Sólin
Sólin hefur ætíð verið mannkyninu mjög mikilvæg enda má segja að sólarljósið sé grundvöllur lífsins á Jörðinni. Á steinöld bjuggu menn til mannvirki eins og Stonehenge sem greinilega sýna að þeir þekktu gjörla gang sólar.
Sólin hefur verið tilbeðin sem guð í mörgum trúarbrögðum og er almennt tákn fyrir lífgjöf, birtu og yl. Í keltneskum trúarbrögðum er sólin alltaf táknuð með hring t.d. á hinum keltnesku krossum. Hringur sólar er einnig í vissum skilningi tákn fyrir eilífðina.
Allir orkugjafar Jarðar eru í einhverjum skilningi komnir frá sólu. Ljóstilífunin hjá plöntum er undirstaða lífsins á landi og ljóstillífun hjá svifi í sjónum er undirstaða lífsins í hafinu.
Meðalfjarlægð sólar frá Jörðu eru u.þ.b. 150.000.000 km. Ljósið er um 8 mínútur og 19 sekúndur að ferðast frá sólu til Jarðar og án sólarljóssins væri ekkert líf á Jörðinni.
Sólin er dæmigerð venjuleg sólstjarna af gerðinni G2V á meginröð og er hún staðsett í miðju sólkerfisins okkar.
Þvermál hennar er um 109 sinnum stærra en þvermál Jarðar og massi hennar er um 330.000 sinnum stærri en massi Jarðar.
Hitastig við yfirborð sólar er um það bil 5500 °C. Sólin brennir um 620 milljónum tonna af vetni á hverri sekúndu og eyðir hún eldsneyti sínu smám saman. Kenningar eru til um að eldsneyti sólarinnar verði uppurið eftir um 4,6 milljarða ára og mun sólin þá hugsanlega kulna og taka miklum breytingum.
Hin heita kóróna sólarinnar þenst stöðugt út og myndar sólarvind sem er straumur rafhlaðinna agna sem nær langt út í geim.
Enn þann dag í dag er margt um sólina á huldu og ýmislegt í hegðun hennar sem er enn óútskýrt.
Birt:
Tilvitnun:
Ingibjörg Elsa Björnsdóttir „Sólin“, Náttúran.is: 30. apríl 2014 URL: http://nature.is/d/2014/04/30/sol/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 12. júní 2014