Rigningin og litir regnbogans - að finna liti
Saga og leikur
Efni: Pappírsbútar í 5-6 litum límdir á spjöld og plastað yfir. Spjöldin jafnmörg og krakkarnir.
Staður og tími: Verkefni til að gera á mismunandi stöðum á mismunandi tímum.
Framkvæmd: Í fyrsta skipti sem farið er í þetta verkefni má tvinna inn í það ævintýri og segja og leika söguna um Liti regnbogans: Þegar komið er út á heppilegan stað er sagan sögð:
„Einu sinni dreymdi mig (lögð áhersla á að þetta sé draumur) að ég væri að ganga eftir þessum stíg. Það var sólskin, ... nánari lýsing. En svo allt í einu dimmdi, það dró ský fyrir sólu. Svo heyrði ég lágan þyt, það fór að rigna og rigndi meira og meira, það hellirigndi:
Rigningin er leikin á eftirfarandi hátt: Allir nudda saman lófunum um stund (þyturinn), síðan er smellt fingrum, svo klappað, síðan slegið á lær ... = hellirigning
Rigningin hætti smám saman
... og síðan aftur það sama til baka, klappað, smellt fingrum, lófum nuddað saman.
Svo skein sólin aftur. Þá ég svo fallegan regnboga – hvernig er regnboginn á litinn? En hvað haldið þið. Það kom fugl og flaug á regnbogann og regnboginn brotnaði í ótal smástykki sem dreifðust út um allt. Í draumnum varð ég bæði reið og hrygg og fór að leita út um allt að brotum regnbogans og límdi þau á blöð. Ég var svo fegin þegar ég vaknaði og vissi að þetta væri draumur og ekki væri búið að brjóta regnbogann. En gæti verið að enn mætti finna brot úr regnboganum hér?“
Krakkarnir fá hver sitt spjald og leita að sömu litum í umhverfinu og eru á spjöldunum þeirra. Skemmtilegast er að vera með fjölbreytta liti og vera nákvæmur með að finna liti sem allra líkasta.
Í úrvinnslu má merkja spjöldin og skrá hvaða litir finnast á hvaða spjaldi á hverjum tíma. Þannig er auðvelt að fylgjast með breytingum á litum í umhverfinu eftir árstíðum.
Birt:
Tilvitnun:
Sigrún Helgadóttir „Rigningin og litir regnbogans - að finna liti“, Náttúran.is: 1. ágúst 2014 URL: http://nature.is/d/2014/08/01/rigningin-og-litir-regnbogans-ad-finna-liti/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.