Gróður-sundlaug á bökkum Varmár
Þar sem ég hef þurft að ferðast nokkra kílómetra til að komast í „eldhúsgarðinn“ minn á sl. árum, þar sem ekkert pláss er í garðinum mínum og trjárgróðurinn þar svo þéttur og hár að varla birtir til á björtustu sumardögum, ákvað ég í vor að rækta ekki langt frá heimilinu.
Ástæðan er sparnaður, það kostar mikinn pening að keyra bíl í dag og kolefnislosunin af völdum akstursins er líka slæm. Auk þess spara ég minn eigin tíma sem annars fóru í ferðalög.
Bjartasti staðurinn í garðinum er alveg niður við ánna Varmá en þar stendur enn gömul hrörleg sundlaug sem byggð hefur verið fyrir rúmlega hálfri öld síðan. Í hana rennur vatn úr Varmá þegar mest er í ánni og úr henni aftur þegar yfirborð árinna lækkar aftur. Í áranna rás hefur safnast fyrir mikið magn af laufblöðum og einnig eldfjallaösku frá síðustu gosum og myndað þennan líka ágæta rotmassa sem er víst svo góður sem áburður í ræktunarbeð.
Þetta gums notaði ég sem undirlag í trékassa sem ég setti ofan í sundlaugina og ofan á þá setti ég moltu og mold auk hænsnaskíts sem kemur beint úr rassi landnámshænsnanna hér á heimilinu. Þetta ætti því að vera hinn besti grunnur fyrir gjöfula uppskeru, eða það vona ég allavega. Reyndar var flutningur moltu og moldar ekki án erfiðis en það er auðvitað ekkert alveg án fyrirhafnar í þessu lífi.
Auk venjulegra beðja með ýmsu káli, rótargrænmeti og salati setti ég tómatplöntur, þrjú síberíuafbrigði og nokkrar kirsuberjatómatjurtir auk succiniplöntu (neita að nota íslenska heitið) og henti yfir þær akríldúk á bogin rafmagnsrör, án mikillar fyrirhafnar. Nú hefur þetta dafnað ágætlega til þessa en auðvitað má sólin alveg fara að sjá sig oftar svo fæðist þessum yndum líka afkvæmi.
Að gera hlutina á hagkvæman og einfaldan hátt er í takt við hugmyndafræði vistræktar og visthönnunar. Með því að kynna sér lögmálin, viðmiðin og gildin síjast þau inn í undirmeðvitundina og fara að virka í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Gróður-sundlaug á bökkum Varmár“, Náttúran.is: 5. júlí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/05/grodur-sundlaug-bokkum-varmar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.