Oft er rætt um að við þurfum rými í kringum okkur. Við viljum geta dansað á stofugólfinu og hreyft okkur eðlilega í híbýlum okkar. Þetta er ekki síst mikilvægt hér á Íslandi þar sem fólk eyðir stórum hluta af tíma sínum innandyra og getur ekki eytt löngum stundum úti á götum og torgum.

En oft eru heimili okkar full af hlutum sem við höfum í raun og veru enga þörf fyrir. Ef þú hefur ekki notað einhvern hlut (nema jólaskrautið) undanfarna 12 mánuði, eru litlar líkur á því að þú þurfir raunverulega á þeim hlut að halda. Hvernig væri því að ganga um íbúðina og hugleiða hvaða hluti við þurfum og hvaða hluti við þurfum ekki. Kannski er kominn tími til að taka rækilega til og losa sig við draslið og þá hluti sem við bara notum alls ekki. Síðan er auðvitað frábær hugmynd að bæta ekki við meira drasli, þ.e. reyna að stjórna innkaupum heimilisins þannig að allt fari nú ekki úr böndunum.

Það sem er drasl fyrir okkur sjálf getur ef til vill nýst einhverjum öðrum. Skautarnir í bílskúrnum geta verið kærkomnir fyrir son nágrannans, bækurnar geta farið á bókasafn bæjarins og málmaa  í tölvunum okkar má endurvinna og nota aftur og aftur. Heimur endurvinnslunnar er heimur sem við erum bara rétt að byrja að uppgötva. Það er merkileg veröld, þar sem nánast engu er hent, heldur breytt í verðmæti. Svo þessi veröld geti orðið, er fyrsta skrefið að flokka sorpið innan veggja heimilisins, með þátttöku allrar fjölskyldunnar.

Það er rétt að benda fólki á að athuga fyrst hvaða flokkunarmöguleikar eru fyrir hendi í sveitarfélaginu, af því að ekki er tekið við öllum flokkum allsstaðar á landinu.

Í sumum sveitarfélögum er hægt að fá Blátunnu sem tekur við pappír, Endurvinnslutunnu og/eða Græna tunnu fyrir blandaða flokka s.s. pappír, málmhluti og plast en slík þjónusta er endurgjaldsskyld, sumstaðar valkvæð en annars staðar skylda.

Fyrst þegar byrjað er að flokka er gott að byrja á því að flokka dagblöð, auglýsingapappír, umslög og fleira slíkt frá og setja í sérstakt ílát eða poka til að fara með í grenndargám eða á endurvinnslustöð. Síðan er tilvalið að taka allar fernur, skola þær, þjappa þeim saman og koma í endurvinnslu með pappírnum eða í sér farveg, allt eftir því hvernig aðstæður eru í þinni heimabyggð. Bæta síðan smám saman við fleiri flokkum.

Til að flokkunin heppnist og gangi snurðulaust fyrir sig, er gott að útbúa eða fjárfesta í kössum fyrir hina ýmsu flokka. Hægt er að staðsetja flokkunarkassa í þvottahúsi, sameign, eða í bílskúrnum, og ef þú býrð í fjölbýli, getur borgað sig að kalla saman húsfund, skapa stemmningu fyrir flokkuninni og fá sem flesta til að sameinast um ílát og taka þátt.

Skilagjaldsskyldar umbúðir, s.s. einnota drykkjarumbúðir úr gleri, áli og plasti eru verðmæti sem allir ættu að koma til endurvinnslu. 16 krónu skilagjald fæst fyrir hverjar umbúðir og hægt er að koma þeim í verð á móttökustöðum Endurvinnslunnar um allt land.

Rafhlöðum er gott að safna í þar til gerða flokkunarkassa frá Efnamóttökunni en hægt er að losa þá í þar til gerða dunka á eldsneytisstöðvum N1 og Skeljungs. Þetta þýðir að nota má rafhlöðukassann aftur og aftur. Spilliefnum skal safna og skila í lokuðum ílátum á endurvinnslustöðvar. Gæta verður þó að því að sum tærandi efni leysa upp plast, önnur þola ekki gler og því þarf að gæta að því í hverskonar ílát spilliefni eru sett. Oft er best að geyma spilliefni og efnaleifar í upprunalegum ílátum með loki.

Hér á Endurvinnslukortinu og á Endurvinnslu-appinu finnur þú nánari upplýsingar um alla flokka, bæði Fenúr flokkunarmerkin (grænar skýringarmyndir), og aukaflokka (svart-hvítar skýringarmyndir) sem Náttúran útbjó til að hjálpa þér að finna upplýsingar um annað sem má eða má ekki endurvinna eða endurnýta á Íslandi í dag.

Birt:
5. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Hvernig flokka ég?“, Náttúran.is: 5. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/05/hvernig-flokka-eg/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. ágúst 2015

Skilaboð: