Rán Reynisdóttir mundar skærin.Hárstofan Feima hefur um nokkurra ára skeið unnið skv. stöðlum Grøn Salon en Rán Reynisdóttir eigandi Feimu upplifði á eigin skinni hve efnanotkun í faginu getur haft heilsuspillandi áhrif en hún var við það að hrökklast úr starfi vegna eitrunaráhrifa. 

Til þess að geta unnið áfram í fagi sínu sem hársnyrtir leitaði Rán sér upplýsinga erlendis frá sem leiddi hana að lokum að hugmyndafræði og starfsaðferðum Grøn Salon þar sem verndun umhverfis og heilsu er megininntakið.

Grøn Salon sem er viðurkennt vottunarkerfi fyrir hársnyrtistofur í Danmörku og slíka vottun vill Rán fá innleidda hér á landi. Grænar hárnsyrtistofur sem vinna eftir vottunarkerfi Grøn Salon snúast um vinnuvernd, orkusparnað og umhverfisvernd. Á Grænum stofum er listi efna sem bannað er að nota, þessi efni eru annars í flestum hársnyrti og hárlitunarefnum sem leyft er að nota. Á Grænu stofunum er víst að heilbrigði, ofnæmi, vinnuumhverfi og umhverfismál eru tekin alvarlega.

Rán hefur leitað ýmissa leiða til að fá Grøn Salon vottun viðurkennda hérlendis og fá ábyrgan vottunaraðila til að taka að sér úttektir og vottun en það hefur ekki tekist hingað til. Rán leitaði til Landverndar og síðan Umhverfisstofnunar og mætti þar velvilja „en þetta virðist á flestum stöðum vera of lítið og afmarkað verkefni til að eitthvað opinbert dæmi geti komið eitthvað að þessu“ segir Rán. Að sögn Ránar eru þó blikur á lofti og er hún vongóðu um að hafa vakið nægan áhuga hjá ábyrgum vottunaraðila.

Helsti þrándur í götu er smæðin, aðeins ein stofa, Feima, hefur enn sýnt áhuga en eins og allir brautryðjendur er Rán sannfærð um að bæði neytendur og ekki síst fagfólk á hársnyrtistofum muni brátt sjá kosti þess að hætta að meðhöndla eiturefni og vinna þannig bæði á heilbrigðari og umhverfisvænni hátt. Þetta er ekkert lítið baráttumál því samkvæmt rannsóknum innan Evrópusambandsins eru hársnyrtar í mestri hættu gagnvart atvinnutengdum húðsjúkdómum. 

Síðan má leiða hugann að því hvað neytendur, sem eru í raun „við öll“ allir þessir kollar sem þarf að klippa og lita hvort eð er einu sinni í mánuði eða nokkrum sinnum á ári, getum áorkað með því að krefjast þess að fá ekki eiturgusurnar yfir okkur með ófyrirsjáanlegum afleiðingum við hverja heimsókn á hársnyrtistofu. Reyndar eru eitrunaráhrifin alls ekki svo ófyrirsjáanleg sbr. grein Ránar „Verndum fagfólk, viðskiptavini og náttúru“ í Klipp Fréttabréfi Félags Hársnyrtisveina. Sjá grein.

Merki Grøn SalonHér eru nokkrir punktar um Grænar stofur:

  • Við sleppum því að skola út skaðlegum efnum fyrir vatnsumhverfið.
  • Færri veikindadagara starfsfólks vegna betra vinnuumhverfis
  • Minnkum verulega líkur á ofnæmi, exemi og öndunarfærasjúkdómum
  • 40% þeirra sem hætta í faginu hætta vegna ofangreindra kvilla sem rekja má beint til efnanna sem notuð eru á hársnyrtistofum
  • Sparnaður á rafmagni og vatni
  • Flokkum rusl, endurvinnum og endurnýtum
  • Eingöngu er boðið upp á lífrænt vottaðar veitingar
  • Öll ræstiefni eru umhverfisvottuð
  • Græn innkaupastefna, þ.e.a.s. kaupum sjaldan inn og þá meira í einu svo ekki þurfi að koma vikulega keyrandi með vörur. Ef við getum gengið eða hjólað til að kaupa inn það sem vantar er það gert.
  • Alltaf er hægt að bæta sig. Þess vegna velja grænu stofurnar nokkur verkefni á ári til að bæta sig, t.d. í samgöngumálum, orkusparnaði, góðgerðarmálum o.s.frv.

Ófrávíkjanlegar kröfur/viðmið Grænna hárgreiðslustofa eru:

  1. Stjórnandi, sem ber ábyrgð á daglegum rekstri stofunnar, hefur þekkingu á efnafræði og heilbrigðisfræði gagnvart þeim vörum sem notaðar eru á stofunni. Stjórnandi hefur tekið þátt í námskeiðinu „ Græn hárgreiðslustofa“ um efnafræði, vinnuumhverfi og heilbrigði á hárgreiðslustofum.
  2. Stjórnandi/eigandi hárgreiðslustofunnar og starfsmenn hafa lokið viðurkenndu námi í faginu. Nemar eru í viðurkenndu námi.
  3. Engin skaðleg efni eru á stofunni sem eru á bannlista „Grænnar hárgreiðslustofu“. Nemar hafa ekki heimild til að nota efni af bannlistanum á stofunni. Vörur sem hárgreiðslustofan býður til sölu, andlitsfarði (make-up), efni til litunar á augabrúnum eða augnhárum (maskari) mega ekki vera á bannlista „Grænnar hárgreiðslustofu“. Vörur sem eru á bannlista „Grænnar hárgreiðslustofu“, verður að selja eða fjarlægja með öðru hætti áður hægt er að votta stofuna sem Græna hárgreiðslustofu.
  4. Starfsmenn stofunnar eru sérstaklega vakandi gagnvart ofnæmi eða viðkvæmni. Áður en þjónusta hefst eru viðskiptavinir stofunnar spurðir hvort þeir hafi ofnæmi eða eru viðkvæmir fyrir ákveðnum efnum. Ef ofnæmisviðbrögð koma fram skal hvetja viðskiptavin til að leita læknis.
  5. Aflitun á hári má ekki snerta hársvörðinn
  6. Hreingerning skal framkvæmd með umhverfismerktum efnum
  7. Ef boðið er upp á veitingar á stofunni skulu það vera vistvænar vörur
  8. Stjórnandi/eigandi skal leiðbeina starfsfólki stofunnar um þýðingu þess að vera „Græn hárgreiðslustofa“.Starfsmenn skulu þekkja bæklinginn „Græn Hárgreiðslustofa“

Sjá nánar hér í grein sem Rán Reynisdóttir hársnyrtir, eigandi Feimu og í stjórn Félags hársnyrtisveina. Greinin birtist í nýjasta tölublaði Klipp Fréttabréfi Félags Hársnyrtisveina.

Birt:
July 2, 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Er krafan um „grænar“ hársnyrtistofur ekki á ábyrgð okkar neytenda?“, Náttúran.is: July 2, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/07/02/er-krafan-um-graenar-harsnyrtistofur-ekki-abyrgd-o/ [Skoðað:Dec. 11, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: July 3, 2014

Messages: