Illagil að FjallabakiKynning á Hótel Natura, fimmtudaginn 4. september kl. 10:00.

Efnahags-og framfarastofnunin  (OECD – The Organization for Economic Co-operation and Development) kynnir á morgun heildarúttekt á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi yfir tímabilið 2001-2013.  Þetta er í þriðja sinn sem OECD gerir slíka úttekt á umhverfismálum hér á landi.

Í skýrslunni er m.a. farið yfir stöðu og stefnumörkun í málaflokknum, vöxt græna hagkerfisins og sjálfbæra fiskveiðistjórnun auk þess sem sjónum er sérstaklega beint að því álagi sem orkugeirinn og ferðaiðnaðurinn hefur í vaxandi mæli í för með sér og endurspeglast m.a. í aukinni umræðu um þolmörk álagssvæða.

OECD hefur framkvæmt slíkar úttektir á umhverfismálum aðildarríkjanna frá árinu 1992. Ísland og Þýskaland voru fyrstu tvö ríkin sem voru tekin fyrir með þessum hætti, og var gerð grein fyrir þeirri úttekt í skýrslu sem út kom árið 1993. Næsta úttekt á Íslandi af þessu tagi var gefin út í skýrslu OECD árið 2001. Að jafnaði eru 3-4 aðildarríki OECD tekin fyrir ár hvert með þessum hætti, þannig að það tekur rétt rúman áratug að fara hringinn. Vinna við þriðju úttekt á Íslandi, sem nú verður kynnt, hófst í september 2012, og er hluti af svokölluðum  „third cycle of environmental performance reviews“.

Í lok mars 2014 sat sendinefnd Íslands fyrir svörum á fundi vinnunefndar OECD um umhverfismál, þar sem voru mættir fulltrúar aðildarríkjana. Á þeim fundi var komið á framfæri athugasemdum og nánari útskýringum á ýmsum atriðum á þeim skýrsludrögum sem vinnunefndin fékk til umfjöllunar.

Á kynningarfundinum á morgun munu Simon Upton, yfirmaður umhverfissviðs OECD (Environment Directorate) og Brendan Gillespie, forstöðumaður umhverfisúttekta (Environmental Performance and Information Division) afhenda formlega og kynna skýrsluna. Á fundinum verða fulltrúar fjölda stofnana, ráðuneyta, hagsmunasamtaka og náttúruverndarsamtaka og munu fulltrúar OECD svara fyrirspurnum úr sal að lokinni kynningunni.

Fundarstjóri verður Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra í París, sem jafnframt er sendiherra Íslands gagnvart OECD.

Ljósmynd: Illagil að Fjallabaki, ljósm. Árni Tryggvason.


Birt:
3. september 2014
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Þriðja úttekt OECD á stöðu og þróun umhverfismála á Íslandi“, Náttúran.is: 3. september 2014 URL: http://nature.is/d/2014/09/04/thridja-uttekt-oecd-stodu-og-throun-umhverfismala-/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 4. september 2014

Skilaboð: