Tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru
Dómnefnd hefur tilnefnt þrjá til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru, þriðjudaginn 16. september næstkomandi.
Tilnefnd til verðlaunanna eru:
Gunnþóra Gunnarsdóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu
Fréttablaðið birti í sumar greinaflokk undir heitinu Útivist og afþreying eftir Gunnþóru Gunnarsdóttur, þar sem sjónum er beint að áhugaverðum náttúruperlum í öllum landshlutum. Framsetning efnisins er aðlaðandi og til þess fallin að kveikja löngun hjá lesandanum til að ferðast um landið og sjá það með eigin augum. Textinn er stuttur, en þó er hvert orð vandlega valið, og fallegar ljósmyndir, kort og textabox gera efnið freistandi til aflestrar. Gunnþóra Gunnarsdóttir er tilnefnd til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 fyrir hnitmiðaða, einfalda og fallega umfjöllun um náttúru Íslands.
Just.In.Iceland
Just.In.Iceland syngur íslenskri náttúru óð með hjálp mismunandi samfélagsmiðla á borð við Facebook, Pinterest, Twitter og Vimeo. Um er að ræða framtak áhugamanna í því augnamiði að kynna sérstöðu Íslands fyrir umheiminum með því að skapa stafrænan vettvang til að birta og deila fagmannlega teknum ljósmyndum af íslenskri náttúru og lífríki. Just.In.Iceland er tilnefnt til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 fyrir að nýta sér Netið og gagnvirkni þess með frábærum árangri enda er ljósmynda- og kvikmyndaefnið á síðum miðilsins mikið bæði að vöxtum og gæðum.
RÚV, hljóðvarp og sjónvarp
Umfjöllun RÚV um almannarétt og gjaldtöku fyrir aðgang að náttúruperlum á liðnu ári hefur verið mikil að vöxtum og alhliða, allt frá stuttum fréttaskotum til ítarlegra og vandaðra skýringa eða umræðu, þar sem öll mikilvægustu sjónarmið málanna hafa komið fram. Verður hvorki gert upp á milli sjónvarps og hljóðvarps í þessu sambandi né einstakra þátta, þótt virðist mega nefna sérstaklega Morgunútvarpið, Spegilinn, Sjónmál og Kastljós, heldur er fjölmiðillinn RÚV tilnefndur til fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins árið 2014 í einu lagi.
Verðlaunagripinn, Jarðarberið,
Í dómnefnd sitja Þór Jónsson formaður, Árni Gunnarsson og Snæfríður Ingadóttir.
Ljósmynd: Jarðarberið, verðlaunagripur Fjölmiðlaverðlaunanna sem úthlutað verður á Degi íslenskrar náttúru þ. 16. sept. nk. Ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.
-
Dagur íslenskrar nattúru
Tengdir viðburðir
Birt:
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru“, Náttúran.is: 11. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/11/tilnefningar-til-fjolmidlaverdlauna-degi-islenskra/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.