Efni: Tannstönglar eða eldspýtur í 5-6 litum, 15-20 í hverjum lit, jafnmargir í hverjum. Litirnir þurfa að vera bæði þeir sem eru áberandi í umhverfi og sem falla inn í það. Þægilegast er að mála stönglana með því að láta þá liggja í útþynntri málningu eða í matarlit.

Framkvæmd: Farið út. Allir standa í hóp. Lituðu tannstönglarnir sýndir og bent á hvað þeir eru margir, í hvaða litum og að það séu jafnmargir af hverjum lit.

Talið upp að þremur. Tannstönglunum hent upp í loftið. Krakkarnir fá nokkrar sekúndur til að safna þeim af jörðinni. Þegar merki er gefið verða allir að hætta að tína.

Nú eru stönglarnir flokkaðir eftir lit. Hvað fundust margir af hverjum lit? Hvers vegna fundust svo fáir af sumum litum? – Þeir sem féllu inn í umhverfið.  Af sumum litum fundust næstum allir stönglarnir – hvers vegna?

Velt vöngum yfir litum í umhverfi og náttúru. Sumir vilja vera áberandi aðrir ekki – hvað gerir fólk til þess?

Sum dýr mega vera áberandi. Stærsti fugl á Íslandi, svanurinn, getur alveg verið áberandi. Hann þarf ekkert að fela sig. Hann á enga óvini og hann þarf ekki að læðast að bráð af því að hann er plöntuæta.

Önnur dýr þurfa að falla inn í umhverfið af því að ef svo væri ekki væru þau í mikilli hættu að vera étin eða þau væru svo áberandi að þau ættu erfitt með að veiða sér til matar.

Sum blóm „vilja“ vera áberandi svo að flugurnar sjái þau – gul, fjólublá. Aðrar plöntur vindfrjóvgast og hafa lítið með flugur að gera, þær þurfa ekki að vera áberandi – svo er t.d. um grös og flest tré hérlendis.

Birt:
1. ágúst 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Hvaða litir sjást?“, Náttúran.is: 1. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/01/hvada-litir-sjast/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: