Jörðin er þriðja plánetan frá sólu og hún myndaðist fyrir um 4,56 milljörðum ára. Jörðin er eina plánetan í sólkerfinu sem hefur gnægð vatns á yfirborðinu, og þar sem er vatn, þar er líf. Súrefnið í lofthjúpi jarðar gerir það líf sem við þekkjum einnig mögulegt, en þó eru til örverur sem lifa súrefnisfirrtu lífi undir yfirborði jarðar, þannig að tilvist súrefnis er ekki endilega forsenda lífsins.

Jörðin hefur umtalsvert segulsvið sem er skapað af straumum í ytri kjarna plánetunnar. Eldvirkni er talsverð á Jörðinni og á henni eru flekahreyfingar og jarðskorpan er í stöðugri hringrás og á hægri hreyfingu. Þurrlendi Jarðar er annað hvort gulleitt eða grænt séð úr geimnum. Grænu svæðin eru skógar og graslendi sem eru mjög mikilvæg fyrir allt lífhvolfið, en gulleitu svæðin eru eyðimerkur. Loftsteinar hafa alltaf fallið á jörðina en af því að yfirborð hennar er sífellt að breytast, þá eru lítil ummerki um loftsteina á Jörðinni.

Stærsti fjallgarður Jarðar er Himalajafjallgarðurinn og þar trónir Mt. Everest hæst eða upp í 8480 metra hæð yfir sjávarmáli. Bergið í Mt. Everest takmarkar hæð fjallsins, þar sem jafnvægi ríkir á milli rofs annars vegar og upplyftingar fjallsins hins vegar vegna flekahreyfinga. Ef bergið í Everst væri sterkara gæti fjallið hugsanlega náð meiri hæð, en vegna rofs, nær fjallið ekki hærra.

Um 70% af yfirborði jarðar eru hafsvæði og er hafið það vistkerfi sem er ennþá mest ókannað. Unnið er að rannsóknum og kortlagningu hafsbotnsins, en sú vinna verður stöðugt nákvæmari og nákvæmari.

Birt:
6. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Jörðin“, Náttúran.is: 6. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/06/jordin/ [Skoðað:3. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 6. júní 2014

Skilaboð: