Lögreglustjórarnir á Húsavík og Seyðisfirði hafa ákveðið að loka og rýma hálendið norðan Dyngjujökuls vegna jarðhræringanna í kring um Bárðarbungu undanfarna daga.

Um er að ræða öryggisráðstöfun þar sem ekki er hægt að útiloka að jarðskjálftavirknin undir Bárðarbungu geti leitt til eldgoss með stuttum fyrirvara. Rétt er þó að taka fram að enn eru engin merki um gos – reynslan úr fyrri jarðhræringum sýnir að þær geta staðið lengi yfir áður og ef kemur til goss. Viðbúnaðurinn nú er fyrst og fremst til að vera við slíku gosi búinn þar sem lögreglan á Húsavík og Seyðisfirði telur að óframkvæmanlegt sé að rýma svæðið með stuttum fyrirvara, gerist þess þörf.

Hefur lögreglan á Húsavík og Seyðisfirði nú þegar lokað leiðum inn á svæðið og vinnur að því að ná til þeirra ferðamanna sem eru á hálendinu norðan Dyngjujökuls í því skyni að þeir yfirgefi svæðið.

Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjórana á Húsavík og Seyðisfirði og í samræmi við mat vísindamanna ákveðið að lýsa yfir hættustigi almannavarna á svæðinu norðan Dyngjujöku

Hættustig almannavarna er lýst yfir; “Ef hættumat leiðir í ljós að hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa/dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustunnar á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

Birt:
19. ágúst 2014
Tilvitnun:
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra „Lokanir á svæðum norðan Dyngjujökuls“, Náttúran.is: 19. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/19/lokanir-svaedum-nordan-dyngjujokuls/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: