Í upphafi leiksins þarf að finna 6-10 hluti úr náttúrunni, s.s. stein, strá, grein, lauf.

Þessir hlutir eru uppistaðan í bingóinu og hver og einn þátttakandi þarf að búa til sitt eigin bingóspjald út frá þeim.

Það gerir hann með því að finna 3-5 hluti af þeim 6-10 sem hafa verið valdir. Ath. enginn hlutanna, hvorki í pottinum eða á bingóspjaldi hvers og eins, mega vera tveir eins.

Einn er bingóstjórinn og aðrir setjast í hring umhverfis hann og snúa bakinu inn í hringinn.

Hver og einn hefur sitt bingóspjald fyrir framan sig (þ.e. þá 3-5 hluti sem hver og einn hefur valið sér) en bingóstjórinn hefur allan pottinn hjá sér (þá 6-10 hluti sem mynda pottinn).

Bingóstjórinn velur einn hlut í senn úr pottinum, hann segir heiti hans hátt og snjallt og hver og einn hinna aðgætir hvort slíkur hlutur sé á bingóspjaldinu hjá þér. Ef svo er er hluturinn lagður til hliðar, þ.e. tekinn af bingóspjaldinu.

Þegar bingóstjórinn nefnir svo síðasta hlutinn á bingóspjaldi einhvers hrópar viðkomandi „bingó"! Sá getur tekið við keflinu sem bingóstjóri í næstu umferð.

Náttúrubingóið er vel til þess fallið að festa í minni þátttakenda ný tegundaheiti, áferð ýmissa náttúrufyrirbæra eða heiti annars sem hefur verið uppgötvað í fyrsta sinni.

Birt:
22. ágúst 2014
Höfundur:
Helena Óladóttir
Tilvitnun:
Helena Óladóttir „Náttúrubingó 2“, Náttúran.is: 22. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/22/natturubingo-2/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: