Með náttúrunni - Sigrún Helgadóttir í eldlínunni - 2. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Sigrún Helgadóttir kennari, líf- og umhverfisfræðingur er í eldlínunni í þættinum Með náttúrunni nú í október. Í síðustu viku sagði hún frá ferð sinni um Bandaríki Norður Ameríku sumarið 1979, þar sem hún skoðaði 12 þjóðgarða og námi í stjórnun auðlinda í Edinborg næstu ár á eftir. Nú segir hún meðal annars frá landvarðastörfum sínum í Jökulsárgljúfrum þar sem hún var fyrsti landvörðurinn en í kjölfar þess fór hún í líffræði og frekara nám. Þegar hún kom heim erlendis frá hóf hún störf hjá Náttúruverndarráði og hafði ákveðnar skoðanir um þróun þjóðgarða. Þjóðgarðar í Bandaríkjunum og Bretlandi voru ólíkir og henni fannst okkar þjóðgarðar hafa meira að sækja til Bandaríkjanna en Bretlands þar sem hér var mikið af lítt snortnu landi eins og í Bandaríkjunum.
Hér var og er tiltölulega óspilltland eins og í Bandaríkjunum
Sigrún segir að framan af hafi menn hér horft til Evrópu. Á fyrstu árum Náttúruverndarráðs voru mikil tengsl við Skotland og það var fólk þaðan sem opnaði mér allar dyr í Bandaríkjunum segir hún. Við getum sótt fyrirmyndir bæði til Bandaríkjanna og Bretlands. Hvað varðar hálendið og stóran hluta landsins þá eru friðlönd okkar og þjóðgarðar líkari slíkum svæðum í Bandaríkjunum en fólk í Bretlandi er þjálfað í verndum svæða í byggð og við eigum auðvitað líka svæði þar sem við höfum tekið frá og viljum vernda. Af báðum getum við lært ýmislegt varðandi miðlun upplýsinga, göngustígagerð og skipulag á leiðum. Þegar ég kom heim árið 1981 fór ég fljótlega að vinna hjá Náttúruverndarráði sem var sú stofnun sem hafði með friðlýst svæði og þjóðgarða að gera nema Þingvelli sem heyra undir forsætisráðuneytið og Alþingi. Ég var þar þó ekki lengi því ég lagðist fljótlega í barneignir en hef alltaf tengst náttúruverndarmálum og verið með annan fótinn í þessum málum allar götur síðan.
Hlusta á viðtalið.
Útdráttur úr viðtalinu
Í hjólhýsi í Vesturdal sumarið 1974
Ég er fædd og uppalin í Reykjavík segir Sigrún en var alltaf í sveit norður í Jökulsárgljúfrum á sumrin, á bæ sem heitir Vestara-Land, sunnarlega í Öxarfirði. Ég smalaði alveg upp að Dettifossi í göngum á haustin og fór um Jökulsárgljúfur svo lengi sem ég man eftir mér. Ég var innan við tveggja ára þegar ég fór í fyrsta sinn að Vestara-Landi og var þar síðan á sumrin til fullorðins ára. Vorið 1974 var ég austur á Laugalandi í Holtum og hafði unnið þar sem kennari um veturinn. Ég man ótrúlega vel eftir að hafa komið inn í herbergið mitt í hádeginu daginn sem verið var að slíta skólanum og heyrði auglýst eftir gæslumanni á friðlýstum svæðum. Ég hafði frétt utan að mér að það væri búið að stofna þjóðgarð vestan við Jökulsá á Fjöllum, sveitin mín var austan megin. Ég man að ég hugsaði með mér að sumarstarf þarna væri upplagt fyrir mig þá gæti ég verið á svæðinu án þess að liggja uppi á fjölskyldunni.
Ég hafði strax samband við Náttúruverndarráð og sótti um starfið. Ég held að það hafi alls verið um 70 umsækjendur. Ég var hins vegar ein af fáum sem þekkti til. Þó ég hafi verið handan árinnar þekkti ég til vestan hennar meðal annars fólkið í Ási,þjóðgarðsjörðinni. Fólkið þar var tilbúið að aðstoða mig en nokkuð hik kom á menn þegar þeir komust að því að ég var einstæð móðir, það þótti ekki alveg við hæfi að senda mig þarna upp í óbyggðir til að búa í hjólhýsi í Vesturdal með þriggja ára barn. Þau í Ási tóku af skarið og sögðu að ef það væri eitthvert vandamál með drenginn tækju þau hann bara í fóstur. Þau lánuðu mér síðan dóttur sína hana Auði Guðnýju, sem þá var 15 ára, sem barnfóstru. Þetta sumar bjuggum við svo þrjú í 6,7 fermetra hjólhýsi. Auður fékk einstöku sinnum að fara heim til sín og þá tók hún strákinn með sér.
Þjóðgarðurinn vinsæll partístaður
Fyrstu verkefnin lágu ekki alveg fyrir segir Sigrún. Árni Reynisson sem var framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs og einhverjir fleiri fóru með mér norður. Ég man að það var 18. júní því daginn áður var þjóðhátíðardagurinn og allir að skemmta sér. Við vorum komin eldsnemma út á flugvöll og lentum síðan á Akureyri og ókum þaðan í Vesturdal sem er rúmlega 10 kílómetra frá byggð í Kelduhverfi. Þangað lá moldarvegur og niður í dalinn sjálfan var snarbrött brekka. Þar var náttúrulega ekki eitt einasta skilti og hvergi nokkur girðing eða merkingar. Þarna gengum við um og mér var bent á að ég ætti að passa að fólk æki ekki lengra en á ákveðinn stað, þar ætti ég að reyna að stoppa alla bíla.
Fram að þessu hafði verið keyrt út um allt og farið tvisvar yfir Vesturdalsána á tjaldsvæðinu. Bílstjórarnir höfðu skorið niður bakkana til að komast yfir hana og ekið eftir tjaldsvæðinu endilöngu og inn á svokallaðan Höfðaflöt sem er innst á svæðinu.
Þetta var mikill partístaður, það var mikill kalviður í skóginum og það hafði myndast sú hefð að tína hann og vera með varðeld þegar þarna voru stórir hópar. Þetta var áningastaður hjá stórum ferðaútvegsfyrirtækjum eins og Guðmundi Jónassyni og Úlfari Jakobssyni sem komu þarna með hópa í hverri viku.
Var eins og hlaupandi skilti í þjóðgarðinum
Þar sem vantaði allar merkingar var ég alltaf á ferðinni eins og hlaupandi skilti. Seinna um sumarið kom maður frá Náttúruverndarráði og setti upp nokkur skilti en það var samt ansi frumstætt. Það voru ekki allir jafn glaðir með dvöl mína þarna. Ég man að eitt sinn kom rúta niður brekkuna inn á svæðið og ég hljóp á móti henni til að benda á hvar þægilegast væri að tjalda. Ég var svo samviskusöm að ég held ég hafi varla sofið til að vera alltaf tilbúin að aðstoða fólk og benda því á hvert það ætti að fara.
Út úr rútunni komu tvær konur, önnur þeirra var skólasystir mín úr Kennaraskólanum og það urðu fagnaðarfundir. Ég fór eitthvað að segja þeim til og þá hreytti hin konan út úr sér „Já ég vissi það að það væri kominn ormur i þessa paradís líka.“ Hún reyndist vera ráðskona sem hafði verið lengi í svona ferðum. Það sem var að gerast var að ráðnir höfðu verið landverðir þarna, í Herðubreiðarlindum og víðar á svæðum þar sem þessi ferðaútgerð hafi getað gert það sem hún vildi. Allt í einu var þarna komið fólk sem var að reyna, að þeim fannst að hefta frelsi þeirra.
Hélt að allt Ísland væri eins og Jökulsárgljúfur
Ég hafði alltaf haft áhuga á náttúrunni. Það var gert grín að mér þegar ég var lítil stelpa af því ég nennti að fara af hestbaki til að skoða plöntur sem ég þekkti ekki. Það var nokkuð mikið um það þegar ég var á Vestara-Landi að fólk kæmi þangað til að fara niður í björg eins og það var kallað þegar fólk fór í skoðunarferðir um gljúfrin. Þetta er mjög fallegt land en ég áttaði mig ekki á því hvað það er einstakt, ég hélt bara að allt Ísland væri svona. Ég gerði mér ekki grein fyrir þessari miklu náttúrufegurð fyrr en ég fór að ferðast. Ég flaug alltaf norður á Kópasker og var svo keyrð suður Öxarfjörð, sem er náttúrulega fallegasta og gróðursælasta sveit á landinu, að ég tel.
Þegar ég eltist og sá fleira, sérstaklega þegar ég fór til útlanda, áttaði ég mig á hvað Jökulsárgljúfur eru sérstök.
Um haustið 1974 kom Helgi Hallgrímsson náttúrufræðingur sem þá var á Akureyri, í Vesturdal til að gera úttekt á náttúru þjóðgarðsins sem átti að verða grunnur að skipulagi hans. Helgi var brautryðjandi á þessu sviði löngu fyrir allt umhverfismat. Hann var bara einn að skoða allan þjógarðinn bæði jarðfræði og líffræði. Það var komið haust og því engar gestakomur og fyrir mér var það algjör upplifun að fylgjast með honum að störfum. Þarna var maður sem þekkti allar plönturnar sem ég var að reyna að finna út hvað hétu. Ég hafði ekki lært mikla náttúrufræði í skóla ekki einu sinni í Kennaraskólanum, þar var ekki lögð mikil áhersa á hana. Þetta hafði því mikil áhrif á mig og varð til þess að ég fór í líffræði, með jarðfræði sem aukagrein.
Lítil breyting hjá landvörðum hér á landi í 40 ár
Í vinnu minni í Vesturdal áttaði ég mig mjög fljótt á að fólk vildi yfirleitt gera allt rétt. Það var mjög sjaldgæft að fólk væri viljandi að skemma eitthvað, ég man ekki eftir því. Ef maður kom að fólki sem keyrði utan vega, sem var algengasta vandamálið eða tjaldaði á röngum stöðum þá var fólk yfirleitt mjög leitt yfir því. Þar sem ég var kennari gerði ég mér grein fyrir hvað miðlun skipti miklu máli, það að fólk væri frætt á réttan hátt. Þess vegna var það mikill lærdómur fyrir mig að sjá hvernig Bandaríkjamenn beittu fræðslu og leiðbeiningu sem við höfum kallað náttúrutúlkun en þar eru þeir mjög framarlega. Þeir miðla þekkingu og viðhorfum og láta fólk skynja mikilvægi svæðanna.
Þrátt fyrir að ýmislegt hafi gerst hér frá 1974 og nýir þjóðgarðar og friðlönd komið til sögunnar þá hefur orðið ótrúlega lítil framþróun á þessu sviði. Fjörutíu árum eftir að ég hóf störf í Vesturdal komst ég í svolitla snertingu við landvörsluna aftur þegar dóttir mín gerðist landvörður í Hvannalindum. Ég heimsótti hana og skynjaði svolítið hvað landverðir eru að fást við í dag. Ég sá að hún og aðrir landverðir eru að berjast við það sama og ég var að gera fyrir 40 árum. Það sló mig og það var erfitt að þurfa að horfast í augu við hvað við höfum komist stutt allan þennan tíma. Landverðir mæta sama andvaraleysinu hjá stjórnvöldum og ferðamenn nánast sama skortinum á upplýsingum.
Þótt ýmislegt hafi gerst þá erum við samt komin svo skammt á veg að það hræðir mig. Sérstaklega vegna þess að nú er álag á landinu svo mikið meira en fyrir 40 árum og um margt flóknara að vinna úr ýmsum málum en þá var og svo gerir hagsmunagæslan hlutina enn flóknari.
sama skortinum á upplýsingum. Þó ýmislegt hafi gerst þá erum við samt komin svo ofsalega skammt á veg að það hræðir mig. Sérstaklega vegna þess að nú er álag á landinu svo mikið meira en fyrir 40 árum og um margt flóknara að vinna úr ýmsum málum en þá var og svo gerir hagsmunagæslan hlutina enn flóknari.
Sjö stofnanir sjá hér um stjórn friðlýstra svæða
Í Bandaríkjunum, þessu stóra landi þar sem búa miljónir manna, eru margir þjóðgarðar í ýmsum fylkjum. En þar hafa öll þessi svæði verið sett undir einn hatt, National Park Service. Það þýðir að góðar hugmyndir sytra um allt kerfið og reynsla safnast saman. Í einum þjóðgarði færðu bækling með upplýsingum og leiðbeiningum, heimsækir gestastofu og ferð eftir götum og leiðum. Ef síðan er farið í annan ólíkan þjóðgarð, til dæmis úr eyðumerkurþjóðgarði í þjóðgarð þar sem votlendi er ríkjandi eða fjallaþjóðgarð í Alaska, þá er viðmótið það sama þótt landið sé ólíkt. Bæklingarnir eru svipaðir og þjóðgarðsverðirnir eru eins klæddir, það er hægt að ganga að þeim vísum. Það verða mikil samlegðaráhrif þegar allsstaðar er unnið á svipaðan hátt. Mikil áhersla er lögð á að starfsmenn séu óháðir hagsmunum svæðanna.
Þjóðgarðsverðir mega því ekki að vera meira en 10 ár í sama garði þá verða þeir að flytja og störfin eru á allan hátt mjög fagleg.
En við þessi litla þjóð höfum þjóðgarða og önnur verndarsvæði í umsjón ríkisins undir sjö stofnunum og tveim ráðuneytum. Fólk getur verið að ferðast um á litlu svæði og heimsótt nokkra staði sem lúta ólíkum herrum. Það fer til dæmis til Þingvalla í þjóðgarð sem heyrir undir forsætisráðuneytið og síðan að Gullfossi sem er friðlýst svæði og er stjórnað af Umhverfisstofnum.
Á þessum tveimur svæðum eru kannski ólíkt viðmót landvarða og öðruvísi viðmót og reglur. Svo fer það ef til vill í Þórsmörk, þar sem Skógræktin og Landgræðslan hafa húsbóndavald og þar er aftur allt öðruvísi staðið að málum. Fari fólk síðan upp á hálendið þá eru þar að miklu leyti þjóðlendur sem heyra undir ríkið og lúta forsætisráðuneytinu sem þó sinnir þeim lítið en sveitafélögin fara með skipulagsvald. Undir forsætisráðuneyti er líka Minjastofnun sem sinnir friðlýstum minjastöðum um allt land.
Vatnajökulsþjóðgarður er svo enn önnur stofnun, hugsanlega með enn aðrar áherslur. Auk verndarsvæða eru líka ríkisjarðir sem eiga sumar land langt upp á hálendi en eru leigðar bændum í hefðbundnum búskap. Það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir séu t.d. að gæta þess að ferðamenn stundi ekki utanvegaakstur. Slíkar jarðir falla undir Jarðasjóð fjármálaráðuneytisins. Þetta er allt ákaflega ruglingslegt og engin samræming, engin heildarsýn, allt tvist og bast, einn gerir hlutina svona og annar hinsegin segir Sigrún Helgadóttir að lokum.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Sigrún Helgadóttir IIBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigrún Helgadóttir í eldlínunni - 2. þáttur“, Náttúran.is: 10. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/08/med-natturunni-sigrun-helgadottir-i-eldlinunni-2-t/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. október 2014
breytt: 10. október 2014