Garðyrkjustöðin Akur er ekki lengur með lífræna vottun
Frá byrjun lífrænnar ræktunar á Íslandi hefur svepparotmassi þjónað sem einn öflugasti áburðargjafinn í ylrækt en svepparotmassinn fellur til sem aukaafurð úr sveppaframleiðslu Flúðasveppa.
Árið 2007 fengu Vottunarstofan Tún og Sölufélag garðyrkjumanna breska sérfræðinginn Dr. Roger Hitchings til að meta kosti og galla lífrænnar ylræktar og möguleika á aukningu hennar hér á landi. Dr. Hitchings taldi m.a. að jarðvegssuða væri ofnotuð í ylrækt, sem bæri aðeins að leyfa í undantekningar tilvikum vegna neikvæðra áhrifa á lífríki jarðvegsins. Hann taldi þörf á að efla skiptiræktun og þá væri sömuleiðis nauðsynlegt að hætta notkun svepparotmassa sem byggði á hráefnum úr verksmiðjubúskap, sem ekki stæðist alþjóðlega staðla um lífræna ræktun.
Í framhaldi af þessum athugasemdum Dr. Hitchings vann starfshópur Vottunarstofunnar Túns drög að nýjum reglum fyrir lífræna ylrækt og lagði fyrir ráðgjafanefnd. Þar er m.a. gerð tillaga að því að heimild til notkunar svepparotmassa renni út 31. maí 2009, eða ári seinna. Allt frá árinu 2008 þegar að starfshópurinn lagði til drög að nýjum reglum og til ársins 2010 voru breytingarnar ræddar innan greinarinnar og breytingar á kafla um ylrækt loks samþykktar vorið 2010 af ráðgjafarnefnd, en í henni eiga jafnan sæti fulltrúar félags bænda í lífrænni ræktun (VOR) og vottaðra vinnslustöðva.
Eftir það og allt til þessa dags hefur þó verið sóst eftir frestun á gildistöku reglunnar, sem varð til þess að endurtekið var gildistakan framlengd þar til lokafrestur var gefinn í byrjun síðasta árs til 31. júní 2013.
Að sögn Gunnar Á. Gunnarssonar framkvæmdastjóra Vottunarstofunnar Túns höfðu fulltrúar framleiðenda allt frá árinu 2010 gefið til kynna að unnið væri að úrbótum sem að myndu þá uppfylla kröfurnar sem settar eru í nýjum reglum. Þetta voru þó orðin tóm og í raun var lítið um undirbúning fyrir breytingar að ræða ef einhverjar. Þess vegna var sí og æ sótt um framlengingu enda félli lífræna vottunin að öðrum kosti úr gildi.
Lífræn ræktun tekur ekki aðeins til búsins sem framleiðir afurðirnar heldur dýravelferð og verndun umhverfisins almennt. Reglurnar um svepparotmassann snúast ekki hvað síst um dýravelferð, nokkuð sem almenningur er að vakna til vitundar um að þurfi að standast siðferðileg staðla. Í lagareglurm og stöðlum um lífræna framleiðslu er bannað að nota aðföng úr verksmiðjubúskap og fellur svepparotmassinn þar undir vegna þess að hann er að hluta til gerður úr slíkum aðföngum.
Í raun snýst málið um mjög einfalda hluti en sem þýða breytingar sem auðveldara er að reyna að komast hjá. Að sögn Vottunarstofunnar Túns uppfylla tveir íslenskir framleiðendur moltu þau gæði fylllega sem gerðar eru. Það er molta frá Gámaþjónustunni og frá Gæðamold. Fiskimjöl er ennfremur góður kostur. En moltugerð á eigin býli er best og auðvitað fullkomnlega í takt við hugmyndafræði lífrænnar ræktunar en mikið magn plöntuleyfa falla til á ylræktarstövðum og því ættu að vera hæg heimatökin.
Christina Stadler sérfræðingur hjá LBHÍ stóð að áburðarrannsókn sem átti einmitt að varpa ljósi á það hvað hægt væri að nota í stað svepparotmassans. Samanburður var gerður á svepparotmassa, plöntumoltu og búfjáráburði. Niðurstöður rannsókna hennar eru þær að molta úr búfjáráburði sé jafn góð og svepparotmassi og gæti því vel komið í hans stað. Niðurstöður benda einnig til þess að fiskimjöl sé betri áburðargjafi en sveppamassi.
Flestir ylræktarbændur hafa tekið upp nýjar aðferðir en Garðyrkjustöðin Akur hefur ekki viljað una nýjum reglum og fékk í fyrra m.a. ráðunaut til að kanna fyrir sig aðstæður annars staðar í Evrópu í því skyni að kanna hvort kröfur um notkun áburðar úr verksmiðjubúskap séu aðrar og/eða slakari annars staðar. Niðurstöður bentu til þess að einhverjir aðilar, m.a. í Noregi og Danmörku, kynnu að komast upp með að nota svipaðan svepparotmassa og hér var notaður en sem samæmist þó ekki þeirri kröfu að ekki skuli nota til lífrænnar ræktunar áburð frá verksmiðjubúum. Af þessum ástæðum er Garðyrkjustöðin Akur ekki lengur með vottun til lífrænnar framleiðslu.
Hér með er hvatt til þess að eigendur Akurs hefjist þegar handa við nauðsynlegar úrbætur sem aðrir ræktendur hafa þegar gert og hefji aftur lífræna framleiðslu.
Ljósmynd: Þórður Halldórsson bóndi á Akri, ljósm. Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Garðyrkjustöðin Akur er ekki lengur með lífræna vottun“, Náttúran.is: 26. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/26/gardyrkjustodin-akur-er-ekki-lengur-med-lifraena-v/ [Skoðað:28. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. júní 2014