Skjaldflétta (Tropaeolum majus) er planta af samnefndri ætt. Hún er bæði falleg og ljúffeng og því tilvalin planta í vistræktargarðinn.

Skjaldflétta er lífleg skriðjurt með blöðum sem minna á útþemdar regnhlífar, eða skildi (en þaðan er heitið dregið), sem sitja á löngum stilkum sem blakta í golu. Þetta er falleg planta sem bera blómstrandi rauð blómum með sætan angan.

Plantan kom til tals á vinnustofu í vistrækt fyrr í vor. Ég hafði séð þessa skemmtilegu plöntu en aldrei gefið henni sérstakan gaum. Einhver lagði hana til sem vænlegan kost til að þekja áður ónýttan hluta af grindverki. Þannig myndi lóðrétt sólríkt og skjólgott svæði nýtast og lífga um leið upp á lóðarsýnina.

Á ferð minni um uppsveitir á Hvítasunnu rakst ég margoft á skjaldfléttur í pottum og á garðyrkjustöðvum, til sýnis og sölu.

Skjaldflétta skríður og klifrar og þarf rúmt pláss, og lifir einnig góðu lífi í potti, og er vinsæl hengiplanta. Hún þarf skjól og sól.

Hún getur þó þjónað sem þekjugróður og tilheyrir því skemmtilegum parti í lagskiptingu jurtaríkisins, skv. viðmiðum vistræktar, því þær vinna vel með hærri plöntum, og trján. Ég hef séð hana undir ávaxtatrjám í köldu gróðurhúsi og virðist samlíf þeirra vera þeim báðum til framdráttar.

Hún gleður bragðlauka því allir hlutar plöntunar eru ætir. Blöðin eru bragðsterk, og kannski ekki allra, en óvænt og kröftug viðbót við gott salat. Blómin eru aftur á móti ljúf og sæt.

Ljósmynd: Skjaldflétta, ljósm. Guðrún Hulda Pálsdóttir.

Birt:
21. júní 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Hulda Pálsdóttir „Skjaldflétta – falleg og bragðgóð“, Náttúran.is: 21. júní 2014 URL: http://nature.is/d/2014/06/21/skjaldfletta-falleg-og-bragdgod/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: