Umbrotin í Bárðarbungu og Holuhrauni
Kristín Jónsdóttir og Magnús Tumi Guðmundsson flytja erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt Í DAG mánudaginn 29. september kl. 17:15 í sal 101 í Lögbergi, Félagsfræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip af erindi:
Þann 16. ágúst síðastliðinn hófst áköf jarðskjálftahrina í Bárðarbungu. Á tveimur vikum færðust skjálftarnir til norðausturs undir Dyngjujökli og 29. ágúst varð smágos í Holuhrauni, um 5 km norðan við jökuljaðarinn. Það gos var skammlíft en tveimur dögum síðar hófst gos fyrir alvöru í Holuhrauni. Þegar þetta er ritað hefur gosið án afláts síðan og engin merki um að dragi úr virkninni. Ummerki hafa einnig fundist um smágos undir jökli suðaustan Bárðarbungu og undir Dyngjujökli. Stór hraunfláki hefur myndast og móða frá gosstöðvunum veldur mengun víða um land. Eitt helsta einkenni umbrotanna eru stórir jarðskjálftar í Bárðarbungu. Þann 5. september kom í ljós að askjan í Bárðarbungu sígur og nálgast sigið nú 30 metra. Öskjusig eru ekki algeng og eina staðfesta öskjusigið á sögulegum tíma á Íslandi varð þegar Öskjuvatn myndaðist í kjölfar eldgosa og gliðnunarhrinu 1875. Í erindinu verður atburðarásin rakin, greint frá því hvernig staðið er að vöktun og hvernig hún kallar á samvinnu margra stofnanna, innlendra og erlendra auk þess fjallað verður um samhengi við fyrri atburði, öskjusig og eldgos.“
Kristín Jónsdóttir er fædd árið 1973. Hún lauk BS-prófi í jarðeðlisfræði frá HÍ 1999 og Ph.D. gráðu við Uppsala University árið 2009. Kristín starfar sem fagstjóri jarðskjálftavár og jarðskjálftaeftirlits á Veðurstofu Íslands og vinnur þar m.a. að rannsóknum á jarðskjálftum og eldvirkni.
Magnús Tumi Guðmundsson er fæddur árið 1961. Hann tók BS-próf frá Háskóla Íslands í jarðeðlisfræði 1986 og doktorsprófi frá University College London 1992. Magnús Tumi er prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. Helstu rannsóknasvið hans eru eldgos og jarðhiti í jöklum, sprengigos og eldvirkni almennt.
Sjá nánar á vef HÍN (http://www.hin.is/)
Fyrir hönd stjórnar HÍN,
Ester Ýr
Fræðslustjóri
-
Umbrotin í Bárðarbungu og Holuhrauni
- Staðsetning
- Lögberg Sæmundargata 8
- Hefst
- Mánudagur 29. september 2014 17:15
- Lýkur
- Mánudagur 29. september 2014 18:00
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Ester Ýr „Umbrotin í Bárðarbungu og Holuhrauni“, Náttúran.is: 29. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/29/umbrotin-i-bardarbungu-og-holuhrauni/ [Skoðað:9. maí 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.