Með náttúrunni - Sigrún Helgadóttir í eldlínunni - 1. þáttur
Komið þið sælir kæru náttúruunnendur!
Sigrún Helgadóttir kennari, líf- og umhverfisfræðingur er meðal fyrstu Íslendinganna sem kynntu sér ýtarlega þjóðgarða í Bandaríkjunum. Eftir langa ferð þar og heimsókn í tólf þjóðgarða hóf hún nám í auðlindastjórnun við Edinborgarháskóla. Í náminu lagði hún áherslu á að bera saman þjóðgarða í Bandaríkjunum og Bretlandi sem eru gjörólíkir. Hún skoðaði þá sérstaklega með tilliti til Þjóðgarða, friðlanda og fólkvanga hér á landi. Hún var í sveit við Jökulsárgljúfur, var fyrsti landvörðurinn í þjóðgarðinum þar og hefur skrifað bækur um Jökulsárgljúfur og Þingvelli.
Sigrún Helgadóttir er í eldlínunni með náttúrunni í október. Á næstu vikum segir hún okkur frá sveitadvölinni, sumri í hjólhýsi í Jökulsárgljúfrum með þriggja ára barn, kynnum hennar og fjölskyldunnar af Þingvöllum, bókarskrifum, viðhorfum til friðaðra svæða hér á landi og framtíðarsýn hvað það varðar.
Að þessu sinni segir hún meðal annars frá fyrstu þjóðgörðum Bandaríkjanna en þeir hafa orðið fyrirmynd annara þjóðgarða víða um heim. Hlusta á þáttinn.
Útdráttur úr viðtalinu
Upphaf þjóðgarða og friðuð svæði á Íslandi
Kynnti sér þjóðgarða í Bandaríkjunum og Bretlandi
Þegar Sigrún Helgadóttir var ráðin til starfa í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfri fyrir 40 árum, þjóðhátíðarárið mikla 1974 var starfsheitið landvörður ekki til, hún fékk titilinn gæslumaður í þjóðgarði. Eftir að hafa sinnt því starfi í tvö sumur, segir hún, fór ég í líffræði í Háskóla Íslands en fyrir var ég með kennaramenntum. Ég stundaði námið á veturna og vann í þjóðgarðinum næstu þrjú sumur. Síðan fór ég til Bandaríkjanna til að kynna mér þjóðgarðana þar, ég heimsótti tólf þeirra og dvaldi í hverjum þeirra í nokkra daga. Ég var með kynnisbréf frá höfuðstöðvum National Park Service svo að mér stóðu allar dyr opnar. Ég kynntist mjög mörgu og lærði mikið sumarið 1979. Bandaríkjamenn eru algjörir brautryðjendur á þessu sviði, þeir stofnuðu fyrstu þjóðgarðana og lögðu línurnar um skipulagningu þeirra og stjórnum. Með þessa þekkingu í farteskinu fór ég í Endinborgarháskóla í tiltölulega nýtt nám, náttúruauðlindastýringu. Þetta var meistaranám með áherslu á einhvers konar auðlindastýringu. Þar sérhæfði ég mig í þjóðgörðum, friðlýstum svæðum, fólkvöngum og öðrum ferðamannastöðum. Í námi mínu bar ég saman aðdraganda að þjóðgarðastofnun í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þetta eru eins ólík lönd og hugsast getur og ég reyndi að átta mig á hvað við gætum lært af þessum tveimur löndum. Ég lauk námi haustið 1981 og kom þá heim.
Að taka frá land fyrir komandi kynslóðir - hraðar breytingar ýttu við fólki
Í Bretlandi hefur fólk búið í þúsundir ára, land er mjög þéttbýlt og í einkaeign og því var mjög erfitt að taka frá land til náttúruverndar eða vegna almannahagsmuna. Í hinum nýja heimi Bandaríkjunum gerðust hlutirnir mjög hratt. Hinir tæknivæddu Evrópubúar komu að landi sem vissulega var numið fyrir en ekki tæknivætt. Þeir streymdu inn í landið og æddu yfir það eins og engilsprettur, eyddu skógum og drápu dýr. Þeir héldu líklega að landið væri óendanlegt. Þegar þeir komu að Kyrrahafinu og sáu að landið tók enda áttuðu þeir sig á þeim gífurlegu breytingum sem aðgerðir þeirra höfðu valdið á stuttum tíma. Þá myndaðist hreyfing sem byggðist á spurningunni „Hver er réttur okkar til að breyta öllu eins og okkur sýnist?“
Í framhaldinu var lögð áhersla á að taka frá óspillt land svo komandi kynslóðir gætu séð hvernig landið leit út áður en maðurinn kom og nytjaði það og gjörbreytti. Það var árið 1864 sem fyrstu svæðin voru tekin frá eða friðuð, svo nú er hálfgert afmælisár. Þetta voru Yosemite dalurinn í Kaliforníu og lundur með stórum risafurum, Mariposa Grove eða Fiðrildalundur. Það var ákveðið að þarna mætti enginn nema land og Indíánarnir voru reknir á brott. Þarna mátti maðurinn ekki breyta neinu, náttúran átti sjálf að sjá um allar breytingar. Svæðin voru opin öllum og allir áttu að hafa sama rétt til að koma, ganga um, skoða, njóta og upplifa.
Upphaflega voru þessi svæði þó ekki kölluð þjóðgarðar og Kaliforníuríki var sett yfir þau. Nokkrum árum seinna uppgötvuðu menn undrin þar sem núna er Yellowstone og þá var stofnaður þjóðgarður með því nafni. Þessi nýi garður var settur undir alríkisstjórnina í Washington því á svæðinu var ekki búið að stofna ríki. Þess vegna er það fyrsti þjóðgarðurinn.
Þessi hugmyndafræði breiddist hratt út. Það var auðvelt að fylgja henni eftir í löndum eins og Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi og Afríku þar sem Evrópubúar voru ekki búnir að eyðilegga of mikið. Aðstæður voru allt aðrar í Evrópu, þar var ekkert land til sem ekki hafði verði breytt og nýtt. Enginn vissi hvernig náttúran hafði litið út í upphafi eftir árþúsunda mótun mannsins á landinu. Hver kynslóð gerði sínar breytingar og þróunin var svo hæg að fólk tók ekki mikið eftir þeim, því leiddi það ekki til viðbragða um verndun. Það hvað breytingarnar gerðust hratt í hinum nýja heimi virðist hafa verið forsenda þess að menn voru tilbúnir til að leggja eitthvað á sig fyrir verndun landsvæða.
Þjóðgarðar, friðlönd og fólkvangar
Það sem er svo skemmtilegt við þjóðgarða er að náttúran á að fá fá að njóta sín og ráða ferðinni en fólk á líka að geta komið skoðað og upplifað. Eftir stofnun þessara þjóðgarða hafa svæði verið friðlýst sem eru minna vernduð eða meira vernduð.
Friðlönd eru yfirleitt svæði sem eru tekin frá náttúrunnar vegna og fólk fær ekki að koma í sum þeirra nema eftir ströngum reglum. Surtsey er gott dæmi um það. Þangað fá aðeins vísindamenn með sérstök leyfi að koma.
Svo eru fólkvangar þeir eru í námunda við þéttbýli og markmiðið er að gefa fólki tækifæri á að vera úti í náttúrunni og því er þar ýmislegt gert til að auðvelda aðgang. Það má segja að á vissan hátt sé náttúrunni fórnað fyrir aðgengi. Bláfjöll eru gott dæmi umslík svæði.
Þjóðgarðar eru þarna á milli, þar á að vernda náttúruna en líka að vera aðgengi fyrir almenning. Línan þarna á milli er oft nokkuð mjó og hún hefur sveiflast fram og aftur gegnum tíðina. Fyrstu þjóðgarðarnir voru í rauninni svolítið lokaðir. Þeir sem komu til að njóta svæðanna voru miklir hugsjónamenn. Það var áhugafólk um náttúruvernd sem réði ferðinni og það var nokkur harka í vernduninni. Í Yosemite og á því svæði var mikið af hávöxnum trjám sem voru friðuð er þeir voru alltaf einhverjir sem vildu höggva þau og því var herinn fengin til að vakta svæðin, til að byrja með. Þetta var rétt eftir þrælastríðið og herinn var hálf atvinnulaus.
Stífla og stefnubreyting í þjóðgörðunum
Vegna vatnsskorts í San Fransisko urðu miklar deilur um hvort stífla ætti ána sem rann í gegnum dal rétt norðan Yosemitedals og gera þar uppistöðulón. Þetta var mjög hörð barátta sem stóð í nokkur ár og endaði með því að náttúruverndarfólk tapaði málinu og dalurinn var fylltur af vatni. Enn í dag sér maður tillögur um að vatninu verði hleypt úr lóninu.
Við þetta breytti náttúruverndarfólkið um stefnu, það sagðist hafa tapað málinu vegna þess að fólk þekkti ekki þjóðgarðana, það vissi ekki hver verðmæti þeirra voru af því það hafði aldrei komið í þá. Því þyrfti að opna svæðin mikið betur, fræða fólk um garðana og sýna því hvað þeir væru merkilegir.
Árið 1916 var National Park Service sett á fót en sú stofnum hefur yfirstjórn yfir öllum þjóðgörðunum og ýmsum menningartengdum svæðum í Banaríkjunum. Það er alveg lykilatriði í þessu stóra landi að það skuli vera sama stefnumörkun og hugmyndafræði í öllum þjóðgörðunum. Ein sú hugmyndafræði sem þarna varð til er ákveðið form fræðslu sem við höfum átt erfitt með að þýða heitið á en höfum kallað náttúrutúlkun. Lögð er áhersla á að ekki eigi að fræða um hlutina með upptalningu og heitum, heldur leggja áherslu á að fólk upplifi svæðin og öðlist skilning á þeim. Þannig muni það átta sig á mikilvægi svæðanna og fái því áhuga á að vernda þau. Þetta er í raun ákveðinn áróður fyrir náttúruvernd.
Á þessum tíma voru gerðir samningar við járnbrautirnar um að flytja fólk inn í þjóðgarðana, vegir voru lagðir og starfsfólki í þjóðgörðunum var fjölgað mikið. En þessi stefna fór alveg út í öfgar fyrir miðja síðustu öld. Það var farið að laða fólk að á ýmsan hátt, haldnar voru leiksýningar og ballettsýningar og villt dýr voru fóðruð svo að fólk fengi örugglega að sjá þau. Gestirnir streymdu að en ekki til að skoða náttúruna heldur til að taka þátt í hinum ýmsu uppákomum. Þetta var síðan gagnrýnt og upp úr miðri síðustu öld var blaðinu algjörlega snúið við. Um 1965 var mörkuð mjög ákveðin stefna gegn þessari þróun og undirstrikað að þetta væri ekki hlutverk þjóðgarða. Þangað ætti fólk fyrst og fremst að koma til að upplifa og njóta náttúrunnar. Ef ágangur mannanna yrði of mikill ættu gestirnir að víkja fyrir náttúrunni.
Aukinn skilningur á samhenginu og samspilinu í náttúruni
Í upphafi gætti mikils þekkingar og skilningsleysis á gangi náttúrunnar. Eitt af því sem fólk skildi ekki var að ýmsir þættir þar hafa þróast og mótast í gegnum aldirnar og allt spilar saman. Gott dæmi eru skógareldar, þeir hafa alltaf átt sér stað. Það hefur kviknað í út frá eldingum og slíku og sumar plöntur eru aðlagaðar að þessum eldum. Fyrst var alltaf reynt að slökkva skógareldana en síðan kom í ljós að sumar trjátegundir hættu að endurnýja sig. Þær þurftu hreinlega á eldinum að halda svo það kæmi rof í skóginn og jafnvel til að könglar og fræ opnuðust. Það var eins með ýmis villt dýr, úlfinum var eytt því talið var að hann ylli bara skaða. Síðan hefur þessari stefnu verið breytt, skógareldar sem kvikna á náttúrulegan hátt fá að brenna svo framarlega sem þeir ógna ekki fólki og mannvirkjum.
Þetta var þó mjög umdeilt í Yellowstone fyrir nokkrum árum en það hefur komið í ljós hvað eldurinn hafði góð áhrif til viðhalds alls vistkerfisins. Eins er það með úlfinn, hann var útdauður í Yellowstone en var fluttur aftur inn í þjóðgarðinn. Endurkoma hans hefur haft gífurlega jákvæð áhrif ekki bara á dýrastofna heldur vistkerfið í heild sinni, sem er mjög merkilegt. Þannig erum við endalaust að læra.
Það er þess vegna sem þjóðgarðarnir eru svo mikilvægir, við þurfum að eiga svæði þar sem náttúran fær að ráða án aðkomu mannsins, af því lærum við mjög mikið, segir Sigrún Helgadóttir að lokum.
Steinunn Harðardóttir.
Tengdar hjóðupptökur:
Sigrún Helgadóttir IBirt:
Tilvitnun:
Steinunn Harðardóttir „Með náttúrunni - Sigrún Helgadóttir í eldlínunni - 1. þáttur“, Náttúran.is: 3. október 2014 URL: http://nature.is/d/2014/10/03/med-natturunni-sigrun-helgadottir-i-eldlinunni-1-t/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 5. október 2014