Frá gosstöðvunum í Holuhrauni þ. 10. sept. 2014.Í gær dró úr gosvirkni í Holuhrauni. Þá var aðeins miðhluti gossprungunnar virkur og sloknað á gígnum Suðra. Hæstu strókarnir úr gígnum Baugi voru 120 metrar en gígurinn er orðinn 60 metra hár.

Þetta kemur fram á facebook síðu Jarðvísindastofnunar. Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur sem staddur er norðan Dyngjujökuls sagði í samtali við fréttastofu að jarðvísindamenn hafi ekki komist að gosstöðvunum í morgun vegna gasmengunar, en til standi að fara þangað fyrir hádegi. Hann minnir á að áður hafi dregið úr virkni í gígunum en síðan hafi virkni aukist á ný.

Enn skelfur í Bárðarbungu. Klukkan sjö í morgun varð þar skjálfti af stærðinni 4 og í nótt urðu þar þrír skjálftar yfir þremur að stærð.

Veðurstofan bendir á að styrkur brennisteinsdíoxíðs gæti orðið hár á norðanverðum Austfjörðum, á Fljótsdalshéraði og í Mývatnssveit.

Vegna mikillar gasmengunar við gosstöðvarnar verður svæðið lokað í dag fyrir vísindamönnum og fjölmiðlum. Lokunin varir á meðan mengunin er jafn mikil og raun ber vitni.

Hér má sjá Facebook færslu Jarðvísindastofnunar. 

Ljósmynd: Holuhraun 10. sept. 2014, Ljósmynd: Paulo Bessa.

 

Birt:
Sept. 14, 2014
Uppruni:
Rúv
Tilvitnun:
Ragnhildur Thorlacius, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Dró úr gosvirkni í gær - mikil gasmengun á svæðinu“, Náttúran.is: Sept. 14, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/14/dro-ur-gosvirkni-i-gaer/ [Skoðað:July 23, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: