Lögreglumenn við handtökur í Gálgahrauni, ljósm. Framtíðarlandið.Þann 21. október kl 17.00 verður samstöðufundur náttúruverndarsinna og mótmælenda á Íslandi haldinn við Garðastekk við Álftanesveg undir nafninu Gálgahraun – samstöðufundur um náttúruvernd og tjáningarfrelsi á Íslandi.

Fyrir ári síðan réðst 60 manna lögreglulið og jarðýta gegn hópi fólks  sem mótmælti á friðsaman hátt lagningu nýs Álftanesvegar um Gálgahraun. Yfir 20 manns voru handteknir, færðir á lögreglustöð og margir settir í einangrun. Níu þeirra voru síðar ákærð og þann 9. október síðastliðinn gerðist sá alvarlegi atburður að Héraðsdómur Reykjaness sakfelldi þau fyrir borgaralega óhlýðni. Handtökur mótmælenda í Gálgahrauni þann 21. Október 2013, með stærstu lögregluaðgerð seinni ára, eru vitni um alvarlegt ofbeldi stjórnvalda gagnvart þegnum landsins og stórt skref í átt að lögregluríki. Sakfelling 9 menninganna er síðan alvarleg aðför að tjáningarfrelsi á Íslandi sem veitir lögreglu ótakmarkaðar heimildir til að brjóta upp friðsamleg mótmæli og handtaka fólk að handahófi og án tilefnis.
 
Við hvetjum því náttúruverrndasinna og  alla sem vilja verja rétt Íslendinga til að mótmæla athöfnum stjórnvalda til að mæta við Garðastekk og Gálgahraun þar sem handtökur mótmælenda hófust fyrir ári. Ómar Ragnarsson flytur sitt óviðjafnanlega Gálgarokk, Háskólakórinn undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar syngur nokkur lög og nokkrir þeirra handteknu syngja söngva sem ómuðu úr einangrunarklefunum. Stutt erindi verða einnig flutt, boðið upp á mótmælakaffi og andmælakökur í tjaldbúðum mótmælenda og sýndar verða ljósmyndir sem sýna aðfarir lögreglunnar. Náttúrverndartrefillinn verður auðvitað á svæðinu lengri enn nokkru sinni fyrr. Til að komast á staðinn er ekið inn á bílastæði af Álftanesveginum á leiðinni til Bessastaða.


Birt:
Oct. 17, 2014
Höfundur:
Framtíðarlandið
Tilvitnun:
Framtíðarlandið „Gálgahraun – samstöðufundur um náttúruvernd og tjáningarfrelsi á Íslandi“, Náttúran.is: Oct. 17, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/17/galgahraun-samstodufundur-um-natturuvernd-og-tjani/ [Skoðað:March 5, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: