Íslenska sauðkindin er af hinu Norður-evrópska stuttrófukyni. Víkingar fluttu með sér meðal annars skandinavískt sauðfé þegar þeir settust að á Íslandi fyrir meira en þúsund árum síðan. Íslenska sauðkindin er lágfætt miðað við önnur sauðfjárkyn, ýmist hyrnd eða kollótt , ullarlaus á fótum og andliti og litafjölbreytileiki einkennir hana.

Um 500 þúsund kindur eru á íslandi í dag en sauðfjárbúskapur er ein aðalgrein íslensks landbúnaðar og hefur verið frá landnámi. Afurðir sauðkindarinnar eru ekki aðeins kjötið heldur einnig ullin sem er sérsaklega hlý og einangrandi. Áður fyrr var sauðamjólk einnig mikilvæg afurð. Kindurnar hafa bæði fætt og klætt íslensku þjóðina og verið undirstaða byggðar í landinu

Landnýting í aldanna rás s.s. skógarhögg og búfjárbeit hefur ásamt óblíðu veðri og afleiðingum eldgosa orðið til þess að landið, sem áður var skógi vaxið frá fjöru til fjalls er nú aðeins svipur hjá sjón. Með of mikilli nýtingu gróðurauðlindarinnar raskaðist jafnvægi náttúrunnar og gróður- og í kjölfarið jarðvegseyðing hófust. Þegar gróður og jarðvegur eru horfinn bresta allar stoðir bæði mannlífs og dýralífs og landsvæði verða óbyggileg. Það er því til mikils að vinna að jafnvægi sé á milli burðargetu lands og landnýtingar þannig að okkur takist að viðhalda og í sumum tilfellum endurheimta vistkerf.

Gróðurvernd fellst m.a. í góðri beitarstjórnun, sem stundum felst í friðun lands um lengri eða skemmri tíma til að landið grói, vistkerfin byggist upp og hringrásir þeirra virki. Uppgræðsla flýtir því ferli. Krafan um lokuð beitarhólf verður æ háværari en enn eru viðkvæm svæði og rofsvæði beittar.

Birt:
2. maí 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Sigþrúður Jónsdóttir „Sauðfé“, Náttúran.is: 2. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/02/saudfe/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. júní 2014

Skilaboð: