02:14

Rétt eftir miðnætti hófst gos milli Dyngjujökuls og Öskju, nyrst í Holuhrauni. Um er að ræða 100 metra sprungugos á sprungu í norðaustur - suðvestur átt. Gosið virðist rólegt og þunnfljótandi hraun rennur frá sprungunni. Vísindamenn sem verið hafa við rannsóknir skammt frá gosinu,  fylgjast með því í öruggri fjarlægð. Áætlað er að  TF-SIF flugvél Landhelgisgæslunnar fljúgi yfir gosstöðvarnar um klukkan 09:30 í fyrramálið 29. ágúst. ISAVIA hefur lýst yfir nýju hættusvæði frá jörðu upp í 18000 feta hæð fyrir blindflug (sjá meðfylgjandi mynd). Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð hefur verið fullmönnuð vegna eldgossins og hefur Ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við lögreglustjórann á Húsavík.  

Áframhaldandi gosvirkni ( 06:12 )

Nú er talið að sprungan þar sem eldgosið hófst um miðnætti í Holuhrauni norður af Dyngjujökli sé ríflega 1 km að lengd. Gosið hefur verið rólegt í alla nótt, engin aska sést á radarmælingum og lítil hætta er talin á flóði.

ISAVIA hefur minnkað hættusvæði fyrir flug og lækkað það niður í 5000 feta hæð frá jörðu. Svæðið hefur einnig verið skilgreint sem haftasvæði sem þýðir að flug annarra en vísindaflug með flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, er bannað. Allir áætlunarflugvellir landsins eru opnir.

Lokanir norðan Vatnajökuls eru enn í gildi.Lögregla og hópar frá björgunarsveitum á Norðausturlandi sinna lokunum inn á mögulegt áhrifasvæði gossins. Hópur sem var á hálendisvakt björgunarsveita í Landmannalaugum styrkir lokanir á Gæsavatnaleið. Á fjórða tug björgunarsveitamanna taka þátt í aðgerðum sem stendur.

Áfram verður fylgst með framvindunni 

Birt:
29. ágúst 2014
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Eldgos hafið norðan Vatnajökuls í Holuhrauni“, Náttúran.is: 29. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/29/eldgos-hafid-nordan-vatnajokuls-i-holuhrauni/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: