Seljagarður eignast fyrsta skýlið og gróðurkassa
Vaskur hópur Seljagarðs-borgarbýlinga tók þátt flutningi skýlis, gróðurkassa og annars efnis sem Endurvinnslan hf. lét af hendi rakna til félagsins Miðgarðs - borgarbýlis sem hreiðrað hefur um sig á fyrrum skólagarðasvæði við Jaðarsel í Breiðholti.
Miðgarður - borgarbýli er fyrir alla sem hafa áhuga á að færa matvælaframleiðslu nær fólkinu og fyrir þá sem hafa áhuga á borgarbúskap. Allir áhugasamir eru hvattir til að vera með í þessu skemmtilega verkefni.
Ef þú átt eitthvað til að rækta, rabarbara rifsber, hvönn eða bara allt sem ber ávöxt þá væri það æðislegt ef þið mynduð geta lagt það í púkkið. Þetta á að vera staður fyrir alla fjölskylduna. Draumurinn er að hafa eplatré, jarðaberjaplöntur, perutré, gróðurhús með döðlum, vínberjum og náttúrulega tómata og gúrkur.
Hópurinn heldur úti vefsíðu og nokkrum hópum á Facebook þar sem gott er að fylgjast með og sjá hvenær hist er til að vinna hin ýmsu verk og eiga góðar stundir.
Það fallega við þetta verkefni er hvað samstaðan og áhuginn er mikill. Það sannaðist í dag að „margar hendur vinna létt verk“ en þrátt fyrir gríðarþungar grindur og búr sem flytja þurfti virkaði þetta allt fislétt. Hæfilegt kæruleysi með dash af skynsemi gerði allar ákvarðanatökur snöggar og lýræðislegar og ekki síst skemmtilegar.
En það eru ekki einungis Breiðhyltingar sem að fá að njóta Borgarbýlisverkefnisins í sumar því það er að fara af stað annað tilraunaverkefni sem verður staðsett í Laugardalnum, Laugargarður. En meira um það síðar.
Facebooksíða Miðgarðar - borgarbýlis.
Facebooksíðan Rót-tæklingar í Seljagarði.
Sáningarhátíð var í síðustu viku og Sáningareftirpartí er á morgun kl. 13.
Ljósmyndir: Sú efri; grind fyrir gróðurskýli borin á áfangastað, sú neðri; dreggjarnar af hópnum í lok vinnutarnarinnar. Ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Seljagarður eignast fyrsta skýlið og gróðurkassa“, Náttúran.is: June 7, 2014 URL: http://nature.is/d/2014/06/07/seljagardur-eignast-fyrsta-skylid-og-grodurkassa/ [Skoðað:Dec. 9, 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: Jan. 27, 2016