Hrafnaþing - Hnignun skóg- og kjarrlendis í Þjórsárdal frá 1587 til 1938
Hrafnaþing Náttúrufræðistofnunar Íslands hefst að nýju, á nýjum tíma, á miðvikudagsmorgnum kl. 9:15-10:00.
Fyrsta Hrafnaþing haustsins verður miðvikudaginn 15. október kl. 9:15. Þá mun Friðþór Sófus Sigurmundsson doktorsnemi við Háskóla Íslands flytja erindi sem nefnist:
Hnignun skóg- og kjarrlendis í Þjórsárdal frá 1587 til 1938
Skóg- og kjarrlendi voru mikilvægar náttúruauðlindir áður fyrr. Nákvæm útbreiðsla birkiskóga er ekki þekkt nema síðustu áratugi og fáar rannsóknir hafa verið gerðar á staðbundinni útbreiðslu þeirra gegnum aldirnar. Megin markmið þessarar rannsóknar er að:
1. Kortleggja útbreiðslu birkiskóga og kjarrlendis í Þjórsárdal (14.000 ha) á 350 ára tímabili
2. Meta áhrif náttúrulegra, félags- og efnahagslegra þátta á útbreiðsluna á þremur tímabilum, 1587-1708, 1708-1880, 1880-1938
Við kortlagningu á útbreiðslu skóg-og kjarrlendis var notast við sögulegar ritheimildir, staðsetningu og útbreiðslu kolagrafa og gróðurleifar í jarðvegi, gamlar ljósmyndir og loftmyndir. Kortlagningin var unnin í landfræðilegum upplýsingakerfum (LUK). Á vettvangi var núverandi útbreiðsla skóg- og kjarrlendis kortlögð, gróðurleifar í jarðvegi kortlagðar og tímasettar með hjálp þekktra gjóskulaga auk þess sem kolagrafir voru staðsettar.
Helmingur Þjórsárdals var vaxinn skóg- og kjarrlendi á seinni helmingi 16. aldar. Frá 1587-1938 dróst skóg- og kjarrlendi saman úr 6170 ha í 388 ha eða um 94%. Breytingar urðu mestar á tímabilinu 1587-1708, þegar skóg- og kjarrlendis dróst saman um 71%. Skógurinn var nýttur til eldiviðar, kolagerðar, kýrfóðurs, beitar og efniviðar til smíða. Fjöldi kolagrafa á svæðinu sýna að kolagerð var mikið stunduð í Þjórsárdal. Þessi landnýting hafði gríðarleg áhrif á skóg- og kjarrlendi dalsins, en að auki bættist við kólnandi veðurfar litlu ísaldar og gjóskufall vegna stórra eldgosa í Heklu. Beit var ekki ráðandi þáttur í hnignun skóg- og kjarrlendis í dalnum en hafa ber í huga að vetrarbeit í vistkerfi sem var ofnýtt hefur haft neikvæð áhrif á nýliðun skóganna. Eignarhald og skógarítök skiptu meginmáli við stjórnun á nýtingu skóglendis og þar með afdrifum þess. Skóg- og kjarrlendi kirkjujarðanna (Skálholts og kirkjuléna) voru ofnýtt en það sem var í einkaeigu eða undir stjórn ábúanda breyttist lítið og þar var að finna stærstu skógarleifar Þjórsárdals árið 1938.
Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ, í Krummasölum á 3. hæð.
Hægt er að nálgast upptökur af flestum erindum á Hrafnaþingi frá og með árinu 2011 á svæði Náttúrufræðistofnunar Íslands á samfélagsmiðlinum Youtube.
-
Hrafnaþing - Hnignun skóg- og kjarrlendis í Þjórsárdal frá 1587 til 1938
- Staðsetning
- None Urriðaholtsstræti 6
- Hefst
- Miðvikudagur 15. október 2014 09:15
- Lýkur
- Miðvikudagur 15. október 2014 10:00
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Hrafnaþing - Hnignun skóg- og kjarrlendis í Þjórsárdal frá 1587 til 1938“, Náttúran.is: 14. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/14/hrafnathing-hnignun-skog-og-kjarrlendis-i-thjorsar/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.