Uppskera – Vallhumall

Vallhumall er ein magnaðasta græðijurt sem vex á Íslandi og nú er ágætur tími til að uppskera hann.
Vallhumall er mikið notaður í smyrsl t.d. á sár, skrámur og brunasár og í lyf gegn ofvirkjum skjaldkyrtli svo fátt eitt sé nefnt.
Í Flóru Íslands segir svo um vallhumalinn:
Vallhumall er algengur við byggð ból í kringum allt landið. Vallhumallinn hefur venjulega hvítar körfur, en oft eru þær nokkuð bleiklitar, sjaldnar nær rauðar. Í sumum landshlutum er vallhumallinn einkum í kringum bæi, og kemur því að nokkru leyti fram sem slæðingur sem gæti hafa borizt af manna völdum. Annars staðar, einkum á Norður- og Norðausturlandi er hann mjög rótgróinn í villtu landi og vex þar bæði upp til fjalla og inn á hálendið, á nokkrum stöðum upp fyrir 700 m hæð. Hann er til dæmis mjög algengur víða um Ódáðahraun og hálendið þar í kring. Hæstu fundarstaðir vallhumals eru í 900 m hæð sunnan í Skessuhrygg austan Höfðahverfis við Eyjafjörð, og í 850 m hæð í Syðri-Hágangi við Vopnafjörð.
Nokkur blóm vallhumals standa saman í örsmáum (4-5 mm) körfum, sem í fljótu bragði líta út sem einstök blóm (sjá neðstu mynd). Körfurnar skipa sér síðan margar saman í þétta hálfsveipkennda blómskipan. Tungukróna jaðarblómanna eru hvít eða bleik, sjaldnar rauð, hjartalaga. Hvirfilblómin eru pípukrýnd, hvít-grágul. Reifablöðin eru græn með dökkbrúnum himnufaldi, langhærð. Stöngullinn er loðinn, með stakstæðum, 7-15 mm breiðum og 3-8 sm löngum, tvífjöðruðum, loðnum blöðum. Smáblöðin eru djúpskert með striklaga, oddmjóum flipum.
Sjá útbreiðslu á floraislands.is.
Ljósmynd: Vallhumall lagður til þurrkunar, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Uppskera – Vallhumall“, Náttúran.is: 5. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/05/uppskera-vallhumall/ [Skoðað:29. mars 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.