Fjörukál (Cakile maritime)Hásumarið er tilvalið til að safna jurtum og laumast í snemmuppskeruna. Á dögunum fórum við fjölskyldan í gönguferð sem reyndist vera skemmtileg fæðuöflun. Í fjörunni fórum við, enn sem oftar, að narta í plöntur. Ég hafði með mér Íslensku plöntuhandbókina og fór að týna fjörufang til að fræðast.

Ég fann ýmislegt. Hér er t.a.m. ein af lystisemdum úr matarkistu íslenskrar náttúru, matur sem finnst í fjöru og er fullkomlega sjálfbær.

„Fjörukál (lat. Cakile maritime) er einær jurt sem sáir sér út á hverju ári og getur því flust nokkuð til meðfram ströndinni frá ári til árs. Það vex í sótrum breiðum víð á Suður- og Vesturlandi, en er fágætara norðanlands,“ samkvæmt upplýsingum úr Íslensku plöntuhandbókinni. Það er vel ætilegt og með meira kálbragði en nokkur önnur íslensk villijurt, segir þar jafnframt.

Ég sannreyndi þarna í fjöruferð fjölskyldunnar. Blöðin, sem eru ekki ólík rucola í útliti. Það bragðast eins og safaríkt kál. Það er alveg laust við lýsisbragðið, sem einkennir annars ætiplöntur í fjörunni. Á stönglinum vaxa separ, bragðið minnti mig helst á cajun sinnep, fyrir þá sem hafa smekk fyrir slíku.

Ef þú sérð fjörukál þá er líklegt að þú rekist á annað fjörugómsæti í nálægð: Fjöruarfi (lat. Honckenya peploides) er afskaplega falleg ásýndum, mynstrið minnir á endurtekninguna og blöðin eru þykk og safarík. Plantan hefur verið notuð til manneldis. Fjöruarfi er harla ólíkur fjörukálinu að bragði, hann ber sterkan keim af sjónum og lýsi. Hann er sagður allra meina bót, í hóflegu magni.

Þá er hvönnin í girnilegu ástandi þessa dagana. Þó hún sé í fullum þroska, svo að segja, má enn finna ung hágræn blöð sem hægt er að safna og þurrka. Þá eru hvannarfræ nýtt uppáhald hjá syninum eftir að hann fékk að bragða þau við tínsluna. Fræin eru stökk og sterk og frískandi. Tilvalið er að týna þau og strá þeim með í fiskréttinn, eða á salatið.

Semsagt; uppskera göngutúrsins var; fjörukál, fjöruarfi, hvannarblöð og hvannarfræ. Það, að viðbættum stórum blöðum af heimaræktuðu spínati, gerði líka þetta einstaklega gómsæta salat með fiskrétti kvöldsins.

 

Birt:
1. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Fjörusalat“, Náttúran.is: 1. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/01/fjorusalat/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 2. ágúst 2014

Skilaboð: