Gálgahraunsmálið til Mannréttindadómstóls Evrópu
Hraunavinir og tveir einstaklingar hafa, með stuðningi Landverndar, kært íslenska ríkið til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna Gálgahraunsmálsins. Kærendur telja Hæstarétt hafa brotið á rétti Hraunavina til raunhæfra úrræða fyrir dómstólum og réttlátrar málsmeðferðar fyrir hönd félagsmanna sinna. Er í kærunni m.a. bent á fyrri aðkomu Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara að málinu.
Hæstiréttur hafnaði með dómi í nóvember 2013 beiðni Hraunavina, Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands um að fá ráðgefandi álit EFTA dómstólsins um hvort umhverfisverndarsamtök ættu aðgang að dómstólum. Krafan var gerð í lögbannsmáli sem samtökin fjögur höfðuðu gegn Vegagerðinni vegna lagningar nýs Álftanesvegar um Gálgahraun.
Í kærunni til Mannréttindadómstólsins er þess krafist að viðurkennt verði að íslenska ríkið hafi með þessu brotið á rétti Hraunavina fyrir hönd félagsmanna sinna til réttlátrar málsmeðferðar og til raunhæfra úrræða fyrir dómstólum. Þau réttindi eru varin af Mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er aðili að. Í kærunni er m.a. bent á að Hæstiréttur Íslands komist að annarri niðurstöðu en Evrópudómstólinn í fleiru en einu hliðstæðu máli þar sem umhverfisverndarsamtök leiti til dómstóla. Niðurstaða Evrópudómstólsins í þessum málum er að ekki megi svipta umhverfisverndarsamtök þeim rétti að sækja mál sín fyrir dómstólum sem þau eiga rétt á samkvæmt Árósasamningnum og Evróputilskipunum sem byggja á honum. Ísland er einnig aðili að Árósasamningum. Það er því álit kærenda að Hæstiréttur hafi brotið á rétti Hraunavina.
Einn þáttur kærunnar til Mannréttindadómstólsins lýtur að vafa um óhlutdrægni Markúsar Sigurbjörnssonar hæstaréttardómara. Markús ritaði undir álit um nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar Árósasamningsins árið 2001 sem þáverandi formaður svonefndar réttarfarsnefndar. Réttarfarsnefnd er ólögfest stjórnsýslunefnd sem veitir stjórnvöldum ráðgjöf á sviði réttarfars. Markús sat síðan sem dómsformaður í Gálgahraunsmálinu sem dæmt var í Hæstarétti í nóvember í fyrra þar sem reyndi á rétt umhverfisverndarsamtaka til aðgangs að dómstólum hérlendis samkvæmt Árósasamningnum. Þar tók Hæstiréttur af skarið og komst að þeirri niðurstöðu að þar sem umhverfisverndarsamtök hafi aðgang að kæruleið í stjórnsýslunni, beri Íslandi ekki að skylda til að tryggja þeim aðgang að dómstólum.
Sökum hinna nánu tengsla álits Markúsar sem formanns réttarfarsnefndar við sakarefnið í Gálgahraunsmálinu er dæmt var í nóvember 2013, höfðu þeir aðilar sem nú hafa kært til Mannréttindadómstólsins því réttmæta ástæðu til að efast um óhlutdrægni hans sem dómara í málinu. Beðið er ákvörðunar Mannréttindadómstólsins um hvort málið verði tekið fyrir.
Ljósmynd: Grænir fánar reistir í Gálgahrauni, ljósm. Hraunavinir.net
Birt:
Tilvitnun:
Guðmundur Ingi Guðbrandsson „Gálgahraunsmálið til Mannréttindadómstóls Evrópu“, Náttúran.is: 13. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/13/galgahraunsmalid-til-mannrettindadomstols-evropu/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.