Áfangasigur - Markmiði söfnunarátaks til bjargar Háafelli náð
Í byrjun ágúst stóðu vinveittir aðilar geitfjárbýlisins að Háafelli fyrir söfnun á indiego.com (sjá grein) til bjargar býlinu og þar með framtíð geitarstofnsins í landinu.
Stefnt var að því að safna 10 milljónum íslenskra króna og hefur markmiðinu nú verið náð. Ástæða söfnunarinnar er sú að til stóð eða stendur reyndar enn, að setja Háafell á uppboð en með 10 milljónum er von um að hægt verði að semja við bankann um lánafyrirgreiðslu á þeim forstendum að býlið eigi framtíð fyrir sér, viðskiptalega.
Jóhanna er full þakklætis og segir að þetta sé ekki aðeins sigur fyrir heimilisfólkið að Háafelli og geiturnar þeirra heldur skipti þetta miklu fyrir framtíð íslenska geitfjárstofnsins í heild sinni enda er talið að íslenski geitfjárstofninn myndi líða undir lok ef rekstur Háafells myndi leggjast af og geitunum lógað. 400 af 820 núlifandi geitum á Íslandi eru á Háafelli.
Hér sést, eins og svo áður, að samvinna og samhugur getur flutt fjöll.
Náttúran óskar Jóhönnu og fjölskyldu, þar með talið geitunum, til hamingju með áfangasigurinn.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Áfangasigur - Markmiði söfnunarátaks til bjargar Háafelli náð“, Náttúran.is: 8. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/08/afangasigur-markmidi-sofnunarataki-til-bjargar-haa/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.