Fyrirtæki er samheiti yfir hvers konar formlega skráðan rekstur. Fyrirtækjaskrá heldur utan um öll fyrirtæki og félög sem skráð eru á Íslandi.

Það sem áhugavert er að ræða um hér í Húsinu og umhverfinu eru fyrirtæki sem uppfylla ákveðin viðmið, bæði á sviði samfélags- og umhverfismála. Náttúran.is hefur frá árinu 2007 lagt mikinn metnað í að safna upplýsingum, skrá, greina og kortleggja, og birtir upplýsingarnar í formi Grænna síðna og Grænna korta þar sem fyrirtækin eru flokkuð eftir því hvað þau leggja til samfélagsins á þessum sviðum.

Flokkarnir eru fjölmargir og vottanir og viðmið sem og fréttir og viðburðir tengjast hverju og einu fyrirtæki. Þetta gerum við til þess að að gefa yfirsýn yfir þá fjölmörgu samfélags- og umhverfisvænu kosti sem fyrir eru í landinu og hvetja fjólk til að nýta sér þá og eiga frekar viðskipti við þau fyrirtæki sem vinna á meðvitaðan hátt enda er það forsenda þess að við getum skapað sjálfbært samfélag.

Merkja má hve umhverfismeðvituð fyrirtæki eru með því m.a. að skoða hvort þau hafi umhverfisvottun, umhverfisstjórnunarkerfi, hafi sett sér skýr umhverfismarkmið og hvort að fyrirtækið hafi verið verðlaunað af opinberum aðilum fyrir umhverfisstarf sitt.

Umhverfisviðmið fyrir fyrirtækiþurfa að uppfylla nokkur einföld skilyrði: Vera mælanleg, hafa grunnviðmið og tímaramma, vera afmörkuð og með skilgreinda mæliaðferð, vera raunsæ og taka tillit til ytri áhrifa og breytinga í atvinnurekstri.

Í gamansömum tón má segja að setning umhverfismarkmiða miðist við að mæla „skít inn og skít út”. Með því er átt að með því að mæla það sem við kaupum og hvað við látum frá okkur metum við sóun í fyrirtækinu. Því meiri sóun því meiri umhverfisspjöll og tengist það yfirleitt fjárhagslegum gildum einnig. Umhverfisviðmiðin fjalla yfirleitt um að gera meira úr minna sem einnig má kalla umhverfishagræði.

Fyrirtækjaskrá.
Nánar um Grænar síður.
Nánar um Græna kortið.

Birt:
19. maí 2014
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir, Finnur Sveinsson „Fyrirtækin“, Náttúran.is: 19. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/02/atvinnulif-fyrirtaekin/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 2. maí 2014
breytt: 13. júní 2014

Skilaboð: