Hæg breytileg átt er vettvangur þverfaglegrar vinnu þar sem unnar hafa verið hugmyndir er varpa ljósi á vistvænni, samfélagsmeðvitaðri, hagkvæmari og framsæknari íbúðarkosti í íslensku þéttbýli á 64. breiddargráðu í miðju Atlantshafi.

Markmiðið var að fá fram hugmyndir sem fela í sér endurskoðun viðmiða og varpa ljósi á nýja möguleika og ná fram hugmyndum sem mætti útfæra og framkvæma, en stuðla um leið að þverfaglegri umræðu sem brýnt er að haldi áfram.

Áhersla er lögð á: samfélagslega afstöðu, frjálst og óhefðbundið hugmyndaflæði, hugmyndafræðilegan og arkitektónískan styrk, vistvæna og byggingartæknilega framsækni, þétt byggðamynstur, góða nýtingu á byggðum fermetrum, og síðast en ekki síst vinnu með staðaranda og mótun úti- sem innirýma utan um daglegt líf íbúa í nýjum íbúðagerðum fyrir fjölbreytt fjölskyldumynstur.

Stefnt var að því að formgera tillögur sem má koma í frekari þróun og framkvæmd en meginmarkmiðið er að út úr verkefninu komi ígrundaðar hugmyndir um íbúða- og búsetukosti sem endurspegla nýja möguleika, viðhorf og væntingar.

Þarna hafa komið saman hagfræðingar, viðskiptafræðingar, verkfræðingar, arkitektar, hönnuðir, listamenn, þjóðfræðingar og fjölmiðlamenn sem hafa saman þróað hugmyndir að Reykjavík framtíðarinnar með sjálfbærni, samfélagsmeðvitund og hagkvæmni að leiðarljósi. Varpað er fram hugmyndum um íbúðabyggð í Skeifunni, íbúðabyggðir sem flétta saman græn svæði og atvinnusvæði, byggð á hafnarsvæði, byggð á bílastæðum og meira og fleira.

Þrír áfangar verkefnisins:

1. áfangi – Rannsóknarvinna
Fyrstu tvær vikurnar voru hóparnir að þróa vinnuferla, rannsaka, greina og kortleggja viðfangsefnið. Hver hópur leitaði að vísbendingum og mótaði sínar spurningar sem ræddar verða þvert á hópa þriðjudaginn 18. mars. Hvatt var til samtals, samvinnu og hugmyndflæðis milli hópa. Efni var kynnt þriðjudaginn 25. mars.

2. áfangi – Híbýli + staður
Leit að sýn og mótun húsrýmisáætlunar. Framsetning hugmynda um einingar/íbúðir sem endurspegla sýn fyrir síkvikt samfélag. í þessum áfanga var lögð áhersla á rýmismótun og skýra meginhugmynd. Samhliða fór fram leit að lóð sem styrkir hugmyndir höfunda. Lögð áhersla á líkön samhliða skissuvinnu. Efni var kynnt þriðjudaginn 29. apríl.

3. áfangi - Staður + híbýli
Hugmyndir um íbúðaform aðlagaðar að stað/lóð með áherslu á mótun sameiginlegra inni- og útirýma. Íbúðin skoðuð sem hluti af stærri heild, þyrpingu eða klasa sem saman geta myndað hverfi eða hverfishluta. Efni var kynnt þriðjudaginn 20. maí.

Á „Opinni samræðu um íbúðir og íbúðarhverfi framtíðarinnar“ sem haldin var í Iðnó í gær, laugardaginn 24. maí, kynntu hópar hugmyndir og tillögur að íbúðum og hverfum, sem allar eru á vinnslustigi og eru að spyrja spurningarinnar „hvernig viljum við lifa og búa í framtíðinni“. Í kjölfarið voru pallborðsumræður um verkefnin og möguleikana á raungervingu þeirra.

Hlusta á umfjöllun um verkefnið í þættinum „Vistvænt, hagkmæt, framsækið“ í Viðsjá þ. 23. maí sl.

Bakhjarlar verkefnisins eru: Hönnunarsjóður Auroru, Hönnunarmiðstöð, Reykjavíkurborg, Samtök Iðnaðarins, Félagsbústaðir, Búseti, Félagsstofnun stúdenta, Upphaf fasteignafélag, Listaháskóli Íslands og Velferðarráðuneytið.

 

Birt:
25. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Hæg breytileg átt“, Náttúran.is: 25. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/25/haeg-breytileg-att/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: