Náttúran.is er upplýsingaveita og fréttamiðill fyrir allt sem tengist náttúru og umhverfi á einhvern hátt.

Náttúran.is er sjálfstætt starfandi vefsetur með aðaláherslu á að þjóna hinum almenna neytanda með áreiðanlegum upplýsingum um allt sem snertir umhverfi okkar og heilsu. Í raun er hér allt undir, nærumhverfi okkar og náttúran sjálf sem og heimilið, neyslan og fyrirtækin sem upplýstir borgarar vilja fá til aðstoðar við að skapa sjálfbæra framtíð.

Markmiðið er að gera neytendum umhverfisvænar lausnir sýnilegri og aðgengilegri með því að tengja á milli vistvænnar aðferðafræði á öllum sviðum og raunverulegs vöru- og þjónustuframboðs í landinu. Til að ná markmiðum sínum þróar Náttúran stöðugt nýja þjónustuliði.

Jafnt fyrirtækjum sem félagasamtökum, stofnunum og almenningi er boðið að nýta sér þennan óháða vettvang til að koma upplýsingum á framfæri og eiga skoðanaskipti.

Náttúran.is á að vera náttúrutenging nútímamannsins og „umhverfislögga“ í jákvæðum skilningi.

Hugmyndin að Náttúrunni.is fæddist sumarið 2002 og hefur verið í þróun æ síðan. Frumkvöðull verkefnisins er Guðrún Arndís Tryggvadóttir myndlistarmaður (sjá ferilskrá). Hugmyndin byggir á því að nota veraldarvefinn sem tæki til að skapa sjálfbært samfélag.

Náttúran hefur gengið í gegnum langt ferli og hefur mótast í samvinnu við fjölda aðila þann tíma sem vefurinn hefur verið í þróun. Haustið 2005 var frumgerð Náttúrunnar, sem nefndist Grasagudda.is, sett í loftið. Á Grasaguddu var leitast við að tengja saman upplýsingar um umhverfismál hvaðanæva að og flytja fréttir. Grasagudda.is sameinaðist síðan Náttúrunni.is þann 25. apríl 2007.

Merki KuðungsinsNáttúran.is fagnaði 5 ára afmæli sínu þ. 25. apríl 2012 en þann sama dag fékk Náttúran.is virtustu umhverfisverðlaun landsins Kuðunginn umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir „framúrskarandi vefsíðu um umhverfismál, og jákvæð áhrif þess á almenning og fyrirtæki“. Í rökstuðningi valnefndar segir ennfremur að „stofnendur og eigendur hennar séu brautryðjendur á þessum vettvangi knúin áfram af áhuga og umhyggju fyrir náttúrunni og umhverfinu.“

„Vefsíðan hefur innleitt nýja hugsun í umhverfisvitund Íslendinga. Þar eru á einum stað aðgengilegar leiðbeiningar sem auðvelda fólki að taka upp sjálfbæran og umhverfisvænni lífsstíl.

Vefurinn gengir mikilvægu hlutverki í upplýsingamiðlun og menntun almennings og fyrirtækja. Þar er hægt að fá upplýsingar um umhverfismál heimilisins, um orkusparnað, vistvæn innkaup, betri nýtingu matvæla, sorpflokkun, um hvernig skuli flokka hluti og hvar sé hægt að skila hverjum hlut, þar er að finna skilgreiningar á hverjum flokki fyrir sig, sem oft vefst fyrir fólki. Einnig geymir vefurinn fróðleik um  hvernig hægt sé að forðast hættuleg efni við innkaup á vörum, þar er yfirlit yfir aukaefni í matvörum og skilgreiningar á umhverfismerkingum.“

Náttúran.is fékk umhverfisverðlaun Ölfuss 2015 og hefur verið tilnefnd til Náttúru- og umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2015.

Birt:
1. desember 2015
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Markmið og saga Náttúrunnar“, Náttúran.is: 1. desember 2015 URL: http://nature.is/d/2014/07/02/markmid-og-saga-natturunnar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. júlí 2014
breytt: 1. desember 2015

Skilaboð: