Út er komin bókin Lífríki Íslands: vistkerfi lands og sjávar eftir Snorra Baldursson líffræðing. Í henni er fjallað um vistkerfi lands og sjávar og er hún hvoru tveggja hugsuð sem fræðibók fyrir almenning og uppflettirit fyrir nemendur og kennara á öllum skólastigum.

Í bókinni, sem er ætlað að efla náttúruvitund þjóðarinnar, er rýnt í vistkerfi Íslands og fjallað um lífríki sjávar og strandsvæða; lífríki ferskvatns, bæði straum- og stöðuvatna, og lífríki þurrlendis. Meðal annars er fjallað um:

  • sögu og þróun lífríkisins og hvernig það hefur mótast af hnattstöðu landsins og ólífrænum öflum sem á það verka.
  • samsetningu lífríkisins og sérstöðu þess í samanburði við lífríki annarra landa.
  • aðlögun lífvera eftir að ísöld lauk
  • mismunandi búsvæði lífveranna, einkenni svæðanna og breytingar í tímans rás
  • áhrif búsetu og nýtingar
  • hvað þarf að vernda og framtíðarhorfur í ljósi hnattrænnar þróunar

Í bókinni er einnig samantekt um stöðu lífríkisins nú í upphafi 21. aldar og framtíðarhorfur, í ljósi breyttrar landnýtingar og loftslagsbreytinga, sem eru þegar hafnar.

Við ritun bókarinnar var stuðst við fjölbreyttar og viðamiklar heimildir hundruða líffræðinga og vistfræðinga sem unnið hafa að lífríkisrannsóknum hér á landi. Niðurstaðan er heildstætt verk þar sem hægt er á einum stað að nálgast bestu fáanlega þekkingu um lífríki og vistfræði Íslands.

Snorri Baldursson höfundur bókarinnar starfaði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands þegar hann hófst handa við ritun bókarinnar árið 2007. Stofnunin veitti honum aðstöðu og tækifæri til að vinna að verkinu fyrstu tvö árin og var einn af helstu bakhjörlum verkefnisins.

Baldur Helgi Snorrason hannaði bókina ásamt Kötlu Maríudóttur. Það eru bókaforlögin Forlagið og Opna sem gefa bókina út.

Birt:
20. september 2014
Tilvitnun:
Náttúrufræðistofnun Íslands - NÍ - Garðabæ „Lífríki Íslands: vistkerfi lands og sjávar “, Náttúran.is: 20. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/20/fyrsta-bokin-um-lifriki-islands-komin-ut/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: