Prinsessutré á Íslandi
Prinsessutré (Paulownia tomentosa) er fljótvaxnasta tré veraldar en það er upprunnið í mið- og vestur Kína.
Nú hefur Dagur Brynjólfsson í Birkihlíð í Reykholti í Biskupstungum verið að rækta prinsessutré frá því í fyrra og afraksturinn má sjá á meðfylgjandi myndum sem teknar voru af stærsta prinsessutrénu í gróðurhúsi Dags í dag en prinsessutré vaxa að jafnaði 3-5 metra á ári.
Prinsessutré verða 10-25 metra há og hafa gríðarstór gagnstæð hjartalöguð laufblöð (15-40 sm. í þvermál). Ung tré geta haft þrístæð laufblöð og tiltölulega stærri en á eldri trjám.
Prinsessutréð blómgast snemma á vorin, áður en að tréð laufgast. Ávöxturinn er þurr og egglaga 3-4 sm. langur og inniheldur fjölda fræja. Þegar fræin eru þroskuð fljúga þau á vængjum sínum af trénu með aðstoð vatns og vinda.
Prinsessutré lifa skógarelda af því að ræturnar geta endurnýjað sig á ógnarhraða. Prinsessutré stendur vel af sér mengun og er ekki kröfuhart á gæði jarðvegs. Viðurinn af prinsessutrénu er sveigjanlegur harðviður og því hentugur sem ýmis konar byggingarefni.
Af þessum ástæðum telur prinsessutré til forystuplantna og vistræktarstjörnu. Niturrík laufblöðin næra jarðveginn og sterkar ræturnar forða jarðvegseyðingu.
Það eina sem að prinsessutréð þolir ekki er að standa í skugga annarra trjáa.
Sjá meira um prinsessutré á Wikipedíu.
Ljósmyndir: Prinsessutré í Birkihlíð, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Prinsessutré á Íslandi“, Náttúran.is: 23. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/23/prinsessutre/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 25. ágúst 2014