Dr. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingurDr. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur furðar sig á að reisa skuli verksmiðju á Grundartanga sem framleiða eigi kísil í sólarsellur. Haraldur birti grein á bloggsíðu sinni þ. 18. júlí sl. þar sem hann fer m.a. ofan í saumana á því hve vökvinn tetraklóríð sem notaður er til að hreins sílíkonið er mengandi. Í framhaldinu hafi forsvarsmenn Silicor, fyrirtækisins sem reisa mun verksmiðjuna sett sig í samband við Harald og reynt að segja honum að aðferðirnar sem þeir munu nota sé minna mengandi. Haraldur gefur lítið fyrir það enda fékk hann engin gögn í hendur þess til sönnunar. Skipulagsstofnun þótti aftur á móti ekki nauðsynlegt að gera umhverfismat á framkvæmdinni þar sem hreinsun kísilmálms til framleiðslu á sólarkísil sé ekki líkleg til að hafa í för með sé umtalsverð umhverfisáhirf.

Haraldur segir að Silicor vilji svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku.

Í grein sinni segir Haraldur m.a.:

Sólarsellur eru að sjálfsögðu ágæt aðferð til að beisla endurnýjanlega orku, en það fylgir mikill böggull skammrifi. Framleiðsla á sólarsellum og efninu polysilicon er mjög sóðalegt og mengandi verk og fylgir því mikil losun af eiturefninu sílikon tetraklóríð  -  SiCl4. Það er talið að við framleiðslu af einu tonni af polysílikon verði til úrgangur sem er fjögur tonn af sílikon tetraklóríð. En það eru fleiri hliðar á þessu máli, sem nauðsynlegt er að athuga náið. Þar á meðal er saga og ferill fyrirtækisins Silicor. Það þarf gífurlega raforku til að framleiða sólarsellur. Kísilsandur  er innfluttur og  bræddur við mjög háan hita, allt að 2000 oC og við það er reynt að losna við mest af súrefninu sem er bundið í sandinn, en eftir er tiltölulega hreint sílikon.  Slíkar versmiðjur eru því reistar þar sem ódýr orka er fyrir hendi – eins og væntanlega á Íslandi.

Síðan er vökvinn sílikon tetraklóríð notað í miklu magni til að gera sílikon enn hreinna. Framleiðsla á polysílikon er talin svo mengandi að Bandaríkin vilja helst ekki leyfa slíkan iðnað þar í landi og hafa hingað til látið Kínverja um sóðaskapinn heima hjá sér. Nú er röðin komin að Íslandi. Silicor vill svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku. Hvar ætla þeir að loasa sig við allt þetta magn af eiturefninu sílikon tetraklóríð?  Hvað um klór gasið sem berst út í andrúmsloftið? Er ef til vill búið að afskrifa Hvalfjörð og Akranes, og dæma þetta svæði sem iðnaðarhverfi, þar sem mengun er leyfileg? 

Silicor hét áður Calisolar og breytti um nafn til að fela sinn fyrri feril í viðskiptaheiminum vestra. Calisolar rak um tíma verksmiðju í Toronto, Kanada. Það fóru ljótar sögur af þeim rekstri, eins og sagt er frá í dagblaðinu Columbus Dispatch. Fyrirtækið var í Kaliforníu en reyndi svo fyrir sér fyrst í Ohio fylki og síðar í Mississippi og leitaði þar fyrir sér með lán til að reisa verksmiðju. Þeir urðu að hverfa frá Mississippi vegna þess að fyrirtækið gat ekki einu sinni lagt fram $150,000 sem stofnfé. Nú er forstjórum Silicor fagnað af fyrirmönnum Faxaflóahafna og þeir í Silicor ræða við Arion banka um lán til að reisa verksmiðju hér. Hvað viljum við leggjast lágt til að fá iðnað inn í landið?

 

Birt:
24. júlí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Haraldur Sigurðsson „Silicor vill svína landið okkar út og kaupa hér ódýra orku“, Náttúran.is: 24. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/24/silicor-vill-svina-landid-okkar-ut-og-kaupa-her-od/ [Skoðað:16. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. júlí 2014

Skilaboð: