Ensk útgáfa af Náttúrukorti Framtíðarlandsins komin í loftið
Ensk útgáfa af Náttúrukorti Framtíðarlandsins fór í loftið í dag, á Degi íslenskrar náttúru.
Með því fá ekki aðeins Íslendingar heldur heimurinn allur yfirsýn yfir þann fjársjóð sem íslensk náttúra hefur að geyma og um leið þá ógn sem stafar af ásælni í orku hennar. Vonandi mun sú þekking stækka hóp þeirra sem koma landinu til verndar.
Fegurstu staðir landsins eru líka þeir orkuríkustu, það verður því ekki bæði sleppt og haldið.
Við eigum heildstætt miðhálendi einmitt núna, en það er ekki sjálfgefið að svo verði um ókomna tíð. Þekking og yfirsýn yfir perlur landsins og virkjunaráformin sem að þeim steðja hefur ekki verið aðgengileg íslenskum almenning, og alls ekki aðgengileg öllum þeim fjölda sem ann íslenskri náttúru en kann ekki tungumálið.
Náttúrukortið er því dýrmætur lykill - enda hefur skortur á heildarsýn og ranghugmyndir um Ísland sem ótæmandi orkulind verið ljón í vegi náttúruverndar og tvístrað þjóðinni og klofið hana.
Öll helstu náttúruverndarsamtök á Íslandi hafa tekið sig saman um að styðja stofnun friðlands á öllu miðhálendi Íslands. Þúsundir hafa lagt hönd á plóginn í hinum ýmsu félögum. Það væri mikið gæfuspor ef okkur tækist að gleðjast yfir því sem við eigum, ef okkur tækist að varðveita þessa perlu fyrir næstu kynslóðir.
„Þú verndar aðeins það sem þú elskar, þú elskar aðeins það sem þú þekkir, þú þekkir aðeins það sem þér er kennt“ sagði Guðmundur Páll Ólafsson heitin í ræðu sínu á þessum sama degi árið 2008 þegar Náttúrukortið í íslenskri útgáfu fór í loftið.
Þekktu landið þitt, þekktu Ísland og ef það snertir hjartað þitt taktu þátt í að vernda það. Þetta eru hvatningarorð Framtíðarlandsins sem stendur að gerð kortsins og í anda þeirrar sýnar sem GPÓ setti fram. Fremstu ljósmyndarar landsins hafa lagt til myndir, vísindamenn skrifað um landsvæðin, Náttúruverndarsjóður Pálma Jónssonar, Gætum Garðsins tónleikarnir, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Umhverfisráðuneytið og fleiri hafa lagt hönd á plóg.
Náttúrukortið á ensku má nálgast á vef Framtíðarlandsins: http://www.framtidarlandid.is/en/natureiceland
Birt:
Tilvitnun:
María Ellingsen, Andri Snær Magnason „Ensk útgáfa af Náttúrukorti Framtíðarlandsins komin í loftið“, Náttúran.is: 16. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/16/ensk-utgafa-af-natturukorti-framtidarlandsins-komi/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.