Stjörnurnar sem við sjáum á næturhimninum eru hluti af tröllaukinni stjörnufjölskyldu sem nefnist Vetrarbrautin.

Sólin er stjarna í miðju sólkerfisins, ein af yfir 200 milljörðum sólstjarna í Vetrarbrautinni okkar. Sólin er í um 26.000 ljósára fjarlægð frá miðju Vetrarbrautarinnar en aðeins 150 milljón km frá jörðinni.

Merkúríus er innsta og minnsta reikistjarna sólkerfisins, minni en tunglin Ganýmedes og Títan. Merkúríus er bergreikistjarna. Yfirborðið er mjög gígótt og gamalt og líkist einna helst yfirborði tunglsins. Á Merkúríusi eru fjórir gígar nefndir eftir Íslendingum.

Venus er næst innsta reikistjarnan. Á Venusi er einn dagur lengri en árið. Venus hefur þykkan lofthjúp sem er að mestu úr koldíoxíði og á yfirborðinu er hærra hitastig en í bakaraofni. Á yfirborðinu eru sárafáir gígar en þeim mun meira af eldfjöllum og hraunbreiðum.

Jörðin er þriðja reikistjarnan frá sólu og sú fimmta stærsta. Jörðin er í um 150 milljón km fjarlægð frá sólinn og snýst einn hring umhverfis hana á einu ári. Jörðin hefur þykkan lofthjúp, virkt og síbreytilegt yfirborð og eitt fylgitungl. Jörðin er heimkynni milljóna lífvera sem allar eru af sama meiði.

Tunglið er eini náttúrulegi fylgihnöttur jarðar. Tunglið er fjórðungur af stærð jarðar og í um 384.000 km fjarlægð. Yfirborð tunglsins er mjög gígótt og gamalt. Tunglið er eini hnötturinn sem menn hafa heimsótt utan jarðar.

Mars er fjórða reikistjarnan frá sólu og sú næst minnsta. Hann er bergreikistjarna með þunnan lofthjúp. Á yfirborði Mars eru gígar, eldfjöll, gljúfur og pólhettur. Á Mars eru glögg merki um fljótandi vatn og því vel hugsanlegt að á reikistjörnunni hafi líf þrifist snemma í sögunni.

Júpíter er fimmta reikistjarnan frá sólinni. Hann er gasrisi og hefur því ekkert fast yfirborð. Júpíter er langstærsta reikistjarna sólkerfisins. Lofthjúpur Júpíters er mjög virkur og litríkur. Í kringum Júpíter er fjöldi tungla, meðal annars Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó sem Galíleó fann fyrir rúmum 400 árum.

Satúrnus er næst stærsta reikistjarna sólkerfisins. Hann er gasrisi líkt og Júpíter og hefur því ekkert fast yfirborð. Hringarnir eru hans helsta einkenni. Þeir eru úr ís og ryki og alveg einstaklega tignarlegir á að líta í gegnum góðan stjörnusjónauka. Við Satúrnus eru líka forvitnileg tungl eins og Enkeladus og Títan.

Úranus er sjöunda reikistjarnan frá sólu. Úranus er örlítið stærri að þvermáli en Neptúnus en massinn er ögn minni. Þessar tvær reikistjörnur eiga margt sameiginlegt og eru oft flokkaðar sem vatnsrisarnir í sólkerfinu. Þessu ræður fimbulkuldinn yst í sólkerfinu en sökum hans eru ýmsar gastegundir í föstu eða á fljótandi formi.

Neptúnus er áttunda og ysta reikistjarnan frá sólu. Neptúnus er vatnsrisi eins og Úranus vegna þess hve kalt er svo utarlega í sólkerfinu. Hann hefur hringa líkt og hinar reikistjörnur ytra sólkerfisins. Stærsta tungl Neptúnusar nefnist Tríton.

Plútó er dvergreikistjarna en var eitt sinn í hópi reikistjarna. Hann er mun minni en mörg af tunglum reikistjarnanna. Plútó er að mestu úr blöndu íss og bergs. Enginn veit nákvæmlega hvað leynist á yfirborði hans. Um Plútó ganga fimm tungl.

Sævar Helgi Bragason (2011). Pláneturnar. Stjörnufræðivefurinn stjornufraedi.is (sótt 21.05.2014)

Birt:
2. maí 2014
Tilvitnun:
Sævar Helgi Bragason „Stjörnur“, Náttúran.is: 2. maí 2014 URL: http://nature.is/d/2014/05/02/stjornur/ [Skoðað:30. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 31. júlí 2014

Skilaboð: