiðju Sigurðar Þórarinssonar. Þegar hann og Ármann Snævar og fleiri voru að semja lög um þjóðgarða upp úr 1950 vildu þeir ekki að það orð yrði notað. Orðið garður er yfir eitthvað sem er manngert, við hlöðum garða, við búum til kartöflugarða og skrautgarða. Þjóðgarður er því ekki nógu gott orð. Þeir vildu að við notuðum þjóðvangur. Við förum út um víðan vang og tölum um vettvang og leikvang. En þessu var breytt í meðferð þingsins svo við köllum svæðin þjóðgarða. Við eigum því enn eftir að nota orðið þjóðvangur. Við getum sett á fót eina stofnun með þessu nafni sem hefði með allt land í eigu ríkisins að gera. Skipulag og stjórnun ferðamannastaða, þjóðgarða og annarra friðlýstra svæða væri samræmt um allt land.

Steinunn Harðardóttir.

Hlusta á viðtalið.

Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar styrkir þáttagerðina.

Tengdar hjóðupptökur:

Sigrún Helgadóttir III


Birt:
17. október 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigrún Helgadóttir í eldlínunni - 3. þáttur“, Náttúran.is: 17. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/17/med-natturunni-sigrun-helgadottir-i-eldlinunni-3-t/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 18. október 2014

Skilaboð: