Mengun er það þegar aðskotaefni komast út í umhverfið þar sem þeir geta valdið óstöðugleika, röskun, skaða og óþægindi í vistkerfinu. Mengun getur verið kemískt efni eða orka eins og hávaði, hiti eða ljós. Mengunarvaldar geta komið fyrir náttúrulega en þeir kallast aðskotaefni þegar þeir eru meira en náttúrulegt magn.

Mengun frá álverum
Útblásturssvæði (þynningarsvæði) álvera er svæðið næst álverum þar sem þynning mengunar á sér stað og eftirlitsaðilar samþykkja að mengun megi vera yfir umhverfismörkum. Við ákvörðun þynningarsvæðis er tekið tillit til landfræðilegra aðstæðna. Sem dæmi þá er þynningarsvæði álvers Alcoa í Reyðarfirði samtals um 6,0 km2. Helstu mengunarvaldar frá álverum er brennisteinsdíoxíð, flúor, PAH efni (fjölhringa arómatísk kolvetni) og koltvísýringur (CO2). Magn flúors hefur mælst langt yfir mörkum í Reyðarfirði þrátt fyrir að í mati á umhverfisáhrifum fyrir álverið var ekki reiknað með því að það mengaði út fyrir þynningarsvæðið. Á svæðinu í kringum álverið í Straumsvík, utan þynningarsvæðis, hefur mengun í gróðri mælst langt yfir mörkum. Þetta sýnir okkur að aðferðafræðin við mat á umhverfisáhrifum (MÁU) er langt frá því að veita öryggi fyrir því að mengun geti raskað jafnvæginu í lífríkinu auk þess sem samfélagslegir þættir eru oft ekki teknir nægilega inn í myndina.

Flúormengun frá álveri og járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga
Iðjuverin á Grundartanga losa árlega mikið magn eiturefna út í andrúmsloftið. Skaðsemi efna á borð við flúor og brennistein fyrir náttúru og lífríki er vel þekkt. Losun eiturefnanna á sér stað allan ársins hring. Þrátt fyrir það fer umhverfisvöktun vegna flúors í andrúmslofti utan iðjuveranna aðeins fram frá apríl til október, þ.e. hálft árið. Þetta gerist þrátt fyrir margítrekaðar ábendingar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð um að hefð sé fyrir útigangi og vetrarbeit sumra húsdýra. Íbúar í Hvalfirði hafa staðið fyrir undirskriftasöfnun til að hvetja umhverfisyfirvöld og viðkomandi stóriðjufyrirtæki til að hefja mælingar allan ársins hring.

Brennisteinsmengun frá jarðvarmavirkjunum
Með tilkomu Hellisheiðarvirkjunar hefur viðvarandi lykt af brennisteinsvetni (H2S) fundist á höfuðborgarsvæðinu.
Brennisteinninn hefur ekki aðeins áhrif á heilsu manna og dýra, á gróður og á raftæki þar sem fyrr fellur á málma, þeir tærast og leiðni í snertiflötum minnkar. Skaðinn getur því orðið gríðarlegur verði ekkert að gert.

Orkuveita Reykjavíkur hefur verið með tilraunaverkefni í gangi (SulFix) sem felur í sér að brennisteinsvetni í þéttivatni frá virkjun sé dælt niður í jarðlög þar sem brennisteinninn fellur út sem súlfíðsteindin pýrít. Verkefnið hefur þó enn sem komið er ekki skilað tilætluðum árangri en stefnt er að því að 15-20% af brennisteinsvetninu verði þannig komið fyrir í jarðlögum og minnki líkur á því að styrkur þess í andrúmslofti fari yfir mörk í byggð.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur veitt Orkuveitu Reykjavíkur undanþágu til tveggja ára frá hertum kröfum í reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti sem taka gildi 1. júlí 2014, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Með þessum hertum kröfum er óheimilt að fara yfir heilsuverndarmörk vegna brennisteinsvetnis í andrúmslofti en í gildandi reglugerð er heimilt að fara fimm sinnum á ári yfir þessi mörk. Undanþágan felur það í sér að Orkuveita Reykjavíkur skal uppfylla heilsuverndarmörkin eins og þau er í dag, þ.e. 50 µg/m3 sem sólarhrings meðaltal, og má einungis fara yfir þau mörk fimm sinnum á ári.

 

Birt:
2. maí 2014
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Mengun“, Náttúran.is: 2. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/02/mengun/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. júní 2014

Skilaboð: